20.05.1985
Efri deild: 77. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5376 í B-deild Alþingistíðinda. (4638)

498. mál, stjórn efnahagsmála

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég hygg að það fari ekki á milli mála að sú meginhugsun, sem að baki þessu frv. býr, er rétt og ef hún verður að virkileika hafa menn fyrir sjónum strax á haustdögum gleggri yfirsýn um heildarstöðuna í öllum fjármálum þjóðarinnar. Að því leyti til er óhætt að taka undir þá meginhugsun sem að baki þessu býr og hæstv. ráðh. gerði grein fyrir áðan.

Ég kom hér aðeins í ræðustól til þess að lýsa yfir stuðningi við þessa meginhugsun en segja um leið að býsna mikil kaldhæðni er það nú að hæstv. fjmrh. skuli þurfa að mæla fyrir þessu á Alþingi núna 20. maí þar sem eitt meginatriðið snýr að lánsfjárlögum og staðfestingu lánsfjáráætlunar. Enn þá hafa nefnilega ekki lánsfjárlögin í endanlegri mynd sinni séð dagsins ljós.

Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðh. að því hvort einhver von sé til þess að menn fari að sjá lánsfjárlögin aftur í þessari hv. deild. Þau hljóta að hafa tafist svo lengi í hv. Nd. vegna ósamkomulags milli stjórnarflokkanna um einhver atriði sem fóru héðan frá deildinni samþykkt. Þau eru því ekki enn þá komin til 2. umr. og atkvæða. Ég spyr að því hvort þess sé að vænta að þessi mánuður líði án þess að þessi lánsfjárlög og þar með staðfesting lánsfjáráætlunar verði að virkileika. Um leið tel ég að vissulega beri að fagna því sem í þessu frv. segir um það að við fáum strax á haustdögum glögga og greinargóða yfirsýn yfir það hvernig fjármál þjóðarinnar standa hverju sinni.