14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5222 í B-deild Alþingistíðinda. (4516)

453. mál, lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum kennara

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Vegna síðustu orða hæstv. ráðh. er nauðsynlegt að rifja það upp að 19. febr. lýsti ráðh. því yfir að mjög gott samkomulag væri í nefnd þar sem formaður er, að ég hygg, skrifstofustjóri menntmrn. og frv. væri alveg að koma. Það er kannske ekki von á góðu ef hæstv. ráðh. veit ekki betur hvert stefnir, að hann er ósamþykkur því samkomulagi sem komið er í viðkomandi nefnd milli aðila.

Ég vek einnig athygli á því, herra forseti, og ætla ekki að lengja mál mitt, að hæstv. heilbrrh. kemur hér með frumvörp nánast á færibandi varðandi lögverndun á starfsréttindum og starfsheitum heilbrigðisstétta. Ég ætla að vænta þess að þegar frv. um löggildingu á starfsheiti kennara, sem liggur í menntmn., kemur brátt fyrir hv. Nd. fái það góðar undirtektir og m. a. stuðning hæstv. menntmrh. og hans flokksmanna á þinginu.