03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4806 í B-deild Alþingistíðinda. (4061)

50. mál, ríkisábyrgð á launum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hélt satt að segja að ég væri búinn að tala mig dauðan í þessu máli en ég þakka hæstv. forseta fyrir að gefa mér orðið.

Ég gerði grein fyrir því fyrr við þessa umr. að ég ásamt fleiri hv. þm. mundi leggja fram brtt. í þessu máli. Þær eru á þskj. 724 og 803, brtt. sem snerta 4. gr. þessa frv. Ég tel rétt og vil þar með greiða fyrir því að þessari umr. geti lokið, af því að ég mun tala nokkuð langt mál þegar ég mæli fyrir þessum brtt., að taka þær til baka til 3. umr. og gera grein fyrir þeim þá. Auk þess á ég ýmislegt vantalað við hæstv. félmrh., bæði að því er ég hygg af því sem hann er þegar búinn að segja og eins af hinu sem hann á væntanlega eftir að segja í þessu máli.