07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4880 í B-deild Alþingistíðinda. (4164)

359. mál, lækkun vaxta og stöðvun nauðungaruppboða

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. hefur beint hér til mín spurningum í sambandi við það mál sem hér er til umr. Ég get upplýst það hér að frv. til l. um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga verður dreift hér á Alþingi í dag, núna síðari hluta dags, og er það að sjálfsögðu þáttur í þeirri lausn sem verið er að vinna að í þessum málum. Ég vænti þess að það frv. fái greiða afgreiðslu á Alþingi. Enda þótt menn deili um það hvort frv. nær nægilega langt í þessum málum er það allavega viðurkennt að það er spor í rétta átt til að lagfæra þessi mál og er árangur samkomulags sem gert hefur verið m. a. í viðræðum við fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands.

Ég vil í leiðinni aðeins geta þess að eins og allir hv. þm. vita hefur um nokkurt skeið verið í gangi hjá Húsnæðisstofnuninni ráðgjafarþjónusta til þess að greiða úr vanda og greiðsluerfiðleikum fólks í sambandi við húsnæði. Þessi ráðgjafarþjónusta hefur bæði verið starfræki hér í húsnæði Húsnæðisstofnunar ríkisins að Laugavegi og eins hefur þessi ráðgjafarþjónusta farið um landið á flesta þéttbýlisstaði í landinu.

Það er ekki hægt á þessu stigi máls að greina frá því hvernig þetta mál stendur. Ég mun láta birta um það skýrslu núna næstu daga, en skv. nýjustu upplýsingum sem ég hef fengið hafa tæplega 1400 umsóknir borist um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika. Stofnunin er sem sagt á fullri ferð að vinna úr þessu til afgreiðslu og þegar hafa rúmlega 400 umsóknir verið afgreiddar til útborgunar frá stofnuninni.

Einn þátturinn í þessu hefur verið sá að ráðgjafarþjónustan hefur strax gripið inn í í sambandi við þessar umsóknir og reynt að forða umsækjendum frá uppboði. Eftir því sem ráðgjafinn hefur tjáð mér hefur stofnunin lagt í það mikla vinnu að fá frestun á uppboðum meðan væri verið að ganga frá umsóknum þessa fólks og í flestum tilfellum hefur það tekist eftir því sem þeir greina frá.

Einnig er hægt að segja frá því hér, þó að það liggi ekki fyrir tölulega, að bankakerfið hefur tekið ákaflega vel í þessa þjónustu. Við höfum upplýsingar um það að bankarnir hafa skuldbreytt fjölda lána sem þessir aðilar hafa sótt um og þannig hefur tekist gott samstarf um að leysa sameiginlegan vanda þessa fólks. Nú er ég alls ekki að segja að þarna sé nóg að gert en allavega er rétt að það komi hér fram vegna þessarar fsp. að verið er að vinna að þessum málum á skipulegan hátt og reyna eins og mögulegt er að leysa úr þessum vanda fólks sem vissulega allir viðurkenna að er fyrir hendi.

Á þessu stigi máls tel ég ekki ástæðu til að fara meira inn í þessar umr. Frv. um greiðslujöfnun verður væntanlega til umr. núna í þessari viku. Eins og ég sagði áðan verður því dreift hér í deildinni á eftir.