03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4786 í B-deild Alþingistíðinda. (4039)

424. mál, erfðalög

Frsm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. á þskj. 696 um breytingu á erfðalögum nr. 8 frá 1962. Það er allshn. Nd. sem flytur þetta frv. Efni þess kemur fram í 1. gr. frv. Hún er þess efnis að við 9. gr. erfðalaganna sem nú gilda bætist ný mgr. sem orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Annað hjóna eða bæði geta þó ávallt mælt svo fyrir í erfðaskrá að það þeirra sem lengur lifir skuli hafa heimild til að sitja í óskiptu búi með niðjum beggja hvort sem þeir eru fjárráða eða ófjárráða. Ber skiptaráðanda þá að gefa út leyfi til setu í óskiptu búi til eftirlifandi maka eftir umsókn hans nema ákvæði 8. gr. standi í vegi fyrir því.“

Þetta frv. er borið fram af allshn. eftir að nefndin fjallaði um frv. sem borið var fram um þetta sama atriði af þeim Guðrúnu Helgadóttur, Birgi Ísl. Gunnarssyni, Guðmundi Einarssyni, Guðrúnu Agnarsdóttur og Jóni Baldvini Hannibalssyni. Í nefndinni var fjallað allítarlega um frv. sem ég nefndi nú, sem einnig var lagt fram á síðasta þingi, en hlaut þá ekki afgreiðslu. Allshn. leitaði álits allmargra aðila á frv. því sem hv. alþm. Guðrún Helgadóttir er 1. flm. að. M. a. var leitað til dr. Ármanns Snævarrs fyrrv. hæstaréttardómara, Guðrúnar Erlendsdóttur dósents og Ragnars Hall borgarfógeta. Umsagnir bárust einnig frá Lögmannafélagi Íslands og fleiri aðilum.

Enginn þeirra, sem lét í ljós álit sitt á hinu fyrra frv. eða þeirra sem nefndin átti viðræður við, mælti með samþykkt þessa frv. í óbreyttri mynd.

Það komu fram ýmsar aths. um að framkvæmd þess mundi reynast erfið, það mundi valda réttaróvissu og skertur væri mjög réttur niðja beggja og bréferfingja við búskipti, en í því frv. sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir er 1. flm. að var gert ráð fyrir að lögunum yrði breytt á þá leið að eftirlifandi maki öðlaðist umráðarétt yfir íbúðarhúsnæði og húsmunum þannig að erfingjar gætu ekki krafist skipta svo sem nú er heimilt og áframhaldandi seta eftirlifandi maka í óskiptu búi væri tryggð.

Eins og ég sagði gáfu umsagnir ótvírætt í skyn og viðræður við þá sérfræðiaðila sem n. kallaði á sinn fund, að verulegir örðugleikar væru á framkvæmd lagagreinar þeirrar sem felst í frv. Guðrúnar Helgadóttur og fleiri þm. Af þeim orsökum varð það að samkomulagi í allshn. að lokinni ítarlegri skoðun þessa frv. að n. bæri fram frv. um þetta sama efnisatriði sem er að finna á þskj. 696. Þar er farin einfaldari leið að sama marki.

Efni frv. er það að skv. því geta hjón tryggt eftirlifandi maka áframhaldandi og óskerta setu í óskiptu búi eftir andlát hins ef fyrirmæli um það eru sett í erfðaskrá. Þó svo að fyrirmæli séu sett í erfðaskrá gilda þau ekki að óbreyttum lögum ef einhverjir lögerfingjar krefjast skipta. Það geta þeir jafnan eftir að ár er liðið hafi heimild verið fengin til setu í óskiptu búi. Breytingin er því grundvallarbreyting. Unnt er nú, þrátt fyrir andmæli niðja, að tryggja áframhaldandi setu eftirlifandi maka í óskiptu búi. Eftirlifandi maki þarf ekki að leysa upp bú sitt og selja eigur til þess að borga út erfðahlut niðja ef sett hefur verið ákvæði þess efnis í erfðaskrá.

Á það hefur verið bent og það með réttu að nokkur fyrirhöfn er að því að setja slíkt ákvæði í erfðaskrá. Einnig var bent á að erfðaskrár eru ekki mjög algengar hér á landi. Á hinn bóginn telur n. að ef slíkt ákvæði kæmist í lög mundu þeir sem telja æskilegt að eftirlifandi maki eigi setu í óskiptu búi, að ekki sé hægt að leysa upp búið af niðjum beggja, gera erfðaskrá. Þar af leiðandi yrðu mun fleiri erfðaskrár gerðar samkv. þessu ákvæði en eru gerðar í dag. Það má því segja að þetta frv. tryggi þeim sem það vilja að búi eftirlifandi maka verður ekki skipt, jafnvel þó að krafa komi fram um það frá niðjum beggja.