21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5458 í B-deild Alþingistíðinda. (4706)

450. mál, lán opinberra lánasjóða

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 765 borið fram svohljóðandi fsp. til viðskrh.:

Telur ráðherra ástæðu til að fram fari opinber rannsókn á útlánum opinberra lánasjóða og ríkisbanka til að ganga úr skugga um að allar lánveitingar séu með fullnægjandi tryggingum?

Það er nú vafalaust þannig að í lögum um flesta opinbera lánveitingasjóði, a. m. k. þá sjóði sem ekki eru beinlínis áhættusjóðir, áhættulánasjóðir, og þeir eru nú fáir, þá eru ákvæði um tryggingar veðlána, sbr. Fiskveiðasjóð sem ég er reyndar með sérstaka fsp. um. Það er mikilvægt að huga vel að tryggingum þessara lána vegna þess að þarna er um skattfé að ræða, hagsmuni skattborgara. Þetta eru opinberir sjóðir og á tímum verðbólgu og breytinga á verðlagi eigna hlýtur að vera mjög brýnt að fylgst sé vel með hag þeirra. Nú er ég ekki með nein ákveðin sérstök dæmi um þessi mál, en mig langar til að heyra skoðun viðskrh. á því hvort hann telji að nægilega sé fylgst með þessum málum, að menn fylgist með því að skuldir vaxi ekki umfram verðgildi veða og hvort hann telji ástæðu til að fara ofan í saumana á því.