15.05.1985
Efri deild: 75. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5290 í B-deild Alþingistíðinda. (4574)

342. mál, verslunaratvinna

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla að lýsa mig andvígan þessari niðurstöðu og þessari brtt. sem hér er fram komin. Ég tel þetta mjög óeðlilega athöfn af löggjafans hálfu og ekki í samræmi við eðli okkar hlutverks. Í fyrsta lagi er verið að fella hér málefni sem varðar þessa starfsemi. þ. e. myndbandaleigur. inn í löggjöf sem er þessum rekstri allsendis óskyld. Eins og fram kom í máli frsm. fjh.- og viðskn. væri alls ekki hægt að fella þessa þjónustu í heild. þ. e. útleigu á öllum þeim mögulegum hlutum og þjónustu sem fyrirfinnast í okkar þjóðlífi, undir þessa löggjöf því að það telst ekki verslun skv. skilgreiningu. Þess vegna tel ég þetta í fyrsta lagi mjög óeðlilegt.

Í öðru lagi fæ ég ekki séð að ákvæðin um heimild til leyfissviptingar gefi mönnum einhver betri tæki til þess að hafa eftirlit með því hvaða efni er til útleigu í myndbandaleigum enda er sú löggjöf sem varðar höfundarétt og barnavernd og önnur slík löggjöf sem fyrir hendi er hér á landi til að verja fólk fyrir slíku efni. Ég hefði talið miklu eðlilegra að menn skoðuðu frekar þá löggjöf með tilliti til þess hvort þar ætti að herða á einhverju til þess að ná yfir slíka hluti.

Leyfissvipting í krafti beitingar ákvæða laga um verslunaratvinnu er ekki nema kákið eitt. Í fyrsta lagi geta menn reynt að rifja það upp fyrir sér hvenær síðasti kaupmaðurinn var sviptur verslunarleyfi hér á landi vegna þess að hann seldi skemmda vöru eða væri að einhverju leyti með lélega þjónustu. Að vísu mun það hafa komið fyrir að menn hafi verið sviptir verslunarleyfi þegar þeir voru gerðir upp vegna gjaldþrots en það hefur þó ekki leitt til annars en þess að einhver annar aðili, leppur eins og kallað er, hefur tekið við rekstrinum. Nákvæmlega það sama mun gerast þegar þessari löggjöf á að beita. Löggjöfinni á ekki að beina gegn mönnunum, einstaklingunum eða fyrirtækjunum sem þarna er verið að reka. Það á að beina því gegn því sem virkilega er um að ræða hér, þ. e. þjónustunni sjálfri, þeim myndböndum sem er verið að leigja út, efni þeirra og innihaldi, ef menn ætla sér virkilega að hafa einhverja stjórn á því.

En ég held að einmitt í því hvernig þetta kemur fyrir löggjafann núna sýni að menn treysta sér ekki til þess í gegnum aðra löggjöf að ná virkilega góðum tökum á þeim hlutum sem þeir vilja ráða þarna. Menn leggja því þetta hérna fram til málamynda til þess að geta sagt að þeir hafi gert eitthvað þó að hverju mannsbarni hljóti að vera ljóst að þetta eitthvað er sama og ekki neitt.