09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5045 í B-deild Alþingistíðinda. (4341)

248. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Svavar Gestsson:

Ég vil, herra forseti, þakka hæstv. menntmrh. fyrir að leggja hér fram þetta frv. Hér er mjög stóru máli hreyft og sjálfsagt stærra en ætla mætti af þeirri umr. sem fram fer um þetta á hv. Alþingi miðað við mörg önnur mál.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. menntmrh. — það kann að hafa farið fram hjá mér í ræðu hennar eða annars staðar í þessum gögnum — með hvaða hætti ráðh. hyggst setja reglugerð skv. 9. gr. þessa frv. um aðgang að skjölum sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni og notkun þeirra sem ráðh. á að setja reglugerð um að fengnum tillögum þjóðskjalavarðar.

Ég vildi einnig spyrja hæstv. ráðh. að því hvort í undirbúningi eru reglur um hvernig opinberar stofnanir, þar á meðal stjórnarráðið, skili gögnum sem eru afhendingarskyld skv. 5. gr. þessa frv. Ég hygg að þessi mál séu satt að segja í hinum mesta ólestri, þarna séu óskýrar reglur og óljósar og þarna sé ekki með hlutina farið eins og varðveislugildi þeirra í rauninni krefst.

Þessar spurningar vildi ég leggja fyrir hæstv. menntmrh. um leið og ég tek undir það með henni að það er auðvitað til vansa fyrir okkur öll hér á hv. Alþingi hvernig dragast framkvæmdir við þjóðarbókhlöðuna. Ég tek undir orð hæstv. ráðh. í þeim efnum og ég held að það sé nauðsynlegt að koma því sjónarmiði hér á framfæri, að ég held að byggingarmál þjóðarbókhlöðunnar verði aldrei leyst með skaplegum hætti, þannig að þetta hús verði tilbúið fljótlega, öðruvísi en reynt verði að finna annan farveg fyrir fjármögnun þessarar byggingar en beinlínis er inni í venjulegum fjárlögum og lánsfjárlögum. Ég bið hæstv. menntmrh. og hv. alþm. að velta því fyrir sér hvort ekki er unnt að finna sérstaka fjáröflunarleið fyrir þjóðarbókhlöðuna því það er auðvitað til skammar satt best að segja að láta þetta hús standa svona árum saman.