07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4917 í B-deild Alþingistíðinda. (4179)

Skýrsla um utanríkismál

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég mun stytta mál mitt og víkja aðeins að því sem hv. tveir síðustu ræðumenn hafa minnst á.

Varðandi svokallaðar OTH-ratsjár er það að segja að það kom greinilega fram í upplestri hv. þm. Steingríms Sigfússonar, hvort heldur var á ensku eða íslensku, að það var í sitt hvorri mgr. þar sem rætt var um ratsjárstöðvar á Íslandi og mögulega OTH-ratsjá. Það kom líka greinilega fram í hans máli að enn eru óleystir tæknilegir örðugleikar, þeir að norðurljósin trufla nytsemi þessara ratsjárstöðva á norðurslóðum. Það kom enn fremur fram í hans umsögn að það mætti alveg eins áætla að slík stöð yrði í Bretlandi eða Skotlandi eins og hér á Íslandi. Það sem ég hef heyrt varðandi það er að ef slík stöð er reist eftir að búið er að leysa tæknilega örðugleika, þá sé líkleg staðsetning í Skotlandi eða Englandi, í Bretlandi sem sagt. En ég ítreka og endurtek að hér hafa ekki verið hafðar uppi neinar hugmyndir um byggingu slíkra stöðva á Íslandi. Mér fannst þm. þannig farið að hann væri að leggja saman tvo og tvo og fengi út fimm.

Þá vík ég að þyngdarmælingunum sem hann kvað frábrugðnar þeim er fyrr hafa verið gerðar af sömu aðilum, að nú ætti að mæla upp en ekki niður. Ég dreg það ekki í efa að þessar þyngdarmælingar eiga að koma að gagni í sambandi við umferð um loftsins vegu, m. a. varðandi gervihnetti til þess að auðvelda staðsetningu skipa á sjó úti og flugvéla. En þessar fyrirætlanir um þyngdarmælingar hafa farið um hendur Orkustofnunar og Orkustofnun er ákaflega mikið í mun að þær eigi sér stað. Þær verða undir stjórn og á vegum Orkustofnunar. Og Orkustofnun segir þær hafa vísindalegt gildi fyrir jarðeðlisfræði Íslands, fyrir jarðsögu Íslands, mælingar á jöklum, mælingar á jarðlögum o. s. frv. Þótt ég viti að Orkustofnun stefni hátt hygg ég þó að áhuginn hljóti að beinast fyrst og fremst að þeirri vitneskju sem fæst neðan úr djúpum jarðar fremur en í mælingum upp á við.

Þá nefndi hv. þm. Steingrímur Sigfússon herskipakomur og möguleika á því að herskip væru með kjarnavopn innanborðs. Ég vil ekki lengja þessar umræður;með því að endurtaka það sem ég sagði hér fyrir þrem eða fjórum klukkutímum, en þó var það í stuttu máli á þá leið að það gilda ákveðnar reglur í Atlantshafsbandalaginu varðandi flutninga á kjarnavopnum, og ég geng út frá því að þær séu haldnar, að kjarnavopn verði ekki flutt til lands nema með samþykki viðkomandi lands. Til þess að kjarnavopn séu flutt til landsins og inn fyrir lögsögu þess þarf því samþykki íslenskra yfirvalda.

Þá gerði hv. þm. lítið úr því að það sýndi alvöruleysi Argentínu og Indlands og þjóðarleiðtoga þeirra varðandi yfirlýsingu þjóðarleiðtoga í fimm heimsálfum þegar á það væri litið að þessi lönd hefðu ekki staðfest samninginn um bann við dreifingu kjarnavopna og afsakaði þá, skildist mér, með því að þeir hefðu ekki verið þjóðarleiðtogar þegar samningurinn var gerður eða flest ríki staðfest hann. En ég var að vitna í nýlegar heimildir. Ég var að vitna til þess að sendiherrar Norðurlanda í þessum löndum og hjá sameinuðu þjóðunum gerðu sér ferð á fund yfirvalda allra þeirra þjóða í Sameinuðu þjóðunum sem ekki hafa staðfest þennan samning núna um og upp úr áramótunum og fengu afsvar bæði hjá Argentínu og Indlandi. Sannleikurinn er sá að sögur herma — og nú er ég að vísu farinn að hljóma eins og hv. þm. Steingrímur Sigfússon að vitna í sögusagnir — að bæði þessi lönd hafi náð tökum á kjarnavopnum eða hafi vald á þeim. Ég minnist þess í það minnsta að í frásögum af Falklandseyjastríðinu var talin einhver hætta á að Argentína mundi beita þeirri kunnáttu. En ég segi þetta með öllum fyrirvara og tel það eiginlega fyrir neðan virðingu okkar hv. þm. Steingríms Sigfússonar að byggja málflutning okkar á sögusögnum eins og honum er svo gjarnt og ég sýnist vera að falla í sömu gryfju. (SJS: Ég mótmæli þessu hreinlega.)

Þá vék hv. þm. að byggingu stjórnstöðvar í Keflavík og bjó til hálfgert ævintýri eða leynilögreglusögu í kringum þá byggingu. Ég minnist þess ekki að fyrirætlunum varðandi byggingu stjórnstöðvar hafi verið neitað. Ég held að við höfum upplýst það hér fyrr að fjárveiting hafi ekki fengist á sínum tíma hjá Bandaríkjaþingi fyrir byggingu nýrrar stjórnstöðvar í Keflavík. En sú fjárveiting hefur fengist núna og það er ekki farið leynt með það að áform eru uppi um byggingu slíkrar stjórnstöðvar. Meðan þessi fyrirætlun var í æsifregnastíl átti þessi stjórnstöð að vera neðanjarðar, en eins og fram kemur í skýrslu minni er ekki um slíka byggingu að ræða þótt hún sé styrkt og útbúin skv. reglum sem gilda um slík mannvirki á vegum Atlantshafsbandalagsins. Ég hef í öllum tilvikum, eins og skýrslur mínar um utanríkismál og fyrirætlanir varnarliðsins og svör við fsp. hv. þm. bera vitni um, reynt að gefa sem réttastar og mestar upplýsingar á hverjum tíma, og ég minni á að á hverju hausti eru t. d. gefnar upplýsingar í utanrmn. um væntanlegar framkvæmdir næsta árs sem oft og tíðum fela í sér mannvirki sem tekur mörg ár að byggja.

Ég vil svo svara hv. þm. Ólafi Þórðarsyni, sem ég er efnislega í höfuðatriðum sammála. Hvalveiðimál heyra undir utanrrh. að því leyti er snertir fyrirsvar landsins út á við, til dæmis í hvalveiðiráðinu, en varðandi efnisþætti heyra hvalveiðimál undir sjútvrh. Eins og kemur fram í skýrslu minni segir, með leyfi forseta:

„Hvalveiðimálin hafa verið til ítarlegrar meðferðar í sjútvrn. og Hafrannsóknastofnun og rædd í utanrmn. Mun verða gerð sérstök grein fyrir hvalveiðimálum þegar tímabært þykir.“

Það er ekkert óeðlilegt þótt þessi mál séu rædd sérstaklega í utanrmn. Til utanrmn. var vísað þeirri þáltill. hvort mótmæla skyldi þessu hvalveiðibanni. Það valt á einu atkvæði, eins og hv. þm. benti á. Ég var þá í minni hl. og flutti reyndar nál. minni hl. n. á þeim tíma.

Það hlýtur að koma til meðferðar í utanrmn. líka hver aðild okkar og með hvaða hætti þátttaka okkar í hvalveiðiráðinu á að vera í tengslum við framtíð hvalveiða á Íslandi þegar svona er komið. En efnislega hvað hvalveiðarnar sjálfar snertir heyrir þetta undir sjútvrh. og ég get með góðri samvisku sagt, þótt hann hafi verið öndverðrar skoðunar við mig varðandi mótmæli gegn hvalveiðibanni þegar það var uppi á teningnum, að hann hefur unnið mjög samviskusamlega og vel með sínum mönnum í rn. og Hafrannsóknastofnun að kanna færar leiðir er tryggja hagsmuni Íslands sem best. Ég tel því að það hljóti að verða hann sem upplýsi málið efnislega og meti það í samræmi við hagsmuni Íslands hvenær það þykir tímabært.