30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

90. mál, Seðlabanki Íslands

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í þeirri fsp. sem hér er til umr. er m.a. spurt um heildarlaunakostnað Seðlabankans, bifreiðaeign og risnukostnað. Ég held að þau svör sem ráðh. gaf við þessari fsp. staðfesti augljóslega að slíkar upplýsingar, varðandi launakostnað, bifreiðaeign, risnukostnað og reyndar ferðakostnað líka, þurfi að vera upplýsingar sem stöðugt og reglulega beri að leggja fyrir hv. Alþingi vegna þess að með þeim hætti getur Alþingi betur sinnt sínu aðhalds- og eftirlitshlutverki.

Alþingi hefur reyndar tekið undir þessa skoðun mína vegna þess að fyrir rúmu ári síðan voru samþykkt hér fjögur frv. á Alþingi, varðandi Seðlabanka, Búnaðarbanka, Útvegsbankann og Landsbankann, þar sem þessir bankar voru krafðir um ítarlegri reikningsskil að því er varðar bifreiðar, risnu, ferðakostnað og launakostnað. Hæstv. ráðh. upplýsir hér að frv. að nýrri bankalöggjöf muni verða lagt hér innan tíðar fyrir hv. Alþingi. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. að gefnu tilefni að því: Er það ætlan hæstv. ráðh. að leggja það frv. fyrir hv. Alþingi með því ákvæði að afnema eigi þessi lög, þessi nýsettu lög sem Alþingi setti, sem tryggja áttu að Alþingi og reyndar þjóðin öll hefði aðgang að þessum upplýsingum varðandi bifreiðar, risnu og ferðakostnað? Ég hreinlega trúi því ekki að svo sé.

Hæstv. ráðh. segir að bankaráðsmenn hafi engar athugasemdir gert í bankaráði við þessar upplýsingar um launakostnað, bifreiðar og risnukostnað og nefndi formann Alþfl. í því sambandi. (Viðskrh.: Nei, nei, nei, sem fyrrv. viðskrh.) Sem fyrrv. viðskrh. já. En ef þær upplýsingar sem ég hef eru réttar, þá harma ég það vegna þess að mér skilst að þeir sem hafi samið þetta nýja frv., sem leggja á fyrir Alþingi, standi allir að þessu ákvæði nema formaður Alþfl. sem skilar séráliti um það mál að afnema beri þessi nýsettu lög. Ég vil að gefnu tilefni, af því að þessi fsp. er hér til umr., spyrja hæstv. ráðh. hvort hann ætli sér að leggja fyrir Alþingi frv. með því ákvæði að þessi nýsettu lög, sem tryggja eiga þetta aðhald og eftirlit með bifreiða-, risnu- og ferðakostnaði, verði afnumin.