20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5430 í B-deild Alþingistíðinda. (4686)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Í þeirri umr. sem hér fer fram um vísitölubindingu launa og það gamla kerfi sem var hér í gildi er ekki óeðlilegt að menn staldri við og leiði hugann að öðru vísitölukerfi sem er í gildi. Nú er það svo að ein setning í aths. við frv. þetta segir kannske allt um það markmið sem menn hafa sett sér og vilja standa við. Með leyfi forseta er þessi setning þannig: „Þegar öllu er á botninn hvolft er það mikilvægasta verkefnið nú að skapa jafnvægi í efnahagslífinu til lengri tíma sem er skilyrði hagvaxtar og um leið betri lífskjara og aukins kaupmáttar.“

Þetta er út af fyrir sig gott og blessað. En hvernig er þá staðan? Jú, menn tóku ákvörðun um það, til þess að ná niður verðbólgu í landinu, að afnema verðtryggingu launa. Hins vegar er vísitölukerfið á fullri ferð í bankakerfinu í dag.

Fyrir nokkrum árum var ástandið þannig að menn snuðuðu sparifjáreigendur um gífurlegar fjárhæðir og færðu þannig til fjármuni á óréttlátan hátt í þessu þjóðfélagi. Í dag berast okkur þær fréttir úr ríkisfjölmiðlum að verð á fasteignum hafi lækkað um 6% frá áramótum hér í Reykjavík. Það eru engar fréttir af því hvað verð á fasteignum úti á landi hafi lækkað. E. t. v. telja menn það ekki þess virði að athuga það. Ég er ekki trúaður á að staðan sé betri þar. Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur að fasteignir í landinu hafa lækkað á sama tíma og hin útreiknaða lánskjaravísitala hefur verið að þjóta upp. Nú er það ekkert sjálfgefið við hvað eigi að miða verðgildi peninga, en einhvern tíma hefðu það þótt tíðindi ef það væri ekki talið nokkuð raunhæft að leggja það sem grunn að miða verðgildi peninga við verðmæti eigna í landinu, að þar héldist svipað hlutfall. En hvað er það þá sem raunverulega er að gerast þegar okkur er tjáð að fasteignir hafi lækkað í verði um 6% og vextir eru upp undir 30% í landinu með verðbótum og öllu sem því fylgir? Það er verið að segja beint og milliliðalaust að raunvextir á fjármagni á þessu tímabili hafi verið um 30% ef við miðum við verðmæti eigna í landinu. Nú spyrja menn e. t. v.: Eru það einhverjar aðrar eignir sem hafa hækkað í verði og er eitthvað sérstakt ástand í Reykjavík sem kemur í veg fyrir að íbúðarhúsnæði hækki í verði? Eru það skipin sem hafa hækkað svo í verði að það sé réttlætanlegt á þeirri forsendu? Eru það flugvélarnar? Hvað er það yfir höfuð sem hefur hækkað í þessu landi í samræmi við lánskjaravísitöluna miðað við verðmæti í landinu, við eignir í landinu? Ekkert, ekki nokkur skapaður hlutur.

Þeir sem hafa rætt um þetta frv. hafa vissulega rætt efnahagsmál í heild, en ég sakna þess að þeir hafa ekki reynt að meta hvort lánskjaravísitalan eins og hún er í dag sé ekki að verða einn aðalverðbólguvaldurinn í landinu. Fær það staðist að þessi þjóð með þær erlendu skuldir sem hún hefur sé svo öflug að hún geti tryggt betur innistæður sparifjáreigenda en nokkur önnur þjóð í veröldinni? Fær það staðist? Ég hygg að menn segi sem svo: Ef þessu er breytt taka menn sparifé sitt út úr bönkunum. — Gott og vel. Við getum varpað því fram að þetta sé svo einfalt, en það hlýtur að vera stórkostlegur munur á því að standa að glórulausri eignaupptöku sparifjár, eins og gert var, og hinu að tryggja sparifé þannig að verðgildi þess aukist hátt yfir það sem fasteignamarkaðurinn segir að eignir á aðalþéttbýlissvæði landsins aukist í verðgildi.

Það liggur nefnilega beint við að gera sér grein fyrir því að stór hópur manna, sem hefur lent í erfiðleikum í húsnæðismálum, situr frammi fyrir þeirri staðreynd að þó að þeir hafi við kaup á íbúð átt kannske 1/5 af kaupverðinu geta þeir á örstuttum tíma, einu og hálfu ári, tapað þeirri upphæð allri ef þetta misgengi heldur áfram. Mig undrar það í þeirri umr. sem hér fer fram um efnahagsmál hversu ánægðir menn hafa löngum verið með það hvernig staðið er að þessum málum. Mér er ekki kunnugt um að nema einn hagfræðingur hafi skrifað gegn þeirri vaxtastefnu sem hér er rekin og hann hefur skrifað á skipulegan hátt. Svo höfum við séð langar greinar, langlokur, þar sem menn hafa farið eins og köttur í kringum heitan graut og ekki viljað ræða þetta. Ég tel að það sé alveg tómt mál að tala um það að hér skapist jafnvægi í efnahagslífi nema þessi þáttur sé tekinn fyrir.

Það má vel vera að það reiknimeistaralið sem hefur setið að útreikningum lánskjaravísitölu telji að raunvextir í landinu séu á milli 5 og 10%, en ef við setjum aðra mælikvarða, sem við blasa úr efnahagslífi þjóðarinnar, á raunvextina eins og þeir hafa verið frá áramótum, þá eru þeir samkvæmt því, ef miðað er við fasteignamatið, söluverð íbúða, um 30%.

Ég tel að stjórnvöld hljóti annaðhvort að verða að gera það upp við sig hvort þau á nýjan leik ætla sér að koma upp allsherjar tryggingakerfi gagnvart verðbólgunni, þar sem hinir ýmsu hópar reyna að koma því þannig fyrir að þeir séu sem best tryggðir gagnvart henni, eða að menn snúa sér að því verkefni að ná jafnvægi. Þetta atriði, með vextina, er nauðsynlegt að taka inn í þessa umræðu vegna þess að ungir sjálfstæðismenn hafa hamrað á því miskunnarlaust að það dugi nánast ekkert í þessu landi nema að stefnan við Wall Street taki við. Stuttbuxnaliðið þar verður að standa fyrir máli sínu varðandi þessa hluti.

Herra forseti. Ég hef hugsað mér, með leyfi forseta, að lesa áfram það sem stendur í aths. með frv. þessu: „Samfara niðurfellingu kaflans um verðbætur á laun í lögum nr. 13/1979 er nauðsynlegt að kveðið sé skýrt á um að ákvæði um verðbótagreiðslur falli úr öllum samningum.“

Er verið að boða það með þessu að þær verði þá líka felldar úr lánasamningum eða eru það allir aðrir samningar sem eiga að vera án verðbótanna?

Ég hygg að það sé orðið tímabært að Alþingi Íslendinga geri sér grein fyrir því að annað tveggja verður að vera í gildi, eigi að vera samræmi í landinu, vísitölukerfi á öllum sviðum eða þá að menn þori að reka hér hagkerfi sem ekki byggist á sjálfvirku vísitölukerfi. Og því miður er ég ekki of bjartsýnn. Það hefur verið lögð áhersla á að sumir hlutir skuli tryggðir langt umfram það sem raunhæft er að mæla með, en aðrir hlutir skuli vera ótryggðir. Mér virðist sem þessir draumórar, eins og ég kalla það, hafi ráðið of mikið ferðinni í íslenskum bankamálum.

Ég vænti þess að 1. þm. Vestf., sem er úr því galvaska liði sem hefur 100% meiningar í vaxtamálum og verðtryggingarmálum, komi hér í ræðustól og geri grein fyrir því hvort hann telur að það sé eðlilegt að fjármagnið sé verðtryggt langt umfram fasteignir í landinu. Allt til þessa hafa fasteignir í landinu hvergi verið betur tryggðar en á stór-Reykjavíkursvæðinu. Því vona ég að þm. geri sér grein fyrir. Þess vegna er ekki verið að spyrja um hvernig þær séu tryggðar vestur á fjörðum þegar þessi samanburður er gerður. Það er verið að spyrja um hvernig þær séu tryggðar hér þegar vextir eru um 30%. Auðvitað er þetta misræmi af þeirri stærðargráðu að það er ekkert vit í því, ekkert réttlæti í því og það eru engar hagfræðilegar forsendur fyrir því.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni.