20.05.1985
Efri deild: 77. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5370 í B-deild Alþingistíðinda. (4627)

99. mál, kirkjusóknir

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Hæstvirtur forseti. Það er náttúrlega mjög alvarlegur hlutur ef kristnihaldi undir Jökli hrakar frá því sem verið hefur ef þetta frv. verður samþykkt óbreytt, en ég er ekki viss um að það sé svo mikil hætta hér á ferðum sem hv. 4. þm. Vesturl. og hv. 3. þm. Norðurl. v. vilja vera að láta.

Það kemur fram í þeirra máli að þeim þykir ekki gætt réttar sóknarmanna, að sóknarmönnum geti verið ofþyngt um messuhald. En nú kemur greinilega fram að þetta ákvæði er sett vegna sóknarmanna til þess að fá þeim aukinn rétt. Þar segir að sóknarmenn eigi rétt á guðsþjónustu, en það segir ekki að prestur skuli halda guðsþjónustu svo sem þarna segir. Þetta er réttur til handa sóknarmönnum: (RA: Hefur einhver beðið um hann?) Þetta er réttur til handa sóknarmönnum. Og er nokkuð athugavert við það að veita sóknarmönnum þennan rétt? Er nokkur hætta á því að þeir ofþyngi sjálfum sér með því að óska eftir fleiri messum en þeir þola með góðu móti? Ég held að það megi ætla að sóknarmenn séu það þroskaðar verur að það sé engin hætta hér á ferðum.

Nú segir í athugasemdum með þessu frv. um 9. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Grein þessi er í samræmi við ályktun kirkjuþings 1978, en vissulega getur orkað tvímælis hvar mörkin verða sett. Mælt er fyrir um að héraðsprófastur endurskoði þjónusturétt í hverri einstakri sókn eigi sjaldnar en á fimm ára fresti að fengnum tillögum sóknarnefnda, og skal þá athuga breytingar á fjölda sóknarmanna.“

Hér lýkur tilvitnun. Og þó. Það er ein setning eftir sem er þess eðlis að það er rétt að fara yfir hana, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir:

„Tekið skal fram að hér er kveðið á um lágmarksrétt sóknarmanna á guðsþjónustum, en sóknarpresti er að sjálfsögðu heimilt að messa oftar en ákvæði þessi segja til um.“

(RA: Þá versnar nú í því.) Þá versnar í því, segir hv. 3. þm. Norðurl. v. En ég ætla að frá hans sjónarmiði í þessu máli vænkist hagur frv. Ef prestum er heimilt að messa oftar en kveðið er á í þessari frvgr., þá verður að gagnálykta frá því að þeim sé líka heimilt að messa sjaldnar.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. vill ekki viðurkenna þessa lögskýringarreglu. Ég viðurkenni það að ég ætla ekki að halda fast við hana. En það kom upp í huga minn að ekki væri óeðlilegt að það mætti gagnálykta. En það þarf ekki að byggja á þessari málsgr. um það að koma í veg fyrir að sóknarmönnum verði ofþyngt um messugerð vegna þess að hér er einungis um að ræða rétt þeirra sem ég treysti til þess að fara svo með að enginn skaði hljótist af.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. spurði: Hver bað um þetta? Í því sem sagt er um 9. gr. frv. og ég hafði yfir hér áðan er tekið fram að þetta er lagt til skv. ályktun kirkjuþings frá 1978. Kirkjuþing er vettvangur til þess að ræða kirkjunnar mál. Og það hvarflar ekki að mér að þeir sem eru valdir til kirkjuþings ræði þetta og geri svo ákveðnar tillögur um þetta nema að gefnu tilefni, þ. e. vegna óska eða skoðana eða álits sem fram hefur komið

hjá sóknarmönnum um þessi efni. Með tilliti til þessa þykir mér ekki ástæða til þess að fella greinina niður. Með henni verður ekki ofþyngt kristninni í landinu. Auk þess er gert ráð fyrir, svo sem kom fram í þeirri tilvitnun sem ég las upp áðan, því sem segir um 9. gr., að endurskoða þetta ákvæði innan ekki langs tíma.