31.10.1984
Efri deild: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

85. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka afskipti ráðherra og embættismanna af rekstri ólöglegra útvarpsstöðv

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Valdimar Indriðason, kom hér í stól til að segja það að við skyldum láta rannsaka málin áður en fullyrðingum er slegið fram. Það er nákvæmlega það sem þessi till. hljóðar upp á og það vil ég benda hv. þm. á. Hér segir í 1. gr. að kanna skuli „embættisleg afskipti einstakra ráðh. af rekstri þeirra útvarpsstöðva er héldu uppi ólöglegri starfsemi í verkfalli opinberra starfsmanna“ o.s.frv. Í 2. gr. segir að kanna skuli „afskipti embættismanna af rekstri áðurgreindra útvarpsstöðva“ og síðan að nefndin skuli einnig kanna „aðra þætti þessara mála eftir því sem henni þykir ástæða til og nauðsynlegt reynist“. Það er nákvæmlega það sem þessi till. hljóðar upp á, hv. þm., þ.e. að rannsaka málið. Þess vegna fæ ég ekki séð með hvaða rökum mótmæli hv. þm. eru borin hér fram.

Það hefur komið hér fram í máli annarra flm. að þessari till. að það er ekki verkefni almennra dómstóla að rannsaka embættisathafnir ráðh. heldur er það verkefni sérstakra rannsóknarnefnda sem kveðið er á um í 39. gr. stjórnarskrárinnar. Hér er í raun og veru um að ræða einu löglegu leiðina sem fær er til þess að athuga þessi mál sérstaklega. Mig langar til þess að biðja hv. þm., ef hann sér sér fært að koma hérna upp aftur, að svara því hvers vegna hann er á móti því að þessi leið sé farin. Ef hægt á að vera að segja eitthvað af eða á um þetta mál, hvers vegna er þá ekki viðunandi að rannsaka það eftir þeim leiðum sem einar eru færar í rannsókn þess?

Hér er ekki verið að ræða um útvarpslög eða svokallað frjálst útvarp. En hv. þm. Stefán Benediktsson kom hér upp og gerði þau mál að atriði ræðu sinnar og mig langar til þess að minnast á eitt atriði í máli hans. Hann sagði að sér fyndist það ekkert skrýtið að menn hjálpuðu sér sjálfir þegar ákveðnar aðstæður koma upp. Ég verð að lýsa furðu minni á þessum orðum hv. þm. Mér finnst það ákaflega skrýtið og mjög ámælisvert ef menn hjálpa sér sjálfir í bága við lög hverjar svo sem aðstæður eru.

Hér hefur verið talað um neyðarrétt og að hann geti á stundum réttlætt sjálfshjálp manna. Ég held að það sé ákaflega langsótt að bera því viðkvæði við hér. Ef þetta viðkvæði væri notað almennt í daglegu lífi hér á landi má þá t.d. kona, sem ekki á fyrir brauði handa börnum sínum, ganga út í búð og taka brauðið þar? Hefur hún þann neyðarrétt? Slíkar spurningar vakna þegar menn fara að bera fyrir sig neyðarrétt í máli sem þessu. Hv. þm. Stefáni Benediktssyni fannst það sem sagt ekkert skrýtið að menn hjálpi sér sjálfir, en fannst það athugunarvert að stærsti stjórnmálaflokkur landsins gerði það. Hvílíkur barnaskapur. Hvernig má það vera að menn megi hjálpa sér sjálfir ef stærsti stjórnmálaflokkur landsins má ekki gera það? Ég fæ þetta alls ekki til þess að ganga upp. Ef allir mega hjálpa sér sjálfir, þá hlýtur jafnt yfir alla að ganga.

Það hefur verið flutt langt mál um þessa till. Ég sé enga ástæðu til að endurtaka efnisatriði þau sem hér hafa komið fram, en vil að endingu varpa fram einni spurningu: Ef allt er í sómanum með afskipti ráðh. og embættismanna af þessu máli, hvers vegna standa þeir þá gegn því og hvetja ekki til þess að það komi í ljós hversu rétt þeirra afskipti hafa verið af þessu máli?