14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5224 í B-deild Alþingistíðinda. (4520)

446. mál, fjárhagstuðningur við Kvennaathvarf

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég verð að byrja á því að lýsa verulegum vonbrigðum með þessi svör sem hæstv. fjmrh. gaf hér áðan. Ég spurði hvort hann hefði kynnt sér fjárhagsstöðu og rekstrarhorfur Kvennaathvarfsins í Reykjavík og hann sagðist ekki hafa gert það vegna þess að hann vildi ekki vita hvar þessi stofnun væri til húsa. Það kemur málinu ekkert við. Það kemur málinu nákvæmlega ekkert við hvar stofnunin er til húsa. Rekstur hennar og fjárhagsstaða er allt annað sem auðvitað er hægt að kynna sér án þess að spyrja nokkurn tíma um hvar stofnunin sé til húsa. Af eðlilegum ástæðum vilja þeir sem þarna standa að málum ekki að það sé í hámæli hvar þetta er og það er ósköp skiljanlegt með tilliti til eðlis þeirrar stofnunar sem hér er um að ræða.

En hæstv. fjmrh. sagði líka með svari sínu að hann læsi a. m. k. dagblöðin ekki mjög vandlega. 19. og 20. apríl var fjallað um þessi mál í blöðunum og ég get sagt hæstv. fjmrh. að þar kom fram að í fyrra voru að jafnaði daglega sex konur og sex börn í þessu athvarfi sem áttu ekki í annað hús að venda og höfðu orðið að flýja þangað undan ofbeldi, ýmist líkamlegu eða andlegu. Það var 70% aukning dvalardaga á milli ára og 100 % aukning rekstrargjalda. Og þessir einstaklingar, sem leituðu athvarfs þarna, voru ekki eingöngu úr Reykjavík, þeir voru af öllu stór-Reykjavíkursvæðinu og sjálfsagt í víðasta skilningi þess orðs. Ætli megi ekki segja af öllu Faxaflóasvæðinu.

Í ár er áætlaður reksturskostnaður þessarar stofnunar

3.4 millj. kr., en það hefur aðeins tekist að tryggja vilyrði fyrir 60% þeirrar upphæðar eða um 2 millj. kr. Í viðtali sem birtist í Þjóðviljanum við Ólöfu Briem gjaldkera Samtaka um kvennaathvarf segir hún sem svar við spurningunni hvaða fjárveitingar þær hafi fengið: „Við fórum fram á að ríkið stæði undir 60% af rekstrinum, en 40% skiptust á sveitarfélögin hér í kring eftir íbúafjölda og mér sýnist þetta ekki vera ósanngjörn beiðni.“

Einhverra hluta vegna virðist þetta mál alls ekki hafa komist til hæstv. fjmrh. Nú er ég ekkert að draga úr hans góða hug til þessa málefnis, en þessi fsp. var fram sett til þess að vekja athygli á þessu máli, erfiðri fjárhagsstöðu stofnunar sem hefur sýnt sig að vera nauðsynleg, stofnunar sem þarf að hlúa að. Ofbeldi er til staðar í þessu þjóðfélagi og það er auðvitað skylda okkar að hjálpa þeim sem fyrir barðinu á því verða með hverjum hætti sem það er. Þessi stofnun hefur sýnt sig vera nauðsynleg, gegnt afar mikilvægu hlutverki. Það má ekki gerast að starfsemi hennar leggist niður vegna þess að ekki fáist þau tiltölulega lágu framlög sem farið er fram á úr sameiginlegum sjóðum þegna þessa lands. Ég hvet hæstv. fjmrh. eindregið til að endurskoða afstöðu sína til þessa máls og horfa til þeirra beiðna, sem þaðan kunna að koma, með þeirri velvild sem ég veit að hann á yfir að búa.