08.05.1985
Neðri deild: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5002 í B-deild Alþingistíðinda. (4261)

5. mál, útvarpslög

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hef nú ekki tekið oft til máls í þessum umræðum um útvarpslög og hef ekki verið að tefja þetta mál með löngum ræðuhöldum. Það er frekar hv. 6. þm. Reykv. sem hefur sett hér á langar tölur um þessi mál. Og í sjálfu sér ætla ég ekki að blanda mér í þau efnisatriði sem hann hefur verið að gera grein fyrir að öðru leyti en því, að ég ætla að segja að ég er honum hjartanlega ósammála í flestu sem hann hefur sagt. Hann er hér að mæla fyrir því að skapaðar verði forsendur til þess að fjármagnið fái þá einokun sem nú er hjá Ríkisútvarpinu, hann er að hafna því að settar verði lýðræðislegar reglur um að takmarka vald fjármagnsins. Það kemur mér ekki á óvart. Hv. þm. hefur verið talsmaður þeirra sem hafa vantrú á lýðræðinu, vantrú á þingræðinu. Það kemur fram í umræðum um fleiri mál en útvarpslögin, það kemur fram í umræðum um Byggðastofnun, þróunarfélag og hvað það nú allt heitir sem hér er til meðferðar dag eftir dag. Það hefur verið býsna fróðlegt að fylgjast með því hvernig línur hafa skorist á milli stjórnmálaflokka í þessum umræðum þar sem tekist hefur verið á um grundvallar pólitísk atriði, það hefur verið ákaflega fróðlegt. T. d. hef ég veitt því athygli hvernig Alþfl. hefur talað í þessu máli í gegnum sinn formann, ég tala nú ekki um Bandalag jafnaðarmanna, sem er yfirleitt kaþólskara en páfinn, þ. e. hægra megin við íhaldið, þegar kemur að málum eins og því sem hér er á dagskrá.

Vandinn virðist vera stór hjá stjórnarflokkunum í sambandi við þetta mál eins og hér hefur komið fram í umræðunum í dag. Það er ljóst að hæstv. menntmrh. taldi sig hafa samkomulag við hæstv. forsrh. um það að þm. Sjálfstfl. mættu fylgja sannfæringu sinni í þetta skipti. Hæstv. menntmrh. lýsti því hér áðan að hún hefði staðið í þeirri góðu trú að þm. Sjálfstfl. mættu fylgja sannfæringu sinni, aldrei þessu vant. Hæstv. menntmrh. gerði mjög ítarlega grein fyrir þessu og sömuleiðis hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson. Ég skildi ræður þeirra beggja þannig að þau hefðu þarna verið í góðri trú. Hins vegar kemur það síðan fram hjá hæstv. forsrh. að ef till. BJ eða till. hv. þm. Friðriks Sophussonar verða samþykktar, þá hefur forsrh. landsins sjálfur í hótunum um að stöðva útvarpslagafrv. og framgang þess. Þetta liggur alveg ljóst fyrir eftir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Það er sem sagt greinilegt að stjórnarflokkarnir eru vanbúnir til þess að taka á þessu máli. Og það kemur út af fyrir sig ekki á óvart að það sé erfitt vegna þess að hér er auðvitað verið að ganga þvert á þau viðhorf sem uppi hafa verið varðandi afskipti löggjafans af fjölmiðlum í landinu á undanförnum árum.

Ég tel reyndar að Framsfl. hafi gefið mjög mikið eftir í þessu máli, ég tel það alveg bersýnilegt. Það kom mér ekkert á óvart, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði hér í dag, að þegar hann kynnti málið í Framsfl. hefði þm. Framsfl. talið málið svo óhagstætt fyrir framsókn en hagstætt fyrir íhaldið að hann hafi næstum verið skotinn í kaf, þessi hv. þm., og er hann þó, eins og kunnugt er, vaskur og vafalaust einnig fimur í þingflokksherbergi Framsfl. við að bera af sér spjótalögin. Framsfl. hefur gengið þarna í raun og veru út fyrir öll þau mörk sem ég geri ráð fyrir að margir hans stuðningsmenn hafi talið að þessi flokkur gæti gert. Þess vegna telja menn að það sé í raun og veru nauðsynlegt að stöðva sig af. Framsfl. felur að hann sé kominn út á ystu brún og þess vegna eru þeir framsóknarmenn núna að endurskoða afstöðu sína. Þeir eru að reyna að finna leið eftir allt frelsisruglið, sem þeir hafa innleitt hér í þjóðfélaginu, þeir eru að reyna að finna leið til þess að smokra sér út úr þessum vanda. Og þá er bersýnilega snjallt að bregða fyrir sig þessum misskilningi í þessu stefnumóti á stigagangi, sem þau áttu hæstv. forsrh. og hæstv. menntmrh., sem er í rauninni eitt merkilegasta stefnumót sem hefur verið gerð grein fyrir hér á Alþingi mjög lengi, að ekki sé meira sagt. 1 þessari stöðu er Framsfl. núna. Hann engist sundur og saman og íhald togar svo í hina áttina, fjölmiðlarisinn sem Samband íslenskra samvinnufélaga hefur að hluta til átt aðild að að koma á fót ásamt þeim öflum hér í þjóðfélaginu sem eiga fyrir stærsta fjölmiðla. Dæmið um ÍSFILM er auðvitað alveg sláandi um það sem hér er að gerast. (HBl: Hvað er þetta ÍSFILM?) ÍSFILM er fyrirtæki sem nokkrir aðilar, Morgunblaðið og fleiri, hafa komið á laggirnar ásamt Reykjavíkurborg og fleiri aðilum og ég held að SÍS hafi eitthvað komið þar nálægt. Þetta dæmi um ÍSFILM er alveg sláandi um það sem hér er að gerast. Það er verið að afhenda fjármagninu valdið, það er verið að afhenda fjármagninu þá einokun sem menn telja að Ríkisútvarpið hafi haft. ÍSFILM er alveg talandi dæmi um þetta.

Varðandi þær brtt., herra forseti, sem hér liggja fyrir vil ég vekja athygli hæstv. forseta á því að hér er um að ræða þrjár brtt. Þær eru á þskj. 507, 514 og 861. Það eru þær þrjár brtt. sem snerta þetta deilumál á milli stjórnarflokkanna. Á þskj. 861 flytur hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson brtt. við brtt. hv. þm. Kristínar Kvaran á þskj. 507. Ég vil spyrja hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson: Hver verður afstaða Alþfl.? Ég óska eftir að það liggi fyrir áður en þessari umr. lýkur hér, 3. umr. í deildinni, hver verður afstaða Alþfl. ef till. á þskj. 861 verður felld. Verði till. á þskj. 861 felld hlýtur auðvitað að koma til athugunar að þeir Alþfl.-menn telji að þau tíðindi hafi gerst að þeir hljóti að snúast gegn hinum frjálsu auglýsingastöðvum. Ef Alþfl.-menn við svo búið snúast gegn hinum frjálsu auglýsingastöðvum, ef Framsfl. greiðir atkvæði á móti þessum frjálsu auglýsingastöðvum, og það mun Alþb. gera, ef þessir flokkar þannig snúa bökum saman, þá er þessi íhaldstillaga frá hv. þm. Friðrik Sophussyni undir dulnefni, sem er svo flutt hér af öðrum þm. og á öðru þingskjali, fallin, þá er hún þar með úr sögunni. Ég sé því ekki betur en hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hafi líf ríkisstj. í hendi sér. (JBH: Heyr, heyr!) Ég held að það sé nauðsynlegt að hér komi skýrt fram: Ætlar hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson að hjálpa Sjálfstfl. við að knýja fram þau skilyrði sem voru samþykkt á landsfundi Sjálfstfl.? Er hann kominn í þannig verk hjá íhaldinu að hann vilji beinlínis aðstoða þá við að halda stjórnarsamstarfinu áfram með því að ná þessu skilyrði fram? Ég hef auðvitað tekið eftir því að það hefur verið ástarkvak á milli þeirra hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar og hv. þm. Þorsteins Pálssonar hér úr ræðustólnum. Þó það hafi e. t. v. ekki verið eins „sénerandi“ og sögurnar af stefnumótinu hér í dag, þá hafa allir þm., sem fylgjast með, tekið eftir þessu kvaki, þessari hringekju ástarinnar sem hefur verið á milli þessara forustumanna tveggja stjórnmálaflokka. En allt um það, spurningin er sú: Ætlar hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sem formaður Alþfl. að beita sér fyrir því að knýja fram skilyrði landsfundar Sjálfstfl.? Það er vissulega athyglisvert innlegg í löggjafarstarfið. Og það væri fyrsta tillagan sem hv. þm. sem formaður Alþfl. hefði í raun og veru náð fram hér á Alþingi. Það fer auðvitað vel á því að viðreisnarmeirihlutinn birtist okkur í hinu alfrjálsa auglýsingaútvarpi. Það fer vel á því að viðreisnarstjórnin komi þannig út úr greninu og hv. þm. hefji þannig þá göngu sem hann hefur verið að boða á þeim fundum þar sem hann hefur verið að leita að því hver á Ísland.

Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt, herra forseti, að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson geri hér grein fyrir þessu, vegna þess að það skiptir bersýnilega mjög miklu máli.

Á þskj. 861 er sem sagt þessi brtt. hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar. Við skulum segja að hún yrði samþykkt. Þá kæmi væntanlega næst til atkvæða fyrri málsliður till. á þskj. 507 frá hv. þm. Kristínu Kvaran. Og ég segi fyrri málsliður vegna þess að þessi till. er efnislega í tveimur hlutum og hún er rangt upp sett hér í þskj. Það er ekki hægt að greiða atkvæði um þessa till. í einu lagi. Og ef svo færi að till. hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar á þskj. 861 yrði samþykkt þá sýnist mér margt benda til þess að till. á þskj. 507 yrði samþykkt líka. Og þá rennur upp stóra stundin sem hæstv. forsrh. var að lýsa hér áðan. Þá tekur Framsfl. málið til athugunar. Það er ekkert annað. Það er haft í miklum hótunum hérna. Framsfl. tekur bara málið til athugunar. Ég verð nú að segja að það er ekki seinna vænna en að hann taki sinn gang til athugunar, Framsfl. En mjór er mikils vísir. Það er gott að Framsfl. fari að taka málin til athugunar, sérstaklega af því að hv. þm. Páll Pétursson er nú kominn heim. Og þá get ég ekki skilið stöðuna öðruvísi en sem svo að forsrh. landsins hafi haft í hótunum við samstarfsflokk sinn um það að stöðva málið í Ed. ef hann verður undir í Nd. (HBl: Er þetta ekki einhver misskilningur?) Það var augljóst, hv. 2. þm. Norðurl. e., sem treystir auðvitað nú sem endranær forsrh. sínum betur en öllum öðrum mönnum, það var augljóst að hæstv. forsrh. var að hóta því að hefna þess í Ed. sem hallast á í Nd. Þetta eru nú heilindin í hinu góða stjórnarsamstarfi sem þeir voru að lýsa hér í sjónvarpinu fyrir fáeinum vikum hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson og hæstv. forsrh. Þannig er staðan, þessar hótanir liggja hér alveg fyrir. Framsfl. segir sem svo: Ef þið keyrið yfir mig í Nd. þá munum við, vegna þess að stutt er eftir af þinginu, stöðva málið í Ed. Og nú getur einhver sagt eins og hv. þm. Halldór Blöndal, sem er nú horfinn úr dyrunum því miður: Þetta er einhver misskilningur, þetta er einhver vitleysa, svona gera menn ekki í stjórnarsamstarfi. En þá ætla ég að bæta við: Ég hef reynslu af Framsfl., ég hef verið aðili að ríkisstj. með Framsfl., ég veit nákvæmlega hvernig þeir vinna. Og ef Sjálfstfl. er með svo bláeygða og barnalega forustu að hann lætur sér detta í hug að Framsfl. meðhöndli þetta mál af einhverjum hellindum uppi í Ed., eftir að hafa beðið lægri hlut í Nd., þá veit Sjálfstfl. greinilega og hv. þm. Halldór Blöndal ekki með hverjum hann er í ríkisstj. vegna þess að Framsfl. mun auðvitað í þessu máli haga sér nákvæmlega eins og ég hef hér lýst.

Til þess að fá það fram hvað hér er á ferðinni vil ég spyrja í fyrsta lagi hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson þeirrar spurningar sem ég bar hér fram áðan og ætla ekki að endurtaka og þarf órugglega ekki að endurtaka. En í öðru lagi ætla ég að spyrja hv. þm. Ólaf Þórðarson sem er aðaltalsmaður Framsfl. í þessu máli að forsrh. fjarstöddum: Mun Framsfl. stuðla að framgangi þessa máls í Ed. eftir að hið frjálsa auglýsingaútvarp hefði verið samþykkt? Mun Framsfl. stuðla að því að frv. nái þá fram að ganga eins og það kemur frá Nd. eða mun Framsfl. beita sér fyrir því að frv. verði breytt aftur í Ed.? Þetta þurfa menn auðvitað að fá hér fram.

Ég geri ráð fyrir því að það séu fleiri hér en ég sem munar í það að fá fréttir af því hvað framsókn hyggst gera í þessu efni. Ég geri ráð fyrir því. Og það væri einnig fróðlegt að fá að vita hvað það er sem hv. þm. Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl., vill segja um þetta mál. Eða er það ætlun framsóknarmanna kannske að láta ganga yfir sig alveg í þessu máli og leggja niður vopnin, lyppast algerlega niður? Eða hvernig ætla þeir að bregðast við? Alþb. er fyrir sitt leyti tilbúið til þess að gera bandalag, jafnvel við Framsfl., um að stöðva hina gegndarlausu útþenslu fjármagnsins sem hér er gerð till. um. Ef Framsfl. hefur döngun í sér til að taka því tilboði, þá er það vel. (JBH: Bandalag við framsókn um að stöðva SÍS.) Ja, það væri snjalli að gera bandalag við framsókn um að stöðva SÍS. Ég sé að það eru fleiri en ég sem átta sig á því hvað það væri mikil nýlunda.

Herra forseti. Ég hef hér lagt fram tvær fsp. til tveggja hv. þm. til að fá upplýsingar um það hvernig málið stendur í tveimur stjórnmálaflokkum, miðjumótsflokkunum tveimur, Alþfl. og Framsfl., vegna þess að það er óhjákvæmilegt að fá þær upplýsingar áður en málinu lýkur. Ég geri ráð fyrir að það sé nauðsynlegt fyrir fleiri en mig að fá þær upplýsingar.