21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5491 í B-deild Alþingistíðinda. (4735)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég talaði hér við fyrri umr. þessa máls og skal ekki endurtaka um of það sem þá var sagt. Hér vék hv. þm. Geir Gunnarsson að meginatriði þessa máls, hinu mikla og vaxandi fráviki frá markmiðum langtímaáætlunar. Það setur mestan svip á þá vegáætlun sem við erum nú að afgreiða sem raunar er ekki marktæk að mínu viti nema varðandi þetta eina ár, árið í ár, enda viðurkennt af þeim stjórnarliðum í fjvn. með því að svo miklu er óráðstafað næstu árin tvö að þar er greinilega borð fyrir báru til að slá af og víkja frá þegar að efndum er komið.

Þetta er að sjálfsögðu meginmálið sem þegar hafa verið gerð þau skil að ekki þarf um að bæta. Skipting vegafjár hefur ekki verið þjáningarlaus fyrir þm. í einstökum kjördæmum og hér var á það minnt áðan að hún hefði jafnvel verið það þjáningarfull að dæmi væru um það að menn hefðu gengið frá borði og það jafnvel úr skiprúmi ríkisstj. en ekki stjórnarandstöðu. Hv. 11. landsk. þm., sem nú er genginn í salinn, var krafinn sagna af hv. þm. Karvel Pálmasyni um það hvort hann hefði úr skiprúmi gengið hjá ríkisstj. í þessu tilfelli. Ég færi þá spurningu hér yfir vegna þess að nú er hv. þm. viðstaddur. En ég sé á nál. frá fjvn. þessa yfirlætislausu setningu hér í lokin, með leyfi virðulegs forseta: „Egill Jónsson var fjarstaddur lokaafgreiðslu málsins.“ Ég þykist skilja þessi orð nokkuð rétt. (EgJ: Lesa þau rétt.) Ég les þau rétt, já, og ég þykist skilja þau rétt einnig en ég ætla ekki að.fara nánar út í það. Ég veit að hann er áreiðanlega maður til þess að lesa úr þessum orðum ef þau eiga að skiljast einhvern veginn á annan veg en þann að hann sé ósáttur við niðurstöðuna.

Ástand vega á Austurlandi er líkt og menn hafa fjallað hér um varðandi ástand vega í sínum kjördæmum. Uppbygging er skammt á veg komin og alls staðar er um knýjandi þarfir og úrbætur að ræða og erfiðleikar ærnir í röðun verkefna og enn örðugra um tilfærslu. Langtímaáætlunin, sem raunar hefur ekki verið staðfest, vísar þar veginn í þeirra orða fyllstu merkingu. Frávik frá henni eins og nú gera skiptinguna enn erfiðari. Með hverju árinu sem líður með slíkum frávikum verður æ ógerlegra að fara eftir meginlínum langtímaáætlunar og það er hart við að búa fyrir þá sem búa við vegi eins og á Austurlandi.

Ég hef áður rætt óánægju mína með okkar hlut, hvernig Ó-vegaverkefnin, svo þörf sem þau annars eru, hafa skekkt þessa mynd fyrst til þeirra var ekki aflað sérstaks fjár. Ég hygg að okkar stærsta skyssa, þm. Austurl., hafi verið sú að fá ekki inn okkar ó-vegaverkefni fyrst svona fór. Næg eru þau sérátök sem vinna þyrfti að þar eystra. Við getum þar eflaust sjálfum okkur um kennt að vera ekki jafnaðgangsharðir og aðrir voru í þessum efnum enda kannske enn meira knýjandi nauðsyn á því að vinna að þeim verkefnum sem þar er verið að vinna að og á að vinna að undir þessum sérstaka lið og geri ég ekki lítið úr því.

Kambanesskriðurnar eystra eru t. d. gleggst dæmi um ó-veg. Hringvegarkafli frá Breiðdal til Héraðs er troðningur einn. Okkur vantar með öllu tengingu Vopnafjarðar og Héraðs með skaplegum hætti og það verkefni þarf raunar að skoða síðar og verður fylgt eftir við endurskoðun af fullum þunga. Það hefur þegar verið ítrekað og áminnt og það hefur þegar verið unnið allgott rannsóknarstarf og mun verða fram haldið. Að þessu þurfum við sannarlega að huga og fá fram eðlilegan hlut í sérátökum af svipuðu tagi og Ó- vegaverkefnin eru, sem ekki hefur verið aflað til sérfjár svo sem ætlunin var.

Um vegamál almennt frá kjördæmasjónarmiði er annars ekki ætlunin að tala hér. En fyrst ég er kominn í ræðustól minni ég á þær framtíðarhugmyndir sem reifaðar hafa verið þar eystra um jarðgangagerð, sem ég minnti raunar á hér í vetur. Hugmyndirnar um jarðgöng milli Norðfjarðar og Seyðisfjarðar þóttu broslegar í fyrstu en tæknin og nánari athugun þessa máls veldur því að nú horfa menn æ meira til þessarar lausnar þó til lengri tíma sé að sjálfsögðu litið.

Ég get heldur ekki stillt mig um að minna á hugmyndir þeirra Fáskrúðsfirðinga um jarðgöng til míns heimastaðar, Reyðarfjarðar, og vísa til skemmtilegrar og rösklega skrifaðrar greinar sveitarstjórans á Fáskrúðsfirði í Morgunblaðinu fyrir viku eða svo sem bar yfirskriftina: „Hlauptu heim og sæktu stóra nafar föður þíns“. Þannig er víða hugað að nýjum möguleikum til betri samgangna enda von til þar sem þær eru svo ríkur þáttur í öllu lífi fólks hvarvetna og skipta sums staðar sköpum um byggð og búsetu. Við eigum að sjálfsögðu í hvívetna að huga vel að nýjum möguleikum í kjölfar betri tækni og nýrra aðferða. Það sem sýnist skýjaborgir í dag getur hæglega orðið að virkileika morgundagsins.

Ég hef þegar rætt hér á Alþingi útboðsstefnuna sem ég vara enn við að sé svo alfarið upp tekin sem mér sýnast öll teikn vera á lofti um. Þar á að fara með fullri gát og huga að byggðarsjónarmiðum og atvinnuöryggi þess stóra hóps sem hér á hagsmuna að gæta. Um það orðlengi ég ekki frekar en ítreka aðvaranir um að fylgt sé blindri einstefnu í þessum efnum. Að öðru leyti vísa ég til þess sem ég sagði um vegamálin almennt við fyrri umr. svo og til glöggrar ræðu hv. þm. Geirs Gunnarssonar hér áðan um það sem máti skiptir, um langtímaáætlunina og hvernig við hana er staðið. Umræðuefnin eru næg í tengslum við þetta, það væri að æra óstöðugan að fara frekar út í þau nú. Hins vegar get ég ekki leynt því að ég bíð spenntur eftir efndunum á glæsitölum áranna 1986 og 1987. Sú viðbót, sem þar fæst, verður víða kærkomin en því skal ekki spáð nú hvernig þar fer þegar þar að kemur.