07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4863 í B-deild Alþingistíðinda. (4136)

441. mál, brunavarnir

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil reyna að svara fsp. á þskj. 750 frá hv. 4. landsk. þm. Efni fsp.: „Telur ráðh. tjón af völdum eldsvoða í atvinnuhúsnæði hér á landi óeðlilega mikið? Ef svo er, hverjar telur ráðh. helstu orsakir þess og hvaða leiðir telur hann helst til úrbóta?“

Það er að sjálfsögðu mjög erfitt að meta hvort tjón af völdum eldsvoða í atvinnuhúsnæði hér á landi er óeðlilega mikið. En auðvitað er það ljóst að tjón, hverju nafni sem nefnist, er allt of mikið ef það verður staðreynd.

Skv. upplýsingum tryggingafélaganna voru bein greidd eignatjón í húsbruna á Íslandi árin 1981–1983 sem hér segir:

Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnarnes og Mosfellshreppur: 11.8 millj. kr. 1981. Aðrir staðir á landinu: 10.7 millj. Samtals eignatjón eftir upplýsingum tryggingafélaganna yfir landið allt: 22.5 millj. kr. 1981.

1982 á sama svæði, Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnarnes og Mosfellshreppur: 11.7 millj. kr. Aðrir staðir á landinu: 25.3 millj. kr. Samtals landið allt: 37.1 millj. kr.

1983 Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnarnes og Mosfellshreppur 51.7 millj. Aðrir staðir á landinu 75.2 millj. Samtals landið allt: 126.9 millj. árið 1983.

Við samanburð á brunatjónum milli landa hefur verið reynt að miða við hlutfall tjónanna af vergri þjóðarframleiðslu. Verg þjóðarframleiðsla hérlendis var árin 1981–1983 sem hér segir: 1981 20.5 milljarðar, 1982 31.2 milljarðar, 1983 53 milljarðar. Brunatjónin voru 0.11% af vergri þjóðarframleiðslu 1981, 0.12% 1982 og 0.24% 1983. Árin 1981 og 1982 voru hagstæð í þessu efni, ef það má orða það svo, en árið 1983 mjög óhagstætt. Með því að taka meðaltal þessara þriggja ára ætti að fást sæmilegur samanburður, en að meðaltali hafa bein brunatjón þessi þrjú ár verið 0.16% af vergri þjóðarframleiðslu hér á landi.

Til samanburðar eru hér tölur um bein brunatjón sem voru gefnar út í Genf í mars á þessu ári. Tölurnar eru byggðar á árunum 1979–1980 sem prósenta af vergri þjóðarframleiðslu landanna. Það er of langur lestur að lesa þetta hér upp, ég vil aðeins grípa hér niður í það:

Það er Ungverjaland 0.11, Japan 0.12, Spánn 0.18, Austurríki 0.21, Holland 0.21, Bretland 0.21, Finnland 0.25, Bandaríkin 0.26, Svíþjóð 0.30, Danmörk 0.36 og Noregur 0.37.

Skv. þessum samanburði eru þarna aðeins tvö lönd af þrettán sem eru með hlutfallslega minni brunatjón en við. Athyglisvert er að á öllum Norðurlöndunum, sem við berum okkur oft saman við, eru hlutfallslega mun meiri brunatjón en hérlendis.

Í þessum samanburði eru tekin öll bein greidd eignatjón í húsbruna í hvaða húsnæði sem er.

Eftir upplýsingum Brunamálastofnunar ríkisins voru greidd brunatjón á atvinnuhúsnæði hérlendis um 7 millj. kr. 1981, 12.5 millj. 1982 og 96 millj. 1983. Brunamálastofnunin hefur ekki undir höndum nákvæma sundurliðun á tjónaprósentunni í tjónum á atvinnuhúsnæði og öðru húsnæði í þeim tólf löndum sem ég vitnaði til. En skv. þeim upplýsingum sem fyrir liggja bendir ekkert til að tjón á atvinnuhúsnæði í þessum löndum sé lægra hlutfall heildartjónanna en hérlendis. Enginn vafi leikur á að á undanförnum árum hefur náðst verulega aukinn árangur í brunavörnum hér á landi. Er það bæði vegna opinberra aðgerða og einnig vegna aukins skilnings húseigenda á gildi brunavarna.

Skv. þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér eru brunavarnir í nýju atvinnuhúsnæði hérlendis alveg sambærilegar við það sem best gerist erlendis. Stærsti vandinn í þessu efni er hins vegar í gömlu atvinnuhúsnæði.

Varðandi það hvað hægt sé að gera til að efla brunavarnir og draga úr brunatjónum má benda á ýmsar leiðir og skal ég nefna nokkur atriði í því sambandi. Brunamálastofnunin hefur skv. lögum lykilhlutverki að gegna á þessu sviði. Hún hefur verið í uppbyggingu undanfarin ár og það er mjög æskilegt að efla hana enn frekar. Efla þarf slökkviliðin, bæta stórlega tækjakost þeirra og gera þau betur fær um að gegna hlutverki sínu. Það er nauðsynlegt að kanna á hvern hátt hægt er að gera ráðstafanir vegna fjárútvegunar til fyrirbyggjandi aðgerða, einkum í eldri byggingum. Þetta á ekki síst við um húsnæði ýmissa þýðingarmikilla fyrirtækja sem veita mörgu fólki atvinnu en skortir fjármagn til að gera nauðsynlegar endurbætur á húsnæði sínu. Sjá þarf til þess að sveitarfélögin hafi aðgang að nægjanlegu fjármagni til uppbyggingar og reksturs slökkviliðanna.

Síðast en ekki síst vil ég nefna upplýsinga- og fræðsluþáttinn. Það er mjög mikil þörf á því að auka á þessu sviði almenna upplýsinga- og kynningarstarfsemi. Einnig er nauðsynlegt að efla sérstaka fræðslu fyrir slökkviliðsmenn sveitarfélaganna og þjálfun þeirra.

Ég fól fyrir nokkru brunamálastjóra að gera sérstaka úttekt á menntunar- og fræðslumálum slökkviliðsmanna í hinum ýmsu slökkviliðum á landinu. Þess var einnig óskað að hann legði fram álit um hvernig þessum málum verði best og haganlegast fyrir komið. Úttekt brunamálastjóra og tillögur hafa legið fyrir um nokkurt skeið og einnig hafa komið fram ábendingar og brtt. frá ýmsum aðilum sem þessi mál varða. Það er of langt mál . að rekja þessar tillögur hér en þar er gert ráð fyrir að komið verði á sérstökum brunamálaskóla sem verði deild í Brunamálastofnun ríkisins. Skólinn veiti nemendum sínum fræðslu í formi bréfaskóla með námskeiðum, fræðslufundum og verklegum æfingum. Þessar tillögur hafa verið kynntar Landssambandi slökkviliðsmanna og slökkviliðsstjórum og eins og áður segir hafa borist brtt. og umsagnir. Tillögurnar eru nú til frekari athugunar og vonast ég til að fljótlega verði hægt að taka afstöðu til þeirra.

Ég vil geta þess í þessu sambandi að ég hef haldið fundi með öllum þessum aðilum ásamt stjórn Brunamálastofnunarinnar og hefur verið fjallað um aukið samstarf á þessu sviði til að reyna að ná þeim árangri sem við hljótum öll að vera sammála um, að efla brunavarnir í landinu og reyna með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir tjón, hverju nafni sem nefnist, í þessum þýðingarmikla málaflokki.

Ég er sannfærður um að með sameiginlegu átaki er hægt að ná verulegum árangri í þessu máli. En fyrsta atriðið er það að við þurfum að finna möguleika á því að auka fjármagn til þess að gera þetta mögulegt, bæði til atvinnufyrirtækja sem búa við gamalt og ófullnægjandi húsnæði og enn fremur til þess að efla með árangursríkari hætti brunavarnir í landinu sem .þó eru á réttri leið og gera sveitarfélögum mögulegt að koma upp fullkomnu kerfi í hverju sveitarfélagi. Að þessu er unnið og ég vænti mikils af þeim fundi sem ég er nýbúinn að halda með Brunamálastofnun ríkisins og fulltrúum slökkviliðanna í landinu og slökkviliðsmanna sjálfra.