30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4617 í B-deild Alþingistíðinda. (3914)

411. mál, hvalveiðar

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þakka þessar umr. Mér fannst koma fram í reynd mikil samstaða um þessi mál þó að menn séu ekki algerlega sammála. Það er nú svo að hér er um viðkvæmt mál að ræða og ég hef ekki séð neina ástæðu til þess að vera að tilkynna um það sérstaklega þótt sjútvrh. væri að vinna skv. vilja Alþingis í þessu viðkvæma máli. Hins vegar fer sá undirbúningur nú að komast á það stig að nauðsynlegt er að ræða framhaldið.

Við töldum nauðsynlegt að kynna málið í vetur í utanrmn. til þess að fullvissa okkur um hvort rétt væri að vinna þá rannsóknaráætlun sem nú hefur verið unnið að og síðan framkvæmdaáætlun um þær rannsóknir á grundvelli þeirrar miklu skýrslu sem þá lá fyrir.

Ég vil taka það sérstaklega fram út af ummælum sem komið hafa fram í umr. að það er ekki á dagskrá af minni hálfu að endurskoða ákvörðun Alþingis og ég mun ekki beita mér sérstaklega fyrir því. Ég vil að það komi hér skýrt fram. Ég hef sannfærst um það og tel að sú ákvörðun hafi verið rétt og ég ætla ekki að styðja það frekari rökum. Við Íslendingar höfum alltaf lagt okkur fram um að reyna að ná samstöðu á alþjóðavettvangi um okkar mál. Við erum mjög háðir alþjóðlegri samvinnu og okkur ber að vinna málefnum okkar framgang eftir því sem við best getum innan alþjóðlegra samtaka. Hitt er svo annað mál að það eru mjög margir innan Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem þar ráða úrslitum, sem hafa afar lítið inngrip í þessi mál, því miður, en við því getum við lítið gert. En það ætti að gera okkur kleift að vinna málum okkar framgang.

Ég vil aðeins nefna það að auðvitað eru þessar rannsóknir mjög ítarlegar og vil aðeins nefna tíu atriði í því sambandi: Það er líffræði nytjahvalanna, líffræði friðaðra hvalategunda, samband afla og sóknar, hvalmerkingar, radíómerkingar hvala, hvalatalningar, ljósmyndun hvala, hvalir í vistkerfi íslenska hafsvæðisins, reiknilíkön af hvalastofnunum, eggjahvítusamsetning hvalablóðs og vefja og ýmis önnur verkefni. Hér er því um mjög þýðingarmikið mál að ræða, ekki aðeins fyrir okkur Íslendinga heldur fyrir Alþjóðahvalveiðiráðið og hvalastofnana í heiminum almennt, því að hér er einstök aðstaða til þess að stunda slíkar rannsóknir sem á enga sína líka í heiminum.

Ég tek undir það að að sjálfsögðu þarf að kynna þetta mál. Það hefur verið gert innan Alþjóðahvalveiðiráðsins, innan vísindanefndarinnar, og þau gögn sem við erum nú að undirbúa verða lögð fyrir vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins fyrst og síðan rædd á væntanlegum fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins sem verður haldinn í Bournemouth í Bretlandi í sumar.

Ég vænti þess að upplýsingar þessar hafi reynst fullnægjandi á þessu stigi og tel afar mikilvægt að við náum góðri samstöðu um framhald þessa máls. Það er mikið í húfi. Það er engan veginn víst að okkar áætlunum verði vel tekið af þeim aðilum sem um þær munu fjalla og því má vel búast við því að um það geti orðið einhver ágreiningur og einhver tortryggni. Það er mjög líklegt. Þess vegna vil ég taka það sérstaklega fram að til þess að forðast alla slíka tortryggni er að sjálfsögðu nauðsynlegt að vinna í máli þessu að fullu skv. vilja Alþingis.