20.05.1985
Efri deild: 77. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5369 í B-deild Alþingistíðinda. (4626)

99. mál, kirkjusóknir

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég gat ekki á mér setið að koma upp í ræðustól og taka undir þessa gagnmerku brtt. hv. þm. Ragnars Arnalds. Eins og hv. þm. er kunnugt er kristnihald ekki annars staðar betra en undir Jökli. Það hefur svo verið í áranna röð. Sandarar og Ólsarar eru með sameiginlegan prest. Í þessum byggðum báðum eru íbúar yfir 600. Við höfum móttekið kristniboðskap og þjónustu hjá okkar presti án þess að það væru nokkrar sérstakar reglur þar um og veit ég ekki annað en að þessi mál hafi öll gengið mjög vel fyrir sig. En nú blasir það við, ef þetta frv. sem hér liggur fyrir verður samþykkt, að sá ágæti prestur, sem hefur látið nægja að messa yfir Söndurum annan sunnudaginn og yfir Ólsurum hinn, getur ekki látið það duga því að nú skal hann prédika yfir Söndurum hvern helgan dag og yfir Ólsurum líka. Það er nokkuð sem hann þarf að gera. Kristnihaldið undir Jökli hefur verið gott hingað til, en ef það á að fara að bæta við allri þessari mælgi prestanna til viðbótar held ég að dæmið hljóti að snúast við vegna þess að ég held að málflutningurinn og ágæti boðunarinnar fari ekki endilega eftir fjölda ræðanna sem fluttar verða.