21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5495 í B-deild Alþingistíðinda. (4737)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki segja til hvers 11. landsk. þm. er vís, en ég held ég þekki hann þó það vel að hann geti svarað fyrir sig hér, sérstaklega vegna þess að hann þarf ekkert fyrir að svara, nákvæmlega ekki neitt. Og mér er nú nokkuð til efs hvernig þeir hafa farið fram úr rúmum sínum í morgun leikbræðurnir tveir, sá virðulegi sem situr hér í forsetastóli og hv. 2. þm. Vestf. Karvel Pálmason hvítklæddur með rauðan klút í vasa. Spurningin til mín var sú hvort ég hefði gengið úr skipsrúmi hjá núv. ríkisstj. eða hótað því í sambandi við vegáætlun. Þá er því til að svara að ég þekki engan þm. sem er jafndyggur stuðningsmaður núv. ríkisstj. og 11. landsk. þm. er, enda er núv. ríkisstj. að koma fram mjög mikilvægum málum, sérstaklega fyrir landbúnaðinn og sveitirnar sem ég vil álíta að standi mér æði nærri. Sú spurning, sem til mín er beint um það hvort ég hafi verið með einhverjar hótanir gagnvart núv. ríkisstj. um að ganga úr skipsrúmi, á sér sjálfsagt rætur í slæmum draumförum þessara tveggja hv. þm. og í draumi hefur því verið hvíslað í eyru þeirra, það hef ég ekki gert.

Annars fagna ég því að hafa komið hingað í þennan virðulega stól og þá alveg sérstaklega vegna þess að ég mátti hlýða hér á tvær ræður þm. úr Austurlandskjördæmi og báðir höfðu orð um það að hlutur Austurlands væri bágur, báðir höfðu mikil orð um það að hann þyrfti að bæta. Ja, bragð er að þá barnið finnur, verð ég nú að segja. Það er gott að menn skuli reka sig á þetta núna, en það er ekki nýtilkomið að hlutur Austurlands sé svona bágur. Hann var svona gerður við síðustu vegáætlun og síðan hefur hann verið enn meira úr lagi færður eins og við allir vitum. Það hefur verið tekið af Austurlandi hið svokallaða hafísvegafé, einmitt á þeim tíma sem það átti að færast í ríkara mæli úr Norðurlandi eystra yfir til Austurlands, og það hafa verið felldar niður sérstakar fjárveitingar vegna jaðarbyggða sem einnig kom afar þungt niður á Austurlandi. Þetta hélt ég að væri ekki alveg ný uppgötvun og þetta hefðu þm. Austurlands vitað fyrr en á þessum drottins degi. En batnandi mönnum er best að lifa og þess vegna fagna ég því að þessir tveir hv. þm. skuli hafa gefið þessar yfirlýsingar á Alþingi.