14.05.1985
Neðri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5261 í B-deild Alþingistíðinda. (4546)

86. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. gat þess í sínu máli að það gæti orðið erfitt að leiða fram vitnin. Hv. 6. þm. Reykv. heimtar vitnin. (EBS: Ég heimta að þú standir fyrir máli þínu.) Þarna er um nokkuð mikinn skoðanaágreining að ræða. Ég vil vekja athygli hv. 6. þm. Reykv. á því að það er hægt að svipta menn þinghelgi. Hann getur flutt till. um það hér á þinginu, hafi hann áhuga.

Ég ætla mér, með leyfi forseta, að lesa hér upp frá Áfengisvarnaráði örstutta athugasemd. Þetta er úr lið nr. 33 þar sem vitnað er til erlendra athugana:

„Samkvæmt rannsóknum sérfræðinga Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar vörðu framleiðendur öls og annarra áfengra drykkja árið 1981 jafnvirði 60 milljarða ísl. kr. til auglýsinga og áróðurs.“

Það er svo hæfilegt umhugsunarefni fyrir hv. 6. þm. Reykv. hvort hann telur að ekkert af þessu fé hafi verið notað á Íslandi. Það er hæfilegt umhugsunarefni fyrir hv. 6. þm. Reykv. (Gripið fram í.) Hv. 6. þm. Reykv. hefur nægan tíma til að hugleiða þessi mál og ég vænti þess að hann sé maður til að gera það.