14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5217 í B-deild Alþingistíðinda. (4510)

453. mál, lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum kennara

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það er í raun og veru ekkert því til fyrirstöðu að ég gæti

lagt fram frv. sem eingöngu fjallaði um lögverndun starfsheitis kennara eins og ég lýsti yfir snemma í vetur. En ég mun nú gera grein fyrir því af hverju það hefur ekki orðið.

Samtök kennara hafa lengi haft á stefnuskrá sinni það sem hefur verið kallað lögverndun starfsheitis kennara. Þetta hefur ítrekað komið fram í yfirlýsingum frá fundum og þingum kennarasamtakanna. S. l. haust skýrði ég forsvarsmönnum samtakanna frá því að ég væri reiðubúin til að skipa nefnd fulltrúa tilnefndra af kennarasamtökunum til þess að starfa með fulltrúum rn. að því að gera tillögur að frv. um lögverndun starfsheitis kennara. Nefndin var skipuð í október.

Í viðræðum mínum við forustumenn kennarasamtakanna hafði oft komið fram að ég vildi vinna að framgangi lögverndunar starfsheitis grunnskólakennara annars vegar og framhaldsskólakennara hins vegar með sama hætti og starfsheiti bókasafnsfræðinga hafði verið lögverndað með lögum frá Alþingi í maí 1984, fyrir ári síðan. Í umræðum á Alþingi hinn 12. mars 1984, þegar ég mælti fyrir frv. til laga um bókasafnsfræðinga, sagði ég að það frv. fjallaði ekki um starfsréttindi heldur einungis um réttindi til að nota þetta starfsheiti. Þegar nefnd skipuð fulltrúum kennarasamtakanna og fulltrúum menntmrn. hóf störf nú í vetur varð fljótt ljóst að kennarar höfðu ekki einvörðungu áhuga á lögverndun starfsheitis sambærilegri við það sem bókasafnsfræðingar höfðu hlotið, heldur vildu þeir aukna verndun starfsréttinda sinna, sem í raun og veru þrengir aðganginn að kennarastarfinu, en sjálf starfsréttindi kennara njóta þegar lögverndunar, sbr. lög um embættisgengi kennara og skólastjóra nr. 51/1978.

Þegar þessi afstaða kennara var ljós fól ég fulltrúum rn. í nefndinni að kanna með hverjum hætti væri unnt að ná samkomulagi við fulltrúa kennarasamtakanna um drög að einu frv. þar sem bæði væri kveðið á um starfsheiti og starfsréttindi, þ. e. mér þótti nauðsynlegt að það lægi skýrt fyrir hve langt það væri sem kennarar vildu að gengið væri í þessu sambandi, m. ö. o. hvaða merking fólst í óskinni um lögverndun starfsheitis sem ég taldi alveg ljósa en virtist að svo komnu máli fela í sér meira frá þeirra sjónarmiði séð. Nefndarmenn leituðust við að finna leið sem mögulegt gerði að verða við óskum kennara að þessu leyti án þess að skólastarfi í landinu væri stefnt í hættu sökum kennaraskorts.

Þessi nefnd hefur ekki lokið störfum. Eins og kunnugt er var mjög erfiður tími, svo að ekki sé meira sagt, nú vikum saman, einkanlega þó í marsmánuði. á starfsvettvangi kennara. Það olli að sjálfsögðu vissri truflun í þessu starfi. En nú virðist ljóst að hugmyndir fulltrúa kennaranna miðast við að það nægi ekki, eins og segir í lögunum um embættisgengi kennara og skólastjóra, að réttur til skipunar í starf sé háður þar til greindum skilyrðum, sem séu m. a. próf í uppeldis- og kennslufræðum, heldur yrði skv. hinum nýju hugmyndum ekki heldur heimilt að setja eða ráða menn til kennarastarfa nema þeir fullnægi þessum skilyrðum.

Þetta atriði hef ég rætt í ríkisstj. og afstaða ríkisstj. gagnvart því er sú að ekki sé unnt, eins og sakir standa. að fallast á það vegna þess að þá sé ljóst að svo mjög stefni í kennaraskort víða á landinu að tvísýnt yrði um það hvernig menn gætu fullnægt fræðsluskyldunni. Ég tel fyrir mitt leyti að lögin um fræðsluskyldu gangi fyrir. Við verðum að fullnægja fræðsluskyldunni jafnvel þó að við höfum ekki kennurum með full kennsluréttindi á að skipa alls staðar, en svo hefur ekki verið árum saman eins og mönnum er kunnugt. Þess má geta að tæp 15% grunnskólakennara í landinu hafa ekki full starfsréttindi skv. lögunum eins og þau eru í dag, hvað þá ef þeim væri breytt í þrengra form. Sambærilegar tölur um framhaldsskólastigið hef ég því miður ekki en þetta atriði segir strax sína sögu og er ástæðan fyrir því að ekki er komin niðurstaða í þetta mál.

En ég ítreka það að sjálf er ég reiðubúin og ríkisstj. fyrir sitt leyti til að standa að því að flutt sé frv. um lögverndun starfsheitanna með sama hætti og gert var um bókasafnsfræðingana og þótti í þeirri stétt mikið framfaraspor. Við erum reiðubúin til að standa að því en teljum aftur á móti ekki unnt að þrengja aðgang að kennarastarfi frá því sem nú er við þær aðstæður sem nú ríkja og í þeirri óvissu sem skólahaldi væri þá stefnt í.