30.04.1985
Neðri deild: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4648 í B-deild Alþingistíðinda. (3950)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að gera hér örfáar athugasemdir við nokkur þeirra atriða sem fram hafa komið í ræðum hv. 3. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Reykv. í umr. um þessi mál. Það er athyglisvert að gagnrýni þeirra er af ólíkum toga spunnin. Hv. 3. þm. Reykv. leggur á það mikla áherslu í gagnrýni sinni að með þeim breytingum, sem þessi frumvörp fela í sér, sé verið að hverfa að nokkru leyti frá miðstýringu og samþjöppun valds í einni stofnun og dreifa ákvarðanatöku. Hann telur það á hinn bóginn vera nokkurt fagnaðarefni að með öllu sé ekki horfið frá því sjónarmiði að ríkið hafi nokkrum skyldum að gegna varðandi uppbyggingu atvinnulífsins.

Hv. 5. þm. Reykv. telur á hinn bóginn þessum frv. það til foráttu að ekki sé nógu langt gengið í valddreifingu í þá veru að gefa atvinnulífinu meira frelsi og láta það hafa meira sjálfstæði. Þeir hafa báðir vikið að því að frumvörpin feli í sér að ein stofnun sé leyst upp og eftir standi fjögur fyrirbæri, stofnanir og sjóðir. Ég held að einmitt þetta sýni að þessi frv. miða að því að draga úr miðstjórnarvaldi og koma á meira sjálfstæði í atvinnulífinu. Auðvitað er það svo að í ýmsu efni mætti ganga lengra á þessari braut en um þetta hefur orðið samkomulag á milli stjórnarflokkanna.

Hv. 3. þm. Reykv. flutti hér ræðu næstum því með tárin í augunum yfir hinni fornu stofnun, Framkvæmdastofnun ríkisins, sem vinstri stjórnin 1971 kom á fót og ætlað var af forustumönnum Alþb. á sínum tíma að verða allsherjar miðstýringarstofnun varðandi fjárfestingu, varðandi hagrannsóknir, varðandi ráðgjöf um hagfræðileg málefni og hvers konar áætlanagerð. Að vísu fór það svo að þessi stofnun varð aldrei í reynd það mikla bákn sem Alþb. stefndi að. En um margt var hún þannig uppbyggð að valdi var um of þjappað saman og ákvarðanir ekki í öllum tilvikum teknar um ráðstöfun fjármagns með tilliti til arðsemiskröfu. Einmitt það atriði skiptir auðvitað mestu máli ef við ætlum okkur nú í alvöru að snúa okkur að því verkefni að hefja hér nýja framfarasókn í atvinnumálum.

Það voru athyglisverðar upplýsingar sem hv. 3. þm. Reykv. benti hér á varðandi framleiðni á hverja unna vinnustund í landinu. Þar stöndum við langt að baki öðrum þjóðum. Hv. 5. þm. Reykv. benti enn fremur á að það fjármagn, sem við höfum varið til fjárfestingar í atvinnumálum, hefur skilað miklu minni arði en þekkist meðal annarra þjóða. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að lífskjör hér á landi eru ekki með sama hætti og hjá okkar nágranna- og viðskiptaþjóðum og þessu verðum við því að breyta. Við verðum að gera þær kröfur að fjármagnið, sem varið er til atvinnuuppbyggingar, skili meiri arði í þágu atvinnulífsins sjálfs og launafólksins sem í atvinnufyrirtækjunum vinnur. Afkoma þess er undir því komin enda hafa samtök launþega á undanförnum árum lagt á það mikla áherslu að breyta yrði stefnunni í atvinnumálum einmitt út frá þessu sjónarmiði.

Frá mínum bæjardyrum séð er alveg ljóst að þær breytingar, sem hér er verið að gera og unnið hefur verið að að undanförnu, miða að því að ná þessum markmiðum. Auðvitað mætti hafa skrefin stærri og fara með meiri hraða að þessu marki. Um það hefur að vísu ekki náðst pólitískt samkomulag og alltaf álitaefni hversu skynsamlegt það er að taka breytingar af þessu tagi með of miklum hamagangi. Það er eðlilegt að við tökum okkur nokkurn tíma við að færa okkur frá því kerfi, sem við höfum búið við, til nýrra hátta.

Ég ætla þá að víkja í nokkrum atriðum að einstökum gagnrýnisatriðum sem fram komu í ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hann hélt því fram að með frv. um þátttöku ríkisins í hlutafélagi til að örva nýsköpun í atvinnulífi og um heimildir annarra aðila til þátttöku í því félagi væri í reynd verið að búa til ríkisfyrirtæki í stað Framkvæmdasjóðs. Þetta er alrangt. Hér er verið að koma á fót hlutafélagi, að vísu með verulegri þátttöku ríkisins, en það er markmiðið með stofnun félagsins að atvinnulífið sjálft eigi þar meiri hluta. Með því er verið að stíga skref frá pólitískum ákvörðunum við atvinnuuppbyggingu yfir til þess að atvinnulífið sjálft hafi þar meiri hönd í bagga og í því skyni að tryggja fremur en verið hefur að arðsemissjónarmið ráði varðandi uppbyggingu atvinnulífsins. Það er ein meginforsenda fyrir þessari skipan mála og samkomulagi stjórnarflokkanna um þennan hátt á framgangi mála að atvinnulífið sjálft verði í meiri hluta í þessu fyrirtæki. Það á eftir að reyna á það atriði, það kemur á daginn, en ég geri mér vonir um að atvinnulífið muni sýna þessu framtaki verulegan áhuga.

Þm. fór einnig mörgum orðum um að hér væri verið að koma á óeðlilegri skipan mála að því er varðaði starfsskiptingu í ríkisstjórn Íslands og stjórnarráðinu. Hann minnti á að Framkvæmdastofnun heyrði á sínum tíma undir ríkisstj. í heild. Þar var um að ræða pólitískt samkomulag þeirra flokka sem að þeirri breytingu stóðu sem miðaði fyrst og fremst að því að pólitísk stjórn væri á fjárfestingarákvörðunum, áætlanagerð og öllum þeim atriðum er lutu þá að almennri tillögugerð og rannsóknum varðandi hagfræðileg álitaefni. Um þetta urðu stjórnarflokkarnir á sínum tíma að ná samkomulagi vegna þess að sambúðin var ekki með betri hætti en þeim að þetta varð að heyra undir ríkisstj. í heild.

Ríkisstj. er ekki í eðli sínu fjölskipað stjórnvald og það hefur verið lögð á það mikil áhersla einmitt upp á síðkastið að framfylgja þeim hugmyndum sem liggja að baki stjórnskipaninni að þessu leyti. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt að mál heyri undir einn ráðh. Mál eru síðan afgreidd á milli stjórnarflokka með hefðbundnum hætti eftir eðli þeirra hverju sinni. En það er eitt af framfaraskrefunum sem stigin eru með þessum hætti að verið er að stroka yfir þá gömlu skipan sem komið var á þegar kommissarakerfið var sett á fót á sinni tíð. Það hlýtur að vera almennt álitið skref til framfara og undirstrikun á því að með öllu sé horfið frá hinu gamla kerfi.

Þm. minntist einnig á að vald Alþingis hefði verið takmarkað. Nú kysi það einungis stjórn Byggðastofnunar. Að ýmsu leyti takmarkast vald Alþingis sjálfs þegar breytingar eins og þessar eru gerðar. Hér er verið að stíga skref sem miða að því að skilja meira á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins, það fer ekkert á milli mála. Það er markmiðið með þessum breytingum. Það hefur verið grundvallarþáttur í okkar stjórnskipan að greina þar á milli og ýmsum kann að finnast að hér séu ekki stigin nægjanlega stór skref í því efni. En það er eitt af höfuðmarkmiðunum með þessari breytingu að greina þarna á milli. Fyrir þá sök er einnig eðlilegt að embættisstjórn sé sett yfir Framkvæmdasjóð en eðli hans breytist í verulegum atriðum með þessum frumvörpum ef að lögum verða. Það er ekki lengur gert ráð fyrir því að Framkvæmdasjóður sé milligönguaðili um allar lántökur fjárfestingarsjóðanna og í reynd er verið að ljúka því hlutverki sjóðsins. Hann hefur hins vegar enn á sínum herðum miklar skuldbindingar sem eðlilegt er að hann ljúki og eðlilegt að hann verði af þeim sökum starfræktur áfram og fjárfestingarlánasjóðir fái að taka sín lán í gegnum hann ef þeir óska. En það eru einnig á döfinni miklar breytingar á kerfi fjárfestingarlánasjóðanna sem munu væntanlega fela í sér heimildir þeirra til að taka lán upp á eigin spýtur án milligöngu Framkvæmdasjóðs. Það á að draga úr kostnaði og gera starf fjárfestingarsjóðanna einfaldara og dregur það auðvitað úr því hlutverki sem Framkvæmdasjóður hefur haft fram að þessu.

Hv. 3. þm. Reykv. hafði einnig af því miklar áhyggjur að forsrh. væri falið það stjórnskipulega hlutverk að þróunarfélagið væntanlegt yrði undir hans verndarvæng. Hann spurði hvort samið væri um meðferð hlutabréfa ríkisins, hvort forsrh. ætti að ráða lánveitingum til hins nýja félags, hvort hann ætti að hafa frumkvæði að stofnun félagsins, kaupum hlutabréfa og þeim áætlunum og verkefnum sem fyrirtækið á að annast. Allt er þetta á miklum misskilningi byggt. Það er eðlilegt að eignir fyrirtækis af þessu tagi, sem ríkið á, heyri undir ákveðinn ráðh. og um það varð samkomulag að þær heyrðu undir forsrh. í þessu efni. Meginatriðið er það að hér er verið að stofna sjálfstætt hlutafélag og forsrn. mun eðlilega standa að undirbúningi þeirrar stofnunar. En félagið sjálft, þegar það verður komið á fót, mun auðvitað taka ákvarðanir um það hverjir verða starfsmenn fyrirtækisins, hver verður þar í forsvari og taka síðan ákvarðanir um aðgerðir fyrirtækisins. Það verður verkefni þessa hlutafélags með sama hætti og önnur hlutafélög starfa og þar kemur rn. hvergi nærri. Það fer einungis með eignaraðild ríkisins að þessum hlutabréfum.

Þm. hafa einnig áhyggjur af því að í frv. kæmi ekki nákvæmlega fram með hvaða hætti væri verið að efla atvinnulífið með þessu fyrirtæki og þeim breytingum sem hér er verið að gera. Ég skil áhyggjur hans út frá því sjónarmiði að hann sér ekki neitt geta gerst í atvinnumálum öðruvísi en á þann veg að ríkið hafi þar um alla forustu, að ríkið geri áætlanir, að ríkið ákveði hvað sé skynsamlegt að framkvæma og framleiða í landinu. Við höfum af því langa reynslu að þetta leiðir ekki til framfara og aðrar þjóðir hafa af því miklu dýrkeyptari reynslu en við að þetta leiðir til stöðnunar og bágra lífskjara. Hér er því verið að fara inn á aðrar brautir. Það er ekki verið að, gefa forskriftir um það fyrir fram að hvaða verkefnum fyrirtækið eigi að vinna, hvaða greinar atvinnulífsins það eru sem fyrirtækið á fyrst og fremst að stuðla að, það verður fyrirtækið sjálft að finna út eftir því sem aðstæður krefja á hverjum tíma. Þar um á ekki að gilda opinber forskrift.

Það er einnig alrangt, sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Reykv., að verið væri að draga úr áherslu á byggðaverkefni með stofnun sérstakrar Byggðastofnunar. Þvert á móti er hér verið að afmarka verksvið þessarar stofnunar með skýrari hætti en verið hefur. Hún mun hafa fjármagn til ráðstöfunar í sama mæli og áður. Það er hins vegar stefna stjórnarflokkanna að Byggðastofnun verði ekki sjálfvirkur viðbótarlánasjóður eins og Byggðasjóður hefur að mestu leyti verið heldur geti tekið með sjálfstæðum hætti á þeim verkefnum sem hún telur brýnast að sinna á hverjum tíma og þannig að mínu mati rækt betur hlutverk sitt sem eiginleg byggðastofnun. Það er hins vegar rétt, sem fram kom í ræðu hv. þm., að nú skiptir meginmáli að auka hagvöxt og það skiptir meginmáli að við náum þeim árangri að hagvöxtur aukist hér meira en í helstu nágranna- og viðskiptalöndum okkar.

Það eru ekki mörg ár síðan forustumenn Alþb. höfðu uppi stór orð um það að hagvaxtarstefnan væri úrelt orðin. Það mætti ekki minnast á arðsemi atvinnulífsins og hagvöxtur væri af hinu illa. Nú væru ný og önnur sjónarmið komin á dagskrá. Það er þess vegna fagnaðarefni að formaður Alþb. skuli hér við þessa umr. á ný viðurkenna að aukinn hagvöxtur er forsenda framfara í landinu, að aukinn hagvöxtur er forsenda fyrir því að við getum bætt lífskjör launafólksins á Íslandi.

Um margt get ég verið sammála þeim athugasemdum sem fram komu hjá hv. 5. þm. Reykv. Það er rétt, sem hann benti á varðandi Byggðasjóð, að hann hefur að stórum hluta til verið sjálfvirkur viðbótarlánasjóður. Nú er ætlunin að breyta því og taka upp önnur vinnubrögð. Ég get hins vegar ekki fallist á að það sé farsælasta leiðin til að stuðla að eðlilegri atvinnuuppbyggingu í landinu að kljúfa landið upp í fylki með sjálfstæðu skattlagningarvaldi. Ég held að það skipti ákaflega litlu máli um framfarir í landinu þó að við búum til nýtt stjórnsýslukerfi, komum upp dýrara stjórnsýslubákni í landinu. Þvert á móti held ég að það mundi frekar tefja fyrir framförum en hitt. Sjálfstætt skattlagningarvald fylkja mundi heldur ekki auðvelda það að færa fjármagn á milli landshluta með skattlagningu og stuðningi við atvinnuuppbyggingu.

Hann vék einnig að því að það þyrfti að breyta gengisskráningarvaldinu og færa það vald út til útflutningsfyrirtækjanna. Það er rétt að það er meginatriði varðandi viðgang framleiðslustarfseminnar í landinu, sem að stærstum hluta til er úti á landsbyggðinni, að hún fái í eðlilegum mæli að njóta þeirra verðmæta sem hún skapar og þar skiptir gengisskráningin mestu máli. Efasemdir, sem uppi eru í þessu efni, byggjast á því að gengi krónunnar sé ekki rétt skráð, það sé of hátt. Fyrir þá sök hafa menn verið að koma fram með hugmyndir um það að gefa gjaldeyrisverslunina algerlega frjálsa þannig að útflutningsfyrirtækin gæfu selt á frjálsum markaði gjaldeyrinn fyrir útflutningsafurðir sínar.

Ég er þeirrar skoðunar að það megi rýmka frelsi varðandi meðferð á gjaldeyri sem fæst fyrir útflutningsafurðir og það hefur í dag verið tekin ákvörðun einmitt í því efni. Ég er hins vegar ekki sannfærður um að breyting af þessu tagi leysi allan vanda. Menn verða líka að gera sér grein fyrir því að ef menn ætluðu einvörðungu að styrkja stöðu landsbyggðarinnar með þessu móti og ef menn telja að gengi krónunnar sé of lágt skráð í dag, þá eru þeir að tala um að færa fjármuni frá launafólkinu í landinu almennt yfir til þessara fyrirtækja. Auðvitað mundi önnur skráning á gengi krónunnar geta styrkt stöðu þeirra og þeirra launþega sem við þau starfa. En það kemur niður á öðrum launþegum í landinu sem þurfa fyrir vikið að kaupa vöru og þjónustu við dýrara verði. Þessar staðreyndir verða menn að hafa í huga þegar um þetta er verið að fjalla, að það er verið að færa fjármuni frá launafólki yfir til atvinnufyrirtækja með gengisskráningunni og þess vegna er það mitt mat að það sé ekki á þessu stigi tími til að gefa gjaldeyrissöluna alfrjálsa með þessum hætti. En hitt er satt og rétt að í því efni má auka frelsi manna til meðferðar á gjaldeyri eins og nú hefur verið tekin ákvörðun um.

Ég er í meginatriðum sammála þeim sjónarmiðum sem fram komu hjá hv. 5. þm. Reykv. um það að hlutverk ríkisins í þessum efnum sé fyrst og fremst það að móta almenna efnahagsstefnu, draga úr sveiflum í þjóðfélaginu, hafa hemil á verðbólgu og stuðla að því að samkeppnishæfni fyrirtækja sé góð og að íslensk fyrirtæki hafi sambærilega stöðu við þau fyrirtæki sem þau eru að keppa við á erlendum mörkuðum og við innflutning. Þessi frumvörp sem hér liggja fyrir og þau frumvörp, sem í deiglunni eru og munu sjá dagsins ljós innan tíðar varðandi breytingar á kerfi fjárfestingarlánasjóðanna, miða einmitt að þessu.

Auðvitað gætum við orðið sammála um að það mætti stíga stærri skref. En hér er ótvírætt verið að stuðla að skipulagi sem byggir á því meginsjónarmiði að ríkisvaldið eigi að leggja hina almennu efnahagsstefnu, ríkisvaldið eigi að beita áhrifum sínum til þess að hér sé jafnvægi í þjóðarbúskapnum og stuðla að samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Ef þróunarfélagið tekst eins og til er ætlast með meirihlutaaðild atvinnulífsins sjálfs þá erum við þar vissulega á þeirri braut.

Við gætum hugsað okkur að fjárfestingarsjóðirnir, sem fyrir eru, hefðu fengið þetta hlutverk. Ég hefði verið fús til að standa að þeirri skipan mála. Aðalatriðið var það að taka ákveðinn hluta af því fjármagni sem við höfum tekið að láni og afmarka það til atvinnuuppbyggingar og takmarka útgjöld á öðrum sviðum. Það hefur verið gert. Hér hefur verið fundin skipan til þess að miðla því fjármagni og meginstefnan er sú að þar eigi almenn sjónarmið að gilda en ekki forsjár- og forskriftarstefna ríkisvaldsins. Það á ekki og mun ekki, ef þessi mál ganga fram, taka ákvarðanir skv. þessu um einstök afmörkuð fyrirtæki eða gæluverkefni. Það er verið að vinna að slíkum breytingum á öðrum sviðum. Þær breytingar, sem verið er að gera á afurðalánakerfinu, þar sem verið er að draga úr miðstjórnarvaldi Seðlabankans og færa þau lán yfir til viðskiptabankanna, miða að þessu. Þetta hefur einnig verið gert með breytingum á vaxtaákvörðunum sem færðar hafa verið í sambærilegt horf við það sem sósíaldemókratar á Norðurlöndum gerðu fyrir mörgum árum og áratugum.

Það hefur verið unnið að breytingu á framleiðsluráðslögum. Það er vafalaust rétt hjá hv. þm. að um margt í þeim lögum má deila en það er þó verið í ýmsum efnum að draga úr miðstjórnarvaldi og stíga skref fram á við að þessu leyti. Það er líka rétt að forsendan fyrir framförum er sú að okkur takist að stöðva hallarekstur ríkissjóðs og ásókn hans inn á innlendan lánsfjármarkað sem hefur óheppileg áhrif að því leyti að atvinnulífið og einstaklingarnir í þjóðfélaginu fá minna fjármagn til umráða og vextirnir spennast upp. Við verðum einnig að vinna að því að ná erlendum lántökum niður. Það er laukrétt að á þessum sviðum höfum við ekki náð þeim árangri sem að var stefnt. En það er deginum ljósara — og ég tek undir það með hv. þm. — að árangur á þessum sviðum er meginatriði varðandi uppbyggingu atvinnulífsins og fagnaðarefni ef um það gæti tekist víðtæk samstaða á Alþingi að vinna gegn þeim vágesti sem um of hefur spillt fyrir framförum í okkar atvinnulífi.