22.05.1985
Neðri deild: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5575 í B-deild Alþingistíðinda. (4822)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Einar Kr. Guðfinnsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mál sem snertir ákaflega mikilvægan þátt í okkar efnahagslífi sem er sjálft verðmyndunarkerfi sjávarútvegsins, verðmyndun á fiski upp úr sjó, sem ræður í fyrsta lagi mjög miklu um afkomu sjómanna, afkomu útgerðar og afkomu fiskverkunarinnar í landinu. Þess vegna er hér um að ræða ákaflega stórt mál í sniðum. Ef hins vegar þetta frv. er borið saman við þau gildandi lög sem eru í landinu um Verðlagsráð sjávarútvegsins kemur í ljós að það hafa verið gerðar, eins og kom fram reyndar í máli hv. 4. þm. Suðurl., ákaflega litlar breytingar á þessum lögum. Hér eru ekki lagðar til mjög veigamiklar breytingar aðrar en þær að í fyrsta lagi var að því stefnt að fækka nokkuð fulltrúum í Verðlagsráði til einföldunar og að því er segir, að mig minnir, í athugasemdum þessa frv. enn fremur til þess að reyna að gera kerfið skilvirkara og betur hæft til að taka sínar ákvarðanir. Í öðru lagi kemur fram breyting, sem ég tel þó nokkuð veigamikla, í 6. gr. þessa frv. en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðlagsráði er heimilt að gefa verðlagningu á tilteknum fisktegundum frjálsa ef sérstaklega stendur á að mati ráðsins, enda sé um það einróma samkomulag í ráðinu.“

Hér er að mínum dómi langveigamesta breytingin á ferðinni, breyting sem felur í sér örlítið skref í þá áttina að færa verðlagsmyndunina á hráefninu úr höndum Verðlagsráðs og í hendur þeirra aðila sem í raun og veru eru um málið að fjalla, þ. e. fiskkaupenda og fiskseljenda eins og þeir birtast á hverjum stað á hverjum tíma. Þetta er veigamesta grundvallarbreytingin í þessum lögum. Ókosturinn við þessa grein er sú að mínum dómi að hún gengur ákaflega skammt. Það eru ákaflega litlar líkur á því að hún geti nokkurn tíma virkað á þann hátt sem að er stefnt því að ég hygg að það verði ekki í mörgum tilvikum þar sem samkomulag verði algert meðal allra aðila um það að gefa verðlagið alveg frjálst. Þarna hefði gjarnan mátt stíga skrefið örlítið stærra og gera ráð fyrir því í þessu frv. að einfaldur meiri hluti í Verðlagsráðinu dygði til þess að gefa verðlagninguna frjálsa. Ég held að það mundi ekkert hættulegt gerast. Nefndinni sem undirbjó þetta plagg hefði vel verið óhætt að stíga þetta skref nokkru stærra.

Á það hefur verið bent að ýmsir annmarkar séu á því að gefa algerlega frjálsa verðlagningu á fiski upp úr sjó. Í fyrsta lagi hefur verið bent á það að það er mikil fjarlægð á milli staða og enn fremur, og það er enn þá þyngra á metunum — tengsl milli veiða og vinnslu, útgerðar og fiskvinnslu eru svo nám að hætt er við að sú markaðsverðmyndun yrði æði brengluð. Þess vegna tel ég að eðlilegast hefði verið að reyna að liðka enn frekar um á þeim vettvangi sem hér er verið að skapa, nýtt Verðlagsráð og stíga sem sagt skrefið öllu lengra.

Það er ástæða til að vekja athygli á því núna að það eru að gerast ákaflega merkilegir hlutir einmitt á þessu sviði í okkar sjávarútvegi. Það mátti lesa um það í blöðum fyrir skömmu að u. þ. b. fimmtungur skuttogaraflotans væri eða væri á leiðinni að verða að frystitogurum. Verðlagning á fiski frá frystitogurum fer fram með allt öðrum hætti en við eigum að venjast af ísfiski. Hún gerist einfaldlega þannig að áhöfn fær sína hlutdeild í endanlegu útflutningsverðmæti vörunnar eftir að búið er að draga frá ákveðna prósentu sem um var samið reyndar núna í síðustu kjarasamningum. Þar með er komið beint samband á milli sjómanna og hins endanlega markaðar sem kaupir vöruna. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta fyrirkomulag hefur gefist mjög vel, raunar svo vel að ég hef ekki heyrt nokkrar raddir, hvorki frá sjómönnum né útvegsmönnum, þess efnis að nein ástæða sé til þess að breyta þarna um.

Varðandi þá breytingu, sem átti sér stað á þessu frv. í Ed., mun hún vera til komin vegna þess að það þótti með öllu óeðlilegt að Félag rækju- og skelfisksframleiðenda ætti ekki aðild að verðlagningu á þeim afurðum sem að þeim laut. Það er alveg skiljanleg breyting sem þarna á sér stað miðað við það kerfi sem við búum við og byggist eingöngu á því að hagsmunaaðilar, kaupendur og seljendur á fiski, verðleggi sína vöru. Það er ekkert óeðlilegt varðandi svo sérstæða vöru, sem hörpudiskur og rækja er, að kaupendur og seljendur þessara tilteknu vara, þessa tiltekna fisks, eigi beina aðild að Verðlagsráði. Ég tel það þess vegna mjög eðlilega breytingu sem átti sér stað í Ed. og sjútvn. Nd. mun hafa jafnframt gert till. um í þessari deild.