08.05.1985
Efri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4971 í B-deild Alþingistíðinda. (4215)

248. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Frsm. (Haraldur Ólafsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til l. um Þjóðskjalasafn Íslands og brtt. sem menntmn. flytur.

Þetta mál hefur verið rætt á nokkrum fundum og sérfróðir aðilar hafa sagt álit sitt á því og komið til fundar við n. M. a. hafa þjóðskjalavörður Ólafur Ásgeirsson, Vigdís Jónsdóttir skjalavörður og Jón E. Böðvarsson borgarskjalavörður komið með þýðingarmiklar ábendingar í sambandi við frv.

Menntmn. hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt frv. með þeim brtt. sem fluttar eru á þskj. 860. Þær breytingar eru ekki efnisbreytingar, nema ein veruleg.

Það er í fyrsta lagi við 5. málsgr. 1. gr. Lagt er til að málsgreinin orðist svo:

„Menntmrh. setur eða skipar skjalaverði að fenginni tillögu stjórnarnefndar. Aðra fasta starfsmenn ræður þjóðskjalavörður með samþykki stjórnarnefndar. Við safnið starfi skjalfræðingur eða sagnfræðingur með skjalfræðimenntun.“

Hér er einungis verið að herða á ákvæðum um að það skuli vera skjalfræðingur eða sagnfræðingur með skjalfræðimenntun en ekki að stefnt skuli að, eins og segir í frv.

Þá er gerð sú brtt. við 2. gr. að það verði felld niður síðasta setningin í 2. málsgr. „Menntmrh. ákveður þóknun nm.“ Það þýðir ekki að verið sé að fella niður þóknun til nm., heldur þykir eðlilegt að um það gildi sömu reglur og yfirleitt annars staðar, að það sé þóknunarnefnd sem það ákveður, og er það að sjálfsögðu í valdi menntmrh. að óska eftir því að þóknunarnefnd ákveði greiðslur fyrir setu í stjórnarnefndinni.

Þá er í þriðja lagi gerð brtt. við 4. gr. og lagt til að 2. tölul. orðist svo:

„Líta eftir skjalasöfnum tilkynningarskyldra aðila, láta þeim í té ráðgjöf, gefa út leiðbeiningar um skjalavörslu og tölvuskráningu“ og ákveða ónýtingu skjala sem ekki er talin ástæða til að varðveita til frambúðar.“

Það má segja að hér sé aðeins um orðaleik að ræða. Í frv. stendur tölvuvæðingu, en okkur þótti réttara að nota orðið „tölvuskráningu“ því að það er væntanlega það sem um er að ræða. Eins og kemur fram bæði í frv. og eins í grg. með því er það eitt af hinum meiri háttar verkefnum safnsins að samræma tölvuskráninguna.

4. brtt. er við 5. gr. og lagt er til að 3. málsgr. orðist svo: „Safninu er heimilt að taka við gögnum annarra en afhendingarskyldra aðila.“

Þá er felld niður setningin sem er í frv.:

„Engin skilyrði mega fylgja slíkri afhendingu sem ekki samrýmist almennum reglum safnsins.“ Þetta þótti okkur það augljóst mál að þyrfti ekki að taka sérstaklega fram. Að sjálfsögðu er það safnsins að ákveða með hvaða skilyrðum það tekur við og fer þá eftir þeim almennu reglum sem um það gilda.

Þá er í fimmta lagi lagt til að 10. gr. orðist svo: „Mikilvægustu skjöl safnsins skulu vera til á filmum og eintak af þeim varðveitt á öruggum stað, utan húsakynna safnsins.“

Hér er enn tekið fastar til orða en í frv., en þar segir að stefnt skuli að því að öll mikilvægustu skjöl safnsins séu á filmum o. s. frv. Það hlýtur að liggja í augum uppi að það er mat þjóðskjalavarðar og stjórnarnefndar hver eru hin mikilvægustu skjöl safnsins og því sjálfsagt að það sé ákveðið tekið fram að þau skuli sett á filmur eða varðveitt í tvíriti þannig að minni hætta sé á að þau glatist.

Á eftir 10. gr. leggjum við til að komi ný grein er verði 11. grein og orðist svo:

„Þegar skjöl, sem að dómi þjóðskjalavarðar hafa fræðilegt gildi en eru í eigu einkaaðila, eru flutt úr landi, skal tilkynna það Þjóðskjalasafni og safnið hafa heimild til að semja um ljósritun þeirra eða afritun með öðrum hætti áður en farið er með skjölin úr landi.“

Þessi grein kemur hér inn fyrir ábendingu frá Jóni E. Böðvarssyni borgarskjalaverði og miðar að því að tryggja að gefinn sé kostur á að semja um að þau skjöl sem talin eru hafa mikilvægt fræðilegt eða menningarsögulegt gildi séu ljósrituð, afrituð eða sett á filmu áður en þau eru flutt úr landi þannig að varðveita megi í landinu afrit slíkra skjala. Þjóðskjalaverði er með greininni eins og hún er orðuð gert skylt að fylgjast með slíkum söfnum í einkaeign, vita hvar þau eru, hafa nokkra hugmynd um hvar þau er að finna og getur þá óskað eftir því við viðkomandi að fá að ræða um það og kanna hvort ekki sé grundvöllur fyrir slíkum samningum. Hins vegar þótti okkur ekki fært að skylda einkaaðila beinlínis til þess að láta ljósrita eða afrita með öðrum hætti slík einkaskjöl. Það getur verið um margs konar viðkvæm einkamálefni að ræða. Með þessari grein þykir gert mögulegt að fylgjast með og gerir hún fólki reyndar skylt að geta um þegar slík söfn á að flytja úr landi, þannig að þjóðskjalavörður geti þá kannað málið líka og samið um afrit.

Síðan ætti að sjálfsögðu að koma að tölusetning annarra greina breytist í samræmi við þessa nýju grein og legg ég það hér með til.

Þetta eru þær brtt. sem n. hefur fram að færa.

Að sjálfsögðu væri hægt að tala langt mál um Þjóðskjalasafn. Gildi Þjóðskjalasafns er mjög mikið bæði fyrir sögulegar rannsóknir, fyrir alla upplýsingasöfnun og fyrir upplýsingamiðlun í þjóðfélaginu. Í mjög ítarlegri grg. með þessu frv. er með ýmsum hætti bent á þetta gildi. Þar er einnig rætt um húsnæðismál safnsins og það gífurlega magn sem rennur til þess árlega og má ætla að muni stóraukast á næstu árum þegar nákvæmari reglur eru settar um afhendingarskyldu skjala og ætla má að harðar verði gengið eftir afhendingu en verið hefur. Það er talið að um 1600 hillumetrar af skjölum bætist við á ári hverju. Það gefur auga leið að það er ekki lengi verið að fylla það húsnæði sem safnið hefur núna eða a. m. k. á í vændum ef safnahúsið verður allt lagt undir Þjóðskjalasafn, en þá held ég að brýnt sé að gera sér grein fyrir því að geymsluhúsnæðis verður að afla á einhvern hátt á næstunni svo að safnið nýtist á þann hátt sem æskilegt er og nauðsynlegt er.

Það eru mörg merkileg nýmæli í þessu frv. sem hæstv. menntmrh.. gerði rækilega grein fyrir við 1. umr. og ætla ég ekki að endurtaka það. Ég vil þó geta eins mjög mikilvægs atriðis og það er skráning skjala, að það sé samræmi í þeim efnum milli embætta hins opinbera, og eins að tölvuskráning verði með þeim hætti að hún auðveldi notkun safnsins, röðun safnsins og yfirleitt alla safnastarfsemina. Þá hafa ákvæðin um héraðsskjalasöfn verið felld inn í þetta frv. og er það vel og þjóðskjalaverði falið að fylgjast betur með þeim söfnum en verið hefur.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum lýsa ánægju minni með þetta frv. og þá gífurlegu vinnu sem í það hefur verið lögð. Þær brtt. sem n. flytur eru alls ekki gagnrýni, heldur er einungis um að ræða að kveða fastar að orði eða orða hlutina aðeins á annan hátt. Grg. og fskj. eru óvenjuvel úr garði gerð og veita reyndar frábærar upplýsingar um sögu og hlutverk þessa merka safns.