20.05.1985
Efri deild: 77. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5373 í B-deild Alþingistíðinda. (4632)

99. mál, kirkjusóknir

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Það virðist vera málgleði í kringum frv. sem hér liggur fyrir og kannske ekki að ástæðulausu. Ég vildi í fáum orðum lýsa þeirri skoðun minni að ég er sammála mönnum sem tala um að hin ýmsu innri mál kirkjunnar ættu að vera meira í reglugerðarformi sömdu af kirkjunnar mönnum sjálfum, þeir ættu sjálfir að fá að ráða þessu. En þeir óska hreinlega eftir því að hv. Alþingi taki af skarið og mér er nokkuð kunnugt um að þeir sækja það mál fast að fá héðan vissar starfsreglur. Þeir eru að biðja alþm. að setja sér starfsreglur og ég held að það sé erfitt fyrir okkur að skorast undan því. Það segir í aths. við frv., með leyfi forseta:

„Frumvarp kirkjulaganefndar var að tilhlutan kirkjuráðs lagt fyrir kirkjuþing í nóvember 1982 til umfjöllunar.

Kirkjuþing gerði smávægilegar breytingar á frv. og hafa þær verið felldar inn í frv. eins og það liggur nú fyrir.“

Það eru kirkjunnar menn sjálfir, starfandi prestar og aðrir sem mest koma nálægt þessum málum, sem óska eindregið eftir þessu við hv. Alþingi. Þess vegna vil ég ekki láta undir höfuð leggjast að veita þeim þetta. Þeir verða svo sjálfir að framkvæma þetta á þann veg sem þeim finnst best að því búnu. Þess vegna get ég ekki stutt það að fella út 9. gr. eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. gerir till. um.