01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

100. mál, þingnefnd vegna rekstrarvanda í sjávarútvegi

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég var ekki hér á þingi þegar upphaf umr. um þessa till. átti sér stað og ætlaði mér ekki að fara að blanda mér í umr., en eftir að hæstv. sjútvrh. hafði látið á sér skiljast að við Alþb.menn, þ.e. flm. þessarar till., hefðum ekki sýnt það á síðasta þingi að við hefðum mikinn áhuga fyrir sjávarútvegsmálum með þeirri afstöðu sem við hefðum haft til þeirra mála sem hann hefði flutt hér á hv. þingi fannst mér ekki ástæða til annars en að mótmæla slíkum málflutningi. Við vorum ekki sammála hæstv. sjútvrh. um þá leið sem hann lagði til að farin yrði í stjórnun fiskveiða og við vorum ekki sammála hæstv. sjútvrh. í því hvernig hann breytti fiskmati ríkisins, en ég mótmæli því að það hafi verið vegna þess að við hefðum ekki áhuga á sjávarútvegsmálum eða vildum ekki veg sjávarútvegsins sem mestan. Það er okkar skoðun og var mín skoðun þá varðandi bæði þau stóru mál sem sjútvrh. flutti frv. um á síðasta þingi að ekki hefði verið haldið rétt á máli. Mín skoðun var sú og skoðun flestra þm. Alþb. að breytingin á fiskmati ríkisins eða Framleiðslueftirliti sjávarafurða hafi verið röng stefna og það er að koma í ljós núna að þar hefur ýmislegt ekki farið á þann veg sem sagt var og talið var að mundi eiga sér stað eftir bær breytingar sem þar voru gerðar. Það væri t.d. gaman að fá upplýsingar um hve mikið kostnaður við rekstur þess fyrirtækis hefði minnkað á yfirstandandi ári. Reyndar hafa þær sögur heyrst að rekstur þess fyrirtækis hafi orðið ansi miklu kostnaðarsamari en áður var. Þó var eitt af höfuðatriðum breytinganna að spara í rekstri þess fyrirtækis.

Sama er að segja í sambandi við stjórnun fiskveiða. Við vorum ekki sammála ráðh. um hvernig þar skyldi fara að. Við höfðum aðrar tillögur þar uppi þó að við umr. væri ekki beint hægt að koma þar með brtt. Það hefur einnig sýnt sig að á þeirri leið sem sjútvrh. valdi og samþykkt var hér á hv. Alþingi voru stórir gallar og einmitt hafa þeir gallar sem við bentum á komið berlega í ljós.

Ég vil hafa alveg sömu orð og hæstv. sjútvrh. hafði í ræðustól áðan að svona umræða passar ekki í áróðrinum. Það passar ekki að hæstv. sjútvrh. dæmi heilan þingflokk sem andstæðing einnar atvinnugreinar vegna þess að hann fallist ekki á hans skoðanir í ákveðnu máli. Það er mitt mat að slík umræða passi ekki áróðrinum.

Hæstv. sjútvrh. lét þá skoðun í ljós að óþarfi væri og ónauðsynlegt að kjósa nefnd til að athuga rekstrarvandann í íslenskum sjávarútvegi. Sjútvrn. ætti að leysa þessi mál, þ.e. framkvæmdavaldið væri í höndum þess, og ekki væri ástæða til að fela sjö manna nefnd þessa vinnu. Ég geri ráð fyrir því að þeir aðilar vítt um landið sem nú standa frammi fyrir vanda sjávarútvegsins, hvort sem það eru sveitarstjórnir, útvegsmenn eða sjómenn, líti svo á að það þurfi eitthvað annað en það sem gert hefur verið í sjútvrn. á undanförnum mánuðum til þess að leysa þann vanda eða finna þær leiðir sem fara á til að leysa vanda sjávarútvegsins.

Staða sjávarútvegsins í dag, ef hún er aðeins tekin í einföldu dæmi, er á þann máta að vonlaust er að reka nýtt fiskiskip við þær aðstæður sem sjávarútveginum eru búnar. Hvaða atvinnugrein önnur mundi þola þá stöðu? Sýnist hv. þm. að verslunin mundi þola þá stöðu? Er ekki annað þar uppi á teningnum? Er ekki verið að byggja hverja verslunarhöllina á fætur annarri til að þjóna þeim þætti í okkar þjóðfélagi? Er ekki verið að byggja hverja bensínhöllina á fætur annarri? Það er ekki hægt að komast nema nokkra kílómetra jafnvel um vegi landsins öðruvísi en að sjá nýjar bensínhallir. Þannig mætti nærri því telja upp hverja einustu þjónustugrein, þó við nefnum ekki bankana.

En íslenskur útvegur þarf helst að notast við 10–15 ára gömul skip til þess að einhver rekstrargrundvöllur sé finnanlegur. Þessi staða í íslenskum sjávarútvegi bendir til þess eins að þeir sem hafa farið og stjórnað sjávarútvegsmálum á undanförnum mánuðum og undanförnum árum hafi ekki staðið í stykkinu. Og hvað er þá eðlilegra og sjálfsagðara en Alþingi sjálft grípi í taumana og skipi nefnd til þess að kanna stöðu sjávarútvegsins og benda á leiðir út úr þessum ógöngum? Rekstur íslensks sjávarútvegs er ekki kominn á réttan og eðlilegan grundvöll fyrr en svo verður komið að hægt sé að reka nýtt fiskiskip, með það fyrir augum að það geti borið sig. Þegar talað er um að leysa þurfi sérstaklega vanda ákveðins hluta togaraflotans vegna þess að hann sé nýrri en aðalhluti flotans bendir það eingöngu til þess að rekstursgrundvöllur sjávarútvegsins sé skakkur og þurfi leiðréttingar við.

Ég vildi nefna annan þátt í sambandi við umr. í dag. Það er nýbúið að gera kjarasamninga og er verið að ræða um að þessir kjarasamningar verði verðbólguvaldur. Það blasir við að fella þurfi gengi — ja, maður heyrir ýmsar tölur, 8%, sumir nefna ekki nema 5%, — til þess að mæta þeirri kauphækkun sem nú hefur orðið og þeim kostnaðarauka sem fellur á framleiðsluatvinnugreinarnar. En hvernig skyldi staðan hafa verið áður en farið var í þessa kjarasamninga og áður en þessir kjarasamningar voru gerðir? Ætli það hafi ekki vitað það flestir sem fengust við sjávarútveg, og ég er ekki í nokkrum vafa um að það hefur verið í hugskoti hæstv. sjútvrh., að staðan hafi verið þannig í lok september, u.þ.b. sem BSRB var að fara í verkfall, að til þess að leysa vandamál sjávarútvegsins þyrfti einhverja ákveðna tilfærslu í þjóðfélaginu, þyrfti jafnvel 5 eða 8% gengisfellingu. En það hefur ekki verið nefnt. Því hefur frekar verið haldið fram að staða sjávarútvegsins væri nokkuð sæmileg. Staðreyndin er hins vegar sú, að jafnvel þau fyrirtæki sem hafa staðið sig vel og átt nokkuð eigið fjármagn, verði að mati margra mjög vel rekstrarhæf, standa nú frammi fyrir miklum vanda. Það má segja að í stórum hóp sjávarútvegsfyrirtækja hefur farið logi um eigið fjármagn þeirra á síðustu mánuðum. Það hefur lítið og ekkert verið gert til þess að laga stöðu þeirra. Skuldbreytingin, sem lofað var strax á síðustu mánuðum fyrra árs, er að sumu leyti að koma til framkvæmda núna og öðru leyti ekki. Mikill hluti skuldbreytinganna er á þann veg að menn treysta sér ekki til að framkvæma þær. Því er þann veg farið að skuldbreytingin nær til 40% skuldarinnar, en ýmsum þjónustuaðilum ber að lána hinn hlutann. Það þýðir raunverulega að verið er að kippa fótunum undan þjónustufyrirtækjum sem starfa við sjávarútveginn. Í mörgum tilfellum gengur þetta því alls ekki upp. Ýmsa aðra þætti mætti nefna í sambandi við skuldbreytinguna sem eru á þann veg að kemur að litlu gagni fyrir sjávarútvegsfyrirtækin.

Þegar rætt er um fjárfestingu og endurnýjun á fiskiskipastólnum vilja menn oft byrja á því að tala um að fjárfestingin hjá sjávarútvegnum sé næg og það séu of mörg fiskiskip að veiðum á ofnýttum fiskistofnum. Þegar aftur á móti kemur að því, sem við blasir núna í nokkrum byggðarlögum, að sum fiskiskipin eru að fara undir hamarinn og það geti jafnvel komið upp sú staða að þau verði flutt milli byggðarlaga, þá kemur sú staðreynd í ljós að ekkert byggðarlag þolir að eitt eða neitt af þeirra framleiðslutækjum, síst af öllu skipin, hverfi úr byggðarlögunum. Þá kemur einnig í Ijós að flest þessi skip eru fullnýtt og hafa verið það á undanförnum mánuðum. Hér á ég við togarana. En á meðan talað er um að fjárfestingin sé of mikil í fiskiskipaflotanum og þar megi helst ekki bæta við einu einasta skipi eða endurnýja það neitt, heldur sé best að gera út 10–15 ára gömul skip, er það að gerast að íslenski kaupskipaflotinn er að endurnýja sig dag frá degi. Það er varla flett upp í dagblaði eða opnað útvarp öðruvísi en að þess sé getið að Eimskip sé nú að kaupa nýtt skip, Hafskip sé að kaupa nýtt skip og skipadeild Sambandsins o.s.frv. Fyrir stuttu — núna í miðju verkfallinu — heyrðum við að Eimskip væri að kaupa tvo nýja Fossa, en því miður hefði einhvern ákveðinn tíma þurft að hafa á þessum skipum þýskar áhafnir. Hraðinn og ákefðin eru það mikil í þessum fyrirtækjum að þau hafa ekki tíma eða möguleika til að ráða á skipin íslenskar áhafnir, kaupin verða að ganga það hratt fyrir sig að þýskir sjómenn þurfa að sinna þessari þjónustuþörf fyrir Íslendinga.

Hvað skyldu þessir aðilar segja ef þeim væri skipað að vera með 10–15 ára gömul skip í þjónustunni? Það væri ekkert gámaskip á markaðnum hér á Íslandi. Hvernig skyldi staðan vera? Ég er ansi hræddur um að þessi þáttur sjávarútvegsrekstrar á Íslandi væri svolítið skrýtinn ef sömu aðferðum væri beitt gagnvart þeim og gagnvart fiskiskipaflotanum.

En hvernig er svo þessum rekstri þessa hluta sjávarútvegsins íslenska háttað? Það er ekki eins og með fiskiskipaflotann sem við sem betur fer sjáum æðioft koma fulllestaðan til hafnar. Við horfðum á það núna rétt fyrir hádegið að hér voru að sigla inn loðnuskip og við vitum um það að hringinn í kringum landið er það nú að eiga sér stað að loðnuskip koma drekkhlaðin af miðunum. Síldarskipin eru að koma drekkhlaðin af miðunum og togararnir líka. Víða er sömu sögu að segja. En hvernig skyldi vera með hinn flotann? Skyldi hann nú vera hlaðinn? Ef við löbbum inn í Sundahöfn og spyrjum verkamennina þar: Hvað voruð þið lengi að afgreiða þennan Fossinn sem var að koma frá Evrópuhöfnum? eru mestar líkur fyrir því að þeir mundu segja: Ja, það tók okkur nú tvo tíma. — Hvað voruð þið lengi að lesta hann svo að hann mætti sigla út aftur? — Ja, það þurfi bara að loka lúgunum og hann sigldi beint út.

Þannig er nýtingin í þeirri grein íslensks sjávarútvegs. Ég er ekki að segja að þetta sé gegnumgangandi, en þessa eru dæmi og þau eru allt of mörg þessi dæmi, að fragtskipin íslensku, Hafskip, Eimskip og SÍS-skipin, sigli hlið við hlið galtóm á milli Evrópu og Íslandsstranda. Og hver er útkoman út úr þessu? Útkoman er sú að við borgum helmingi hærri fragtgjöld á Íslandi en nokkurs staðar annars staðar í veröldinni. Og hverjir borga þessi fragtgjöld? Vitaskuld enginn annar en útgerðin íslenska eins og alla aðra þjónustuþætti í þjóðfélaginu. Það er sjávarútvegurinn sem heldur því uppi. Og við þessar aðstæður segir hæstv. sjútvrh.: Það er ástæðulaust að kjósa nefnd til að rannsaka rekstrarvanda sjávarútvegsins. Þetta er allt verið að laga og þetta er allt verið að skoða í mínu ágæta rn. og það verður unnið áfram eins og unnið hefur verið á undanförnum mánuðum að því að laga þessi mál. En við vitum það, flm. þessarar till. vita það og fólkið í landinu veit það, að sú vinna sem unnin hefur verið í rn. á undanförnum mánuðum hefur ekki verið á þann máta að vandamál sjávarútvegsins hafi verið leyst. Vandamálin eru hrikalegri núna en nokkru sinni fyrr, þrátt fyrir þá skuldbreytingu sem ráðh. var að lýsa hér áðan og þrátt fyrir ýmsar aðgerðir sem í bígerð eru eins og hæstv. ráðh. lýsti hér.

Ég tel því sjálfsagt að Alþingi samþykki þessa till. og að þessi nefnd hefji sem fyrst störf og leggi fyrir þing tillögur sínar um leiðir til að bæta rekstrargrundvöll sjávarútvegsins. Ég vænti þess að eftir þeim tillögum verði farið og sem jafnan fyrr þegar farið er að tillögum Alþb. í sjávarútvegsmálum verði horfið á rétta leið. Það mun sjaldan eða aldrei hafa verið stjórnað betur sjávarútvegsmálum á Íslandi en þegar forveri hæstv. sjútvrh. í þingmennsku á Austfjörðum, Lúðvík Jósepsson, stjórnaði þeim málum, og ég mótmæli öllum ummælum hæstv. sjútvrh. um að við Alþb.-menn höfum í einu eða neinu staðið gegn eða verið á móti réttlátri stefnu í sjávarútvegsmálum á Íslandi.