07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4850 í B-deild Alþingistíðinda. (4121)

346. mál, hlunnindaskattur

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Mér finnst afleitt að ekki nema rúmur helmingur sveitarfélaga hafi enn svarað beiðni hæstv. ráðherra. Það er kannske fáar ályktanir hægt að draga af þeim svörum sem gefin hafa verið, en þó. Um er að ræða 70 sveitarfélög sem hafa heimild til þess arna. Það eru 35 sem hafa beitt heimildinni af þeim 48 sem svöruðu. Þessi 35, það er helmingur þeirra sveitarfélaga sem hafa þessa heimild. Ég heyrði nú ekki nákvæmlega þá tölu sem nefnd var um þær tekjur sem sveitarfélögin fengju af hlunnindum, það skiptir ekki meginmáli, en það gefur einmitt strax til kynna það sem alvarlegast er í málinu, að hlunnindaeign á Íslandi er gríðarlega vanmetin. Ég fagna því að lög um tekjustofna sveitarfélaga skuli nú vera í endurskoðun og vonast til þess að réttlátari niðurstaða fáist í þeim málum þegar endurskoðunin hefur farið fram heldur en nú virðist vera raunin.