06.05.1985
Neðri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4821 í B-deild Alþingistíðinda. (4102)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 2. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hef það fyrir satt að sauðburður sé hafinn allvíða um land, a. m. k. á það við um hluta af Austurlandskjördæmi og eflaust er hægt að upplýsa hvort svo standi ekki einnig á í Húnaþingi. En eins og menn muna upphófst umr. um stjfrv. til útvarpslaga, sem lagt var fram hér 11. okt. eða á öðrum þingdegi, á gagnstæðum yfirlýsingum frá stjórnarflokkunum í sambandi við málið. Hæstv. menntmrh. hafði fengið sett inn í frv. ákvæði um að það skyldi taka gildi 1. nóv. 1984 og voru þinginu ætlaðar tæpar þrjár vikur til að fjalla um þetta merka mál. En af því tilefni lýsti formaður þingflokks Framsfl. því yfir að um slíkt væri ekkert samkomulag og hafði uppi um það spádóma að það yrði farið að nálgast sauðburð þegar drægi að lyktum þessa máls. Nú er ljóst að hv. þm. Páll Pétursson hefur orðið nokkuð sannspár í þessu efni og þó stendur verr um þetta mál út frá sjónarhóli samstarfsaðilans, þ. e. hæstv. menntmrh., þar sem frv. er enn hér til umr. í fyrri deild þegar hafinn er sauðburður víða um land.

Nú liggur það ekki fyrir af hálfu ríkisstj. hversu lengi hún hyggst láta þingið starfa að þessu sinni og alveg ljóst að við munum sitja hér a. m. k. lungann af sauðburðartímanum úr þessu. En mér er nokkuð til efs að það sé til þess ráðrúm hér á Alþingi að ljúka þessu mjög svo umrædda og þýðingarmikla máli svo vel sé á þeim örfáu dögum sem ætla má að þingdeildir hafi til starfa, þó svo að Alþingi sitji til komandi mánaðamóta sem teldist óvenjulegt sem kunnugt er.

Ég held að það sé ástæða til þess vegna þess hvernig á þessu máli hefur verið haldið af hæstv. ríkisstj. og þingflokkum stjórnarinnar aðeins að rifja það upp hér við upphaf 3. umr. málsins hvernig því hefur þokað áfram til þessa. Eins og ég gat um var frv. lagt fram 11. okt. s. l. haust og vísað 22. okt. til 2. umr. og hv. menntmn. En það var fyrst þann 20. febr. sem álit komu frá hv. menntmn. og höfðu þá borist nær vikulegar yfirlýsingar frá formanni nefndarinnar, hv. skrifara þessarar deildar, um að frv. væri að koma út úr nefndinni af hálfu meiri hl. a. m. k. En það var einmitt þessi meiri hl. sem að lokum skilaði hér áliti 20. febr. sem gat allan þennan tíma ekki komið sér saman um veigamikla þætti málsins. Eftir að samkomulag hafði síðan tekist um þetta mál að nafninu til milli stjórnarflokkanna bar það við að varaformaður Sjálfstfl. flutti sérstaka brtt. á þskj. 514 þvert ofan í það samkomulag sem gert hafði verið. Hér við 3. umr. kemur hv. þm. Halldór Blöndal og hnykkir enn á því að þingflokkur Sjálfstfl. ætli að halda til streitu stuðningi við þessa brtt. varaformannsins.

Málið var hér til 2. umr. í hv. þd. í einn mánuð. Það var fyrst þann 20. mars sem atkvæði gengu hér í hv. deild um brtt. við frv. en síðan eru liðnar meira en sex vikur síðan málið var afgreitt héðan úr deildinni til 3. umr. Ekkert hefur til málsins spurst af hálfu þingflokka ríkisstj. fyrr en s. l. föstudag, að það loksins er tekið á dagskrá á nýjan leik. Það er ekki við minni hl. í hv. menntmn. að sakast þó að þessi dráttur hafi á orðið því að þegar þann 1. apríl s. l. skiluðum við fulltrúar minni hl. inn brtt. sem við höfðum dregið til baka og fluttum sumpart sameiginlega á þskj. 659 og 660 þann 1. apríl. Það var gert í ljósi þess að við gerðum ráð fyrir því að ríkisstj. legði áherslu á framgang þessa máls, áframhaldandi þinglega meðferð málsins, að við brugðum svo skjótt við og fluttum brtt. En þá sást málið ekki á dagskrá í heilan mánuð og raunar meira. Það var horfið af dagskránni og brtt. frá meiri hl. komu engar fyrr en, eins og ég gat um, s. l. föstudag að málið er tekið á dagskrá. Það er fyrst á þessum þingfundi að fyrir liggja brtt. á þskj. 843 frá svonefndum meiri hl. hv. menntmn. og hafa þær breytingar ekki komið til neinnar umr. í menntmn. því að þar hefur málið ekki verið tekið upp af hálfu svonefnds meiri hl. allan þennan tíma.

Þetta ber hvorki vott um að einhugur ríki í þessu máli né áhugi á því að það hljóti þinglega meðferð hér. Það verður að teljast með miklum eindæmum hvernig ríkisstjórnarflokkarnir hafa haldið á þessu máli og horfir nú ekki glæsilega um framhaldið ef marka má nýjustu og síðustu fréttir úr útvarpi sem hv. skrifari þessarar deildar kennir við einokun, þ. e. Ríkisútvarpinu. Það flutti landsmönnum allítarlegar fréttir í gærkvöldi í sérstökum fréttaauka af fundum þm. Sjálfstfl. á þremur stöðum á landinu sem haldnir voru um helgina. Það var vissulega athyglisverð nýbreytni af hálfu Ríkisútvarpsins að hefja slíkan fréttaflutning af fundum einstakra þingflokka úti um landið og reyndist það vissulega fréttaefni sem þar var greint frá. Við bíðum eftir því að fréttir berist frá fleiri fundum en þessum þremur því að ég hef fyrir satt að Sjálfstfl. hafi beitt sér fyrir fundum miklu víðar á landinu. T. d. hafi þeir hæstv. fjmrh. og hv. þm. Eggert Haukdal haldið fund á Höfn í Hornafirði sem ekki hefur verið neitt greint frá. Þaðan gæti eflaust verið tíðinda að vænta svo og frá ýmsum öðrum fundum.

Varaformaður Sjálfstfl., sem flytur brtt. í þessu máli við frv. til útvarpslaga á sérstöku þskj. þvert á hinn stjórnarflokkinn, lýsti því skv. frásögn Ríkisútvarpsins með átakanlegum hætti austur á Egilsstöðum hvernig Sjálfstfl. væri hnepptur í bóndabeygju Framsfl. og gæti sig nánast hvergi hrært. Þetta væri slík ógæfa, sem Sjálfstfl. hefði ratað í, að erfitt væri að sjá fram úr henni. En hæstv. iðnrh. talaði, að ég hygg, á fundi hjá Skagfirðingum — allavega var það norður í landi — að sögn hljóðvarpsins og boðaði landsmönnum að öllum líkindum þingkosningar á tímabilinu 20.–30. okt. Nánar var það ekki tilgreint, en vilji menn halda sig við laugardag mun það vera 26. okt. sem mönnum gefst kostur á að ganga til kosninga ef Sjálfstfl. tekst að losna úr bóndabeygjunni, úlfakreppunni miklu sem hann er hnepptur í. Kannske eigi að nota þetta mál sem nú hefur verið tekið á dagskrá, frv. til útvarpslaga, og atkvæðagreiðslu um brtt. varaformanns Sjálfstfl. til þess að liðka til fyrir flokkinn að þessu leyti, hver veit? Svo kann að vera.

Ég tel alveg nauðsynlegt að hér við þessa umr. komi það skýrt fram af hálfu hins sterka í ríkisstj., sem heldur Sjálfstfl. föngnum í bóndabeygjunni, hvernig hann ætlar að bregðast við ef svo ber við að samþykkt verði brtt. á þskj. 514, till. hv. þm. Friðriks Sophussonar, um fullt og óskorað frelsi til auglýsinga í einkastöðvum, þ. á m. fullt og óskorað frelsi fyrir svo mæta menn sem Rolf Johansen sem hefur nýlega tilkynnt landsmönnum að hann bíði óþreyjufullur eftir því að sjá sól frelsisins renna upp fyrir — (HBl: Það verður menningarlegt útvarp.) Það verður menningarlegt útvarp, segir hv. þm. Halldór Blöndal og er farinn að hlakka til að njóta. En mér finnst alveg nauðsynlegt að við fáum um þetta upplýsingar, t. d. frá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, hvernig hann ætlar að bregðast við og hans flokkur ef svo fer að sólin renni upp fyrir frelsisunnendur eins og Rolf Johansen og aðra slíka, Ísfilm og allt það safn sem þar bíður óþreyjufullt eftir að geta látið frelsissól auglýsinganna renna yfir landslýðinn. Ég er viss um að Ólafur Þ. Þórðarson er reiðubúinn til að greina frá því hver verði viðbrögð hans flokks ef svo fer að meiri hl. sé fyrir því hér í hv. þd. að liðka til fyrir auglýsingunum í einkastöðvum.

Kannske hafa einhver viðhorf komið fram um þetta á þeim fundum þm. Sjálfstfl. sem ekki hefur verið greint frá. Við fáum kannske fréttaauka í kvöld frá þremur fundum í viðbót og á morgun frá þeim sem eftir er að greina frá. Við gerum að sjálfsögðu ráð fyrir því, það þarf ekki að efast um að Ríkisútvarpið okkar muni sjá til þess að glöggar fregnir verði framvegis af öllum fundum sem þm. efna til úti um landið. Þaðan gæti víða verið tíðinda að vænta, ekki síst í ljósi þess að hæstv. iðnrh. hefur boðað kosningar að öllum líkindum seinni hluta októbermánaðar.

Ég ætla hér, herra forseti, að gera stutta grein fyrir brtt. sem ég stend að ásamt fulltrúum Bandalags jafnaðarmanna og Alþfl. í hv. menntmn. og við lögðum fram 1. apríl s. l. á þskj. 660. Þar fylkjum við saman um tilteknar breytingar sem við höfðum gert tillögur um við 2. umr. en dregið til baka til 3. umr. þar sem við vorum efnislega á einu máli eða höfðum flutt hliðstæðar brtt. Ég ætla fyrst að fara yfir brtt. á þskj. 660, þar sem ásamt mér eru flm. hv. þm. Kristín S. Kvaran og Maríanna Friðjónsdóttir sem sat þá á þingi fyrir hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson.

Við leggjum í fyrsta lagi til að inn í 10. gr. frv., 3. mgr., verði tekin ákvæði sem varða fjölbreytt efni við hæfi barna jafnt í hljóðvarpi og sjónvarpi. Það er efnislega sú till. sem er undir tölul. 1 á þskj. 660. Hv. þm. Halldór Blöndal hefur lýst stuðningi við þessa brtt. af sinni hálfu og hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar ef ég hefði skilið hans mál rétt. Þess er því að vænta að þetta ákvæði fái hér stuðning í hv. þd. og er það þakkarvert.

2. brtt. okkar varðar 13. gr. og er efnislega um það að útvarpsstjóri verði skipaður aðeins til fimm ára í senn en staða hans þá auglýst á ný laus til umsóknar. Heimild sé til að endurráða sama mann í starfið önnur fimm ár í viðbót.

Í þriðja lagi er sú breyting við 15. gr. að þar bætist við tvær nýjar mgr., annars vegar um það að annað hvert ár skuli menntmrn. í samráði við yfirstjórn útvarpsins efna til ráðstefnu notenda um dagskrárstefnu Ríkisútvarpsins og bjóði til hennar fulltrúum helstu almannasamtaka og í öðru lagi að Ríkisútvarpið beiti sér fyrir reglubundnum könnunum á því hvernig hlustað er á hljóðvarp og horft á sjónvarp, bæði að því er varðar Ríkisútvarpið sem og aðrar útvarpsstöðvar er leyfi kunna að fá skv. ákvæðum 3. gr.

Í fjórða lagi erum við með þá breytingu að á undan 32. gr. í VI. kafla komi sérstök ný gr. svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi kýs nefnd sjö þm. er hafi það hlutverk að fylgjast með framkvæmd laga þessara, svo og þróun fjölmiðlunar og lagasetningu um útvarpsmálefni meðal nágrannaþjóða. Jafnframt skal nefndin huga að nauðsynlegum breytingum á lögunum í ljósi þeirrar reynslu sem af framkvæmd þeirra fæst. Skal nefndin skila Alþingi skýrslu um störf sín í nóvember ár hvert þar til endurskoðun laganna er lokið.“

Ég tel að hér sé mikilvægt ákvæði á ferðinni sem sjálfsagt sé að lögfesta til þess að fylgjast með þessum mikilvæga þætti, útvarpsstarfseminni, á þeim tíma sem gert er ráð fyrir að verði notaður til endurskoðunar og þá bæði varðandi Ríkisútvarpið og einkastöðvar sem leyfi fengju til starfa.

Þá gerum við í fimmta lagi ráð fyrir því að 34. gr. orðist svo: „Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1986. Falla þá jafnframt úr gildi útvarpslög og breytingar á þeim lögum.“ Við erum með þessu að leggja til að tilskilinn sé við samþykkt þessa frv. ákveðinn umþóttunartími fyrir aðila og að miðað sé við næstu áramót. Það teljum við raunar vera lágmarkstíma, ekki síst í ljósi þess hver dráttur hefur orðið á meðferð þessa máls í höndum þingsins, en um þetta atriði er ekkert ákvæði í tillögum frá meiri hl. menntmn.

Þá hef ég ásamt Maríönnu Friðjónsdóttur flutt sérstaka brtt. á þskj. 659 við frv. þannig að á eftir 16. gr. komi ný gr. er orðist svo, með leyfi forseta:

„Við Ríkisútvarpið skal komið á fót starfsmannaráði sem er ráðgefandi um málefni stofnunarinnar. Fulltrúi starfsmannaráðsins á rétt til setu á fundum útvarpsráðs með málfrelsi og tillögurétti. Um réttindi og skyldur starfsmannaráðs fer að öðru leyti eftir almennum reglum um hliðstæð ráð í opinberum stofnunum.“

Þetta eru þær brtt. sem ég stend að með fleirum og taldi rétt að mæla hér fyrir við þessa umr. Hér hefur birst í dag á borðum þm. brtt. á þskj. 843 frá Halldóri Blöndal og Ólafi Þ. Þórðarsyni varðandi fjármál Ríkisútvarpsins. Mér hefur ekki gefist tími til að fara yfir þessar tillögur nema rétt með hraði þannig að ég er ekki í aðstöðu til að taka afstöðu til þess hér og nú hvort þar sé eðlilega á málum haldið. Mér sýnist það þó í fljótu bragði miðað við það að haldið verði við þá stefnu sem fram kemur í frv. eins og það var upphaflega lagt fyrir og ekki breytt til eins og til umr. var um skeið í hv. menntmn., þ. e. a. s. um það var rætt að taka upp eins konar nefskatt í sambandi við útvarpsgjald. En hér er í meginatriðum gert ráð fyrir því að halda uppteknum hætti, þó með breytingum.

Skv. dagskrá er vísað hér til þskj. sem lágu fyrir við 2. umr. málsins. Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, og kannske sjálfsagt að farið verði yfir þessi efni áður en mál verða hér lögð fyrir til atkvæða þannig að hv. þdm. verði sem ljósast hvað hér er verið að leggja til. Sum efnisatriði, sem vísað er til í einstökum tölul. skv. dagskrá, eru þegar komin inn í brtt. á nýjum þskj. sem ég hef mælt hér fyrir.

Ég vil að það komi fram hér af minni hálfu að ég tel mig geta stutt ákveðnar brtt. sem hv. þm. Kristín S. Kvaran og hv. þm. Guðmundur Einarsson stóðu að á sínum tíma og er að finna á þskj. 507. Það gildir efnislega um það sem er að finna undir 2. tölul. á þskj. 507 varðandi það atriði að settar verði reglur af ráðh. um jafnan tíma í einkastöðvum er gilda skuli við stjórnmálaumræður. Þetta finnst mér skynsamlegt ákvæði og get undir það tekið.

Sama er að segja um brtt. á þskj. 507 undir tölul. 5 þar sem gert er ráð fyrir því að einstaklingum, sem eiga hlut í fyrirtæki í öðrum greinum fjölmiðlunar, svo sem dagblöðum, sé óheimilt að eiga hlutdeild að útvarpsrekstri. Þetta gildir einnig um fyrirtæki. Sami aðili má ekki reka fleiri en tvær stöðvar. Þetta leggja hv. þm. Bandalags jafnaðarmanna til. Þetta eru atriði sem ég get lýst fullum stuðningi við.

Ég tel einnig að brtt. á þskj. 507 undir tölul. 11 varðandi kjarasamninga við starfsmenn Ríkisútvarpsins horfi til réttrar áttar og ég mun veita henni minn stuðning. Þar er gert ráð fyrir að útvarpsstjóri geri með samþykki stjórnar Ríkisútvarpsins kjarasamninga við starfsmenn Ríkisútvarpsins. É,g ræddi þetta kjaramál starfsmanna Ríkisútvarpsins allítarlega við 2. umr. og vakti þar athygli á því í hvert efni hefði stefnt þar að undanförnu. Ég tel það vera mjög nauðsynlegt að Ríkisútvarpið, ef það fær samkeppni af einkastöðvum, hafi aðstöðu til að standa þannig að samningum við sitt starfsfólk að þar sé valinn maður í hverju rúmi. Það skiptir miklu um meginútvarpsfjölmiðil landsmanna að svo geti orðið. Með tilliti til þess og þeirrar þróunar sem orðið hefur í sambandi við samningsstöðu starfsmanna Ríkisútvarpsins tel ég að réttmætt sé að styðja þá brtt. sem Bandalag jafnaðarmanna flutti um þetta efni við 2. umr. máls en dró til baka til 3. umr.

Ein af þeim brtt. sem ég hef mælt fyrir varðar könnun á útvarpsstarfsemi. Nýlega fór fram könnun — ég hygg með atbeina félagsvísindadeildar Háskóla Íslands — á viðhorfum manna til starfsemi Ríkisútvarpsins. Fjölmiðlar greindu nokkuð frá bráðabirgðaniðurstöðu þeirrar könnunar í marsmánuði, að ég hygg, og ýmislegt athyglisvert kom þar fram. M. a. held ég að hægt sé að túlka viðhorfin úr þeirri könnun á þann veg að það sé allvíðtæk samstaða og menn séu þokkalega ánægðir með Ríkisútvarpið og þess starfsemi. Það kom m. a. fram í þessari könnun að menn teldu að það væri þokkalega á málum haldið með tilliti til hlutleysis gagnvart skoðunum. Það sem var athyglisverðast í bráðabirgðaniðurstöðum þessarar könnunar var víðtækur stuðningur við innient efni og þar með innlenda dagskrárgerð. Það er vissulega ánægjuefni að þetta skyldi endurspeglast í viðhorfum hlustenda og áhorfenda Ríkisútvarpsins. Þetta segir okkur þá sögu að þörf sé á því að auka innlenda dagskrárgerð og hlut innlends efnis í dagskrárgerð Ríkisútvarpsins. Ég tel að ef svo megi verða séu menn um leið að efla íslenska menningu svo sem ekki er vanþörf á á tímum auglýsinga og margs sem glepur hugann og þrengir sér inn í dagskrárefni.

Ég þarf ekki að hafa um það mörg orð, herra forseti, en ég tel að þau rök, sem fram hafa verið borin af talsmönnum auglýsingafrelsisins í einkastöðvum, séu falsrök. Þeir hafa m. a. beitt því sem röksemd að möguleikar á tekjuöflun í gegnum óheftar auglýsingar í einkastöðvum séu forsenda þess að hægt sé að halda uppi dagskrárgerð og dagskrárstarfsemi af þeirra hálfu. Stuðningur okkar Alþb.-manna við rýmkun á útvarpsrétti hefur helgast af því að við viljum gefa mönnum kost á að nýta ljósvakann sem áhuga hafa á því að leggja nokkuð á sig til þess en ekki að opna ljósvakann fyrir óheftri markaðsstarfsemi þeirra sem líta á útvarpsrekstur sem gróðastarfsemi og eru að búa sig í stakk til að taka upp fulla og óhefta samkeppni við Ríkisútvarpið á þeim forsendum og lýsa því fjálgum orðum að því aðeins að þeir fái þetta óhefta frelsi sé breyting á útvarpslögum einhvers virði. Þar eru framarlega í flokki þeir sem að Ísfilm standa, eins og kunnugt er, hlutafélagið Árvakur, Samband ísl. samvinnufélaga, Almenna bókafélagið, Frjáls fjölmiðlun og Reykjavíkurborg undir forustu Davíðs Oddssonar. Þessir aðilar hafa verið að búa sig í stakk til að hefja fulla og óskoraða samkeppni við Ríkisútvarpið hér á aðalþéttbýlissvæði landsins þar sem meiri hluti landsmanna býr. Það er um óskorað frelsi fyrir þessa aðila sem Sjálfstfl. er að biðja með brtt. varaformannsins á þskj. 514. En það eru fleiri sem vilja komast að kjötkötlunum. Þeir hafa gefið sig fram síðan 2. umr. þessa máls fór hér fram. Það eru aðilar sem eiga nokkuð undir sér að margra mati eins og Rolf Johansen stórkaupmaður og Jón Ragnarsson í Regnboganum og víðar, sem eru reiðubúnir að verja miklum fjármunum til útvarpsrekstrar en þó því aðeins að hann verði gróðavegur. Það er þetta menningarútvarp þeirra félaga Rolfs Johansens og Jóns Ragnarssonar sem Sjálfstfl. er að biðja Alþingi um að opna fyrir og hv. þm. Halldór Blöndal sá sérstaka ástæðu til að hlakka til að hæfi starfsemi sína fyrr en seinna.

Herra forseti. Ég ítreka hér óskir mínar um að ég tel að við eigum kröfu á því, hv. þm. í þessari deild, að fá um það vitneskju hvað ríkisstj. ætlast fyrir í sambandi við þetta frv. sem nú er nýlega komið á dagskrá eftir sex vikna hlé. Hvað ætlar hún sér með þetta frv.? Hvað ætlar Framsfl., hinn sterki aðili í ríkisstj., að gera í sambandi við þetta mál ef brtt. á þskj. 514 nær fram að ganga hér í deildinni? Ég trúi því ekki að það standi á svari um þau efni.