03.05.1985
Efri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4756 í B-deild Alþingistíðinda. (3995)

416. mál, þingsköp Alþingis

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög enda áliðið dags. Umr. um þetta mál hafa nú staðið nokkuð lengi og ég get tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni sem sagði áðan að umr. þessar gefa í raun og veru tilefni til enn frekari umr. og sýna það að ýmislegt er órætt í þessu máli.

En það sem mig langar til að segja er það að hv. 3. þm. Norðurl. v. hélt því fram að það væri meiri hluti hér í deildinni fyrir að hafa þetta mál „nákvæmlega svona.“ Þar er held ég, ekki rétt að orði komist, ekki „nákvæmlega svona“. Það er samkomulagsfyrirkomulag sem hér er á ferðinni og ég fyrir mína hönd hefði viljað sjá ýmislegt aðeins öðruvísi eins og ég hreyfði í þingskapanefndinni.

Annað atriði sem hv. 3. þm. Norðurl. v. vék að var að þær tvær brtt., sem fram hafa komið við þessa umr., hafi ekki verið ræddar í þingflokkunum. Ég held að þar hafi hann lög að mæla. Ég veit ekki til þess að sú brtt., sem ég ber hér fram á þskj. 838, hafi verið rædd í þingflokkunum og það hefur komið mér nokkuð á óvart í þessari umr.hv. frsm. þingskapanefndarinnar hefur ekki vikið að þeirri till. einu orði eftir að hann flutti framsögu sína, en þá mælti hann gegn henni. Ég rökstuddi síðan mína till. og hefur ekki komið neinn gagnrökstuðningur fram hjá hv. frsm. n. Ég hef því tilhneigingu til að ætla að hann hafi tekið rök mín gild en þori ekki að ganga út frá því að óreyndu. Eins og ég hef áður sagt er frv., eins og það lítur nú út með brtt. frá þingskapanefnd við 2. umr., samkomulagsmál. En þær umr., sem hér hafa farið fram, gefa í raun og veru tilefni til þess að þessi mál verði betur rædd, ef ekki hér við 3. umr. eða milli 2. og 3. umr. þá t hv. Nd.