06.05.1985
Efri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4809 í B-deild Alþingistíðinda. (4071)

146. mál, sjómannalög

Frsm. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. samgöngunefndar Ed. Alþingis um frv. til sjómannalaga. Nefndin varð sammála um afgreiðslu málsins. Einn nm., Valdimar Indriðason, var fjarverandi við afgreiðsluna og tók þess vegna ekki þátt í lokaafgreiðslu málsins. Við fyrri umr. skýrði hæstv. samgrh. aðdraganda þessa máls greinilega, auk þess sem það var lagt fram á síðasta þingi og þá að sjálfsögðu einnig skýrt ítarlega. Til þeirrar umfjöllunar vísa ég með tilliti til skýringa á frv. í heild og aðdraganda þess eins og það var lagt fyrir í virðulegri Ed.

Samgn. gerði nokkrar brtt. við frv. sem hér eru lagðar fram á þskj. 834 og eru raunar skýrðar í grg. Mér þykir vert að geta þess að Páll Sigurðsson dósent aðstoðaði nefndina við umfjöllun á þessu máli, en eins og kunnugt er var hann fyrir þeirri nefnd sem samdi frv. eins og það var lagt hér fyrir.

Svo sem venjulegt er leitaði samgn. Ed. umsagnar allmargra aðila og þær bárust frá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Sjómannafélagi Ísfirðinga, Félagi íslenskra botnvörpuskipaeigenda, Verkalýðs- og sjómannafélagi Akraness, Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sjómannafélagi Ólafsfjarðar, Sjómannafélaginu Jötni, Slysavarnafélagi Íslands, Verkalýðs- og sjómannafélagi Vopnafjarðar, Stýrimannafélagi Íslands, Sjómannafélagi Íslands og Sjómannasambandi Íslands.

Eins og ég gat um áðan, virðulegi forseti, koma helstu skýringar á þeim breytingum, sem gerðar eru við frv. og fram koma á þskj. 834, fram í nál. Sé ég ekki sérstaka ástæðu til að lesa þær hér, en vísa að öðru leyti til þeirra skýringa sem þar eru lagðar fram og skýra að sjálfsögðu afstöðu nefndarinnar á fullnægjandi hátt.