03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4782 í B-deild Alþingistíðinda. (4033)

364. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Æsist nú nokkuð leikurinn þar sem hæstv. ráðh. fer að upplýsa um hvernig menn greiða atkv. í Norðurl. v. og er greinilegt að vit hans og vitneskja er mikið í þessum efnum, að hann skuli geta staðhæft það hér úr ræðustóli. En efasemdir hafa komið fram frá hv. þm. Páli Péturssyni að rétt sé hermt, enda kann að vera að þeim sem hafa veitt Framsfl. stuðning með atkv. sínu fari nú eitthvað fækkandi bæði í sveitum og þéttbýli og þar af kunna efasemdirnar að vera sprottnar hjá hv. þm. Páli Péturssyni.

Ég kvaddi mér hljóðs þegar hæstv. ráðh. var þar kominn ræðu sinni að hann tíundaði enn og einu sinni aftur þá raunlækkun á raforkuverði sem orðið hefði frá 1. ágúst 1983. Hann hefur sent út fréttatilkynningar og línurit sem hafa þennan upphafspunkt: 1. ágúst 1983. Það er sannarlega mikið snilldarbragð því að þá hafði ráðh. komið því til leiðar með samþykki sínu að Landsvirkjun hafði hækkað í tvígang raforku, í júnímánuði, 3. júní, og 29. ágúst 1983, um samtals 56%. Hæstv. ráðh. telur að það hafi ekki verið ofætlan landslýðnum og þá ekki síst fólkinu á hinum „köldu svæðum“ að axla þær byrðar sem þurfti til þess að rétta af hallann hjá Landsvirkjun, hallann sem til er kominn vegna óhæfilegra orkusölusamninga til útlendra fyrirtækja sem starfrækt eru í landinu, en Sjálfstfl. og fleiri neituðu að standa að að knýja fram eðlilega og sanngjarna leiðréttingu í því máli á árum áður. Þetta er rétt að nefna þegar hæstv. ráðh. fer að ræða þessa raunlækkun.

Ég veit ekki hvaða viðmiðun hann er með í þessu samhengi og hvort hann er með raunlækkun launa á viðkomandi tímabili einnig inni í þessum samanburði, launa sem fara sílækkandi (Iðnrh.: Miðað við kaupgjaldsvísitölu.) á þessum vikum vegna þess banns við vísitöluviðmiðun og verðbótum sem ríkisstj. hefur ríghaldið sér í. En ég vildi vegna þess sem hæstv. ráðh. fór að lesa upp úr bréfi norðan úr Skagafirði ítreka og árétta enn frekar, sem ég var að greina frá, að mér hefði tekist sem ráðh. á árunum 1981–1982 og fram á árið 1983 að toga út úr raforkufyrirtækjum og viðskrn. á þeim tíma upplýsingar varðandi olíustyrkjagreiðslur sem ég gat um áðan í ræðu minni. Þar á meðal, og ég held að ég muni rétt að það var í maímánuði 1983 þegar þessir dálkar voru samanlagðir og upp gerðir, virtist sem 24% þeirra sem olíustyrkja nytu keyptu raforku. Hvort þeir notuðu hana eingöngu til upphitunar vissum við ekki. Þetta upplýsti ég í ríkisstj. strax og það lá fyrir í maímánuði 1983 og það lá fyrir staðfest í iðnrn. og fyrir hæstv. eftirmanni mínum þar á bæ hvernig þeim málum væri komið. Þetta hafði kostað mikla fyrirhöfn því að pappírarnir hjá viðskrn. varðandi olíustyrkina voru aðeins ákveðin ein tala úr hverju sveitarfélagi fengin yfirleitt símleiðis um það hversu margir þeir væru sem ættu að njóta olíustyrks og síðan var þeim ávísað þaðan, að ég fékk upplýst frá viðskrn., upp á þessar upplýsingar. En það var sem sagt farið ofan í saumana á þessu mjög grannt vegna þess að ég taldi fyllstu ástæðu til þess að svo væri gert og það var ekki af neinni meinbægni við þá sem notuðu olíu til upphitunar, heldur miklu frekar að gefa þeim kost á og auðvelda þeim að fara yfir á innlenda orkugjafa sem þrátt fyrir allt og þrátt fyrir hátt verð voru í langflestum tilvikum hagkvæmari fyrir neytendurna en olían. Hins vegar hygg ég að hin mikla umræða um hátt raforkuverð og þ. á m. húshitunarkostnað hafi orðið til þess að draga úr mörgum og ég hef orðið var við að margir eru í þeirri trú enn í dag að það geti verið ódýrara að hita hús sín með olíu en innlendum orkugjöfum og svo kann að vera í einstökum tilvikum þar sem menn njóta hæsta leyfilegs olíustyrks, 5.5 eininga.