09.05.1985
Efri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5013 í B-deild Alþingistíðinda. (4283)

106. mál, tannlækningar

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. á þskj. 823 við frv. til laga um tannlækningar. Í fyrsta lagi er brtt. við 2. gr. Við gr. bætist ný málsgr. er orðist svo:

„Ráðh. er heimilt að gera það að skilyrði fyrir leyfi samkv. 1. gr. að umsækjandi hafi gegnt starfi við tannlækningar á heilsugæslustöð allt að sex mánuði að námi loknu.“

Þetta ákvæði er sambærilegt við núgildandi læknalög og tel ég rétt að gefa ráðh. heimild til þess að hafa hönd í bagga með sé skortur einhvers staðar á landinu á tannlæknum eða vilji ráðh. leggja sérstaklega áherslu á fræðslu og tannvernd og nýta sér þar með þessa heimild til að beina þessum starfskröftum inn á það svið.

Í öðru lagi geri ég brtt. við 5. gr. frv. Þar bætist við ný málsgr. — Ég vil taka fram að hæstv. forseti veit mætavel að þessar brtt. miðast við frv. eins og það var fyrir 2. umr. og vil ég halda mig við greinarnar eins og þær voru þá. Forseti á að hafa alveg á hreinu þegar til atkvgr. kemur að það er miðað við frv. eins og það var í upphafi. — Við 5. gr. bætist ný málsgr. er orðist svo:

„Sérhæfðu aðstoðarfólki, sbr. 7. gr., skal þá heimilt að annast fræðslu og varnir gegn tannsjúkdómum á heilsugæslustöðvum, sjúkrahúsum, í skólum og uppeldisstofnunum undir stjórn yfirtannlæknis.“

Þessi grein er sérstaklega hugsuð til þess að tannfræðingum og öðru því starfsfólki sem sérmenntar sig á einhverju sviði varðandi tannlækningar sé heimilt samkv. lögum að starfa að þessum málum án þess að vera undir beinni handleiðslu tannlæknis. Þá vil ég sérstaklega víkja að frv. eftir 2. umr. eins og það hljóðar nú. Þar segir í 8. gr. sem áður var 7. gr.: „Tannlæknum er heimilt að hafa aðstoðarfólk. Um sérhæft aðstoðarfólk fer samkvæmt lögum um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir.“

Í þeim lögum segir eitthvað á þá leið, ég er ekki með þá lagagr. hérna í stólnum, að þeim sem starfa undir þeim lögum sé ekki heimilt að stunda sín störf nema á ábyrgð og undir handleiðslu sérfræðinga. Nú er verið að fella þessi lög úr gildi með frv. til laga sem var hér til umfjöllunar í gær um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, en þar segir:

„Þær stéttir, er falla undir lög þessi, starfa við heilbrigðisstofnanir, kennslustofnanir heilbrigðisstétta eða matvælastofnanir. Starfa þær ýmist á eigin ábyrgð eða undir handleiðslu og á ábyrgð læknis eða annars sérfræðings að viðkomandi sviði.“

Þarna er búið að rýmka þetta eilítið. Tannfræðingar gætu sem sagt starfað á eigin ábyrgð, en til þess væri ekki vísað annars staðar í lögum hvert þeirra starfsvið væri. Ég vildi helst ekki að við værum samtímis að samþykkja lög hér á Alþingi og vísa í lög sem við erum að fella úr gildi.

Í þriðja lagi geri ég brtt. við 8. gr. sem orðast svo: „Aðstoðarfólk samkv. 7. gr. skal ávallt starfa undir handleiðslu og á ábyrgð tannlæknis, sbr. þó 2. málsgr. 5. gr. Það hefur ekki heimild til að taka að sér sjálfstæð verkefni sem undir tannlækningar falla.

Öðrum en tannlæknum og sérhæfðu aðstoðarfólki er óheimilt að vinna nokkurt það verk sem undir tannlækningar heyrir.“

Þannig vildi ég láta þessa grein hljóða, en ekki að vísa í lög sem við erum nú að fella úr gildi.

Í fimmta lagi geri ég brtt. við 12. gr. Þar er breytingin eingöngu fólgin í því að ég bæti við yfirtannlækni. Hann hafi ábyrgð og skyldur sem opinber starfsmaður á vegum heilbrigðisráðuneytisins eins og landlæknir.

Vil ég nú lesa fyrri part greinarinnar, með leyfi forseta.

„Sérhverjum tannlækni ber að viðhalda þekkingu sinni. Telji landlæknir eða yfirtannlæknir að tannlæknir hafi sýnt að hann uppfylli ekki lengur þau skilyrði sem krefjast beri af honum skýra þeir ráðh. frá málavöxtum.“

Þarna er eingöngu lögð ábyrgð á herðar yfirtannlækni jafnframt landlækni.

Í sjötta lagi legg ég til að á eftir 12. gr. komi ný grein er verði 13. gr. og orðist svo.

„Tannlæknar skulu færa sjúkraskrár yfir sjúklinga sem þeir annast. Óheimilt er að ónýta slíkar skrár nema með leyfi heilbrrh. að fengnum tillögum landlæknis. Þegar tannlæknir lætur af störfum skal sjúkraskrám, sem hann hefur fært, komið í umsjá landlæknis.“

Ég vil taka það fram að meiri hluti nefndarinnar var sammála mér um þennan fyrripart. Við samræmdum þessa grein ef svo má segja. En það sem skilur á milli hjá mér og meiri hluta nefndarinnar er að ég vil bæta um betur og segja í framhaldi af þessu:

„Tannlækni er heimilt að óska eftir sjúkraskrám frá öðrum tannlæknum um sjúkling sem hann annast. Slíkar óskir skuli bornar fram með samþykki sjúklings og er tannlæknum skylt að verða við þeim.“

Til þess að skýra aðeins betur hvað ég á við þarna vil ég nefna að ef sjúklingur, sem leitar tannlæknis og hann tekur af honum röntgenmyndir og gerir annað, sem er kostnaðarsamt fyrir sjúkling, skiptir um tannlækni, þá hefur hann enga lagaheimild til þess að óska þess að hann geti nýtt sér það sem hann er þó búinn að borga fyrir og tilheyrir sjúkraskrám. Þetta er líka brýnt þar sem tannlæknir er jafnvel um skamman tíma úti á landsbyggðinni eða hvar sem er og flytur síðan um set. Þá hefur hann rétt til að flytja með sér allar þessar skrár og þær koma engum til góða sé hann ekki að annast þá sjúklinga sem hann áður hefur annast. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að þarna er ekki verið að ganga á rétt neins. Þarna er verið að tryggja rétt sjúklings til að nýta sér þau gögn sem til eru og hann hefur sjálfur greitt fyrir.

Þetta þarf ekki að vera neinum erfiðleikum háð hér í þéttbýlinu. Ég þekki það ekki vel hvernig samskipti eru á milli tannlækna hér í þéttbýlinu. Þeir geta jafnvel látið þetta ganga sín á milli án þess að lagaákvæði kveði á um það. En ég veit til þess að þegar tannlæknar hafa hafið störf úti á landi hafa þeir komið að tómum kofanum, þ. e. að það hafa engar sjúkraskrár verið til staðar. Hvort tannlæknar hafa flutt þær með sér eða hvað þeir hafa gert við þær er ekki mitt að dæma um, enda hafa þeir ekki verið skyldir til þess að færa sjúkraskrár og það hefur verið þeim í sjálfsvald sett hvað þeir hafa gert við þær, hafi þeir fært þær. Ég vil ekki lengja þessa umr., það er búið að fjalla mikið um þetta í nefndinni, og læt þá máli mínu lokið.