07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4908 í B-deild Alþingistíðinda. (4175)

394. mál, atvinnumál á Norðurlandi eystra

Flm. (Kolbrún Jónsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um afvinnumál á Norðurl. e. Flm. ásamt mér er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

Atvinnuleysi á Norðurlandi eystra fer vaxandi og veldur heimamönnum síauknum áhyggjum. Í því sambandi er vert að nefna nokkrar tölur. Á árinu 1982 voru að meðaltali 88 manns atvinnulausir í hverjum mánuði, 1983 var fjöldinn kominn upp í 128 að meðaltali á mánuði, 1984 er fjöldinn 156 og 1985 187. Þetta eru eingöngu karlmenn. Svipaða sögu er að segja um konur, nema á milli áranna 1984 og 1985 er þar þó minna atvinnuleysi meðal kvenna en karla. Þar eru tölurnar: 63 konur 1982, 1983 92 konur, 1984 171, en 1985 — og þá bara í janúar og febrúar — 127 konur.

Þetta leiðir til þess að fólk flyst í burtu til að leita sér að atvinnu. Ekki kemur mjög skýrt fram í tölum hversu margir þurfa að flytja vegna atvinnuleysis vegna þess að þeir flytja ekki fjölskyldur sínar um leið. Nú er talið að um 200 iðnaðarmenn frá Akureyri starfi á stór-Reykjavíkursvæðinu. Þetta veldur þessum fjölskyldum mjög miklum erfiðleikum, bæði varðandi ferðakostnað á milli heimilis og vinnustaðar og sundrungar í fjölskyldu. Þegar við tölum um atvinnuleysisprósentuna er hún því ekki sú tala sem við ættum að miða við.

Jafnframt þessu veldur þetta fólksfækkun á svæðinu. 1977 var fólksfjölgun 1.9% á Norðurlandi eystra, 1978 var fjölgunin 1.2%. Ef ég hleyp svo yfir nokkur ár og tek 1983 er hlutfallið komið niður í 0.3%, en 1984 er það –0.7%. Það er sem sagt fólksfækkun í þessu kjördæmi.

Fleira má tína til sem atvinnuleysi leiðir af sér. Meðallaun á þessu svæði halda t. d. alls ekki í við landsmeðaltal. Til þess að nefna nokkrar tölur í því sambandi vil ég fyrst nefna ýmsan iðnað. Þar er munurinn –14% miðað við landsmeðaltal, en flutningar –12% og götu- og sorphreinsun – 9%. Að meðaltali eru laun í Norðurlandi eystra þrem prósentum lægri en landsmeðaltal. Þetta eru örfáar tölur um staðreyndir sem tala sínu máli.

Mikilvægt er að auka fjölbreytni atvinnulífsins á landsbyggðinni þannig að sem flestum gefist kostur á starfi við sitt hæfi. Til þess að ná því takmarki er það höfuðatriði að stjórnvöld marki stefnu í atvinnumálum. Það er ekki höfuðatriðið að stjórnvöld sjái um alla uppbyggingu eða sjái um rekstur fyrirtækja. Það þarf aðallega að búa til jarðveg fyrir fólk til þess að hefja sjálft framkvæmdir og geta staðið sem fyrst á eigin fótum. Til þess að svo megi verða þarf fjármagn. Það þarf að minnka miðstýringu á fjármagni. Það þarf að efla fjármagnsstofnanir úti á landi svo að menn þurfi ekki í þeim mæli sem nú er að sækja hingað suður til Reykjavíkur með ærnum tilkostnaði og ganga á milli manna og stofnana og sjóða og biðja um peninga, helst að þekkja réttu mennina til að ýta á réttu hnappana fyrir sig. Þessu þurfum við að breyta. Þess vegna hef ég lagt áherslu á það í 3. lið þessarar till. að stofnaðir verði þróunarsjóðir sem hlíti stjórn heimamanna. Í þessu sambandi er ég að höfða til þess fjármagns sem ætlað er að nýta í þróunarfélagið. Í núverandi mynd heitir það Framkvæmdastofnun ríkisins en þróunarfélag á að vera nýtt höfuð á þeirri stofnun.

Ég tel mun æskilegra að dreifa þessu fjármagni út um land og láta þar með heimamenn hafa hönd í bagga með í hvaða atvinnugreinar þeir vilja verja þessum fjármunum því að það eru fyrst og fremst þeir sem eru þess megnugir að ákveða hvað er rétt fyrir viðkomandi byggðarlag. Það er líka mikilvægt að það sé á þeirra ábyrgð í hvað fjármunum er varið.

Þó að þessi till. taki til atvinnumála á Norðurlandi eystra er ekki þar með sagt að atvinnuástand sé viðunandi í öðrum landshlutum. Hér hafa verið fluttar þáltill. varðandi aðra landshluta og þar af leiðandi finnst mér rétt að taka Norðurland eystra sérstaklega fyrir. Það er ekki eingöngu vegna þess að ég er úr því kjördæmi, en eins og er er atvinnuástandið verst á þessu svæði og því tel ég rétt að þar verði hafist handa. Það er ekki nóg eingöngu að ræða um atvinnuleysi og atvinnumál. Það verður að hefjast handa um úrbætur.

Ég ætla ekki að fara mjög náið út í hvaða greinar er æskilegt að leggja áherslu á. Við höfum mjög oft rætt um það hér á hv. Alþingi að margir kostir eru góðir fyrir Ísland og Íslendinga. Það hefur verið talað um fiskirækt og líftækni og örtölvutækni og annað slíkt. Það er ekki okkar verksvið, að mínu mati, að nefna eina afvinnugrein fremur en aðra eða eingöngu nýiðnað. Það þarf bæði að efla þau fyrirtæki sem fyrir eru og brydda upp á nýjungum og aðstoða fólk við að koma á fót nýjum fyrirtækjum. Auk þess þarf að leggja mjög mikla áherslu á sölustarfsemi, þ. e. koma okkar vöru á framfæri bæði innanlands og erlendis.

Ég tel ekki ástæðu til þess að halda hér langa tölu, enda átti annað mál að vera til umræðu á undan þessu. Nú er klukkan farin að ganga tíu og ég hygg að menn vilji klára umræðuna um utanríkismálin. Því læt ég máli mínu lokið.