23.05.1985
Sameinað þing: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5618 í B-deild Alþingistíðinda. (4866)

496. mál, stefna Íslendinga í afvopnunarmálum

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Þetta hefur verið nokkuð óvenjulegur dagur á Alþingi. Hér hafa menn rætt mál sem allt of sjaldan eru hér til umr. — allt of sjaldan vegna þess að þau eru kannske mikilvægari en flest annað sem við eyðum stundum tíma okkar og orku í að fást við að rífast um. Þar á ég við umræður um vígbúnað, fátækt og hungur.

Við lifum í býsna undarlegum heimi. Menn eiga ráð til þess nú að láta myndavélar í amerískum gervitunglum lesa Prövdu í höndum soldáta á Rauða torginu í Moskvu, en menn virðast samt ekki eygja ráð til þess að lesa, a. m. k. ekki svo skýrt að þeir skilji, þjáningu í augum sjúkra og hungraðra eins og hún birtist okkur á skjánum á næstum hverju kvöldi. Menn eiga ráð til þess að útrýma mannkyninu á sekúndubrotum vegna þess að samanlagt er til í heiminum sprengjumagn sem svarar til hundruða kg af TNT á hvert einasta mannsbarn í heiminum, samt virðast þeir ekki eygja ráð til þess að útrýma misrétti, hungri og fátækt og misréttinu milli norðurs og suðurs sem er alvarlegasta málið í heiminum í dag. Það er vitað að menn eiga til þess ráð og hafa leitað sérstaklega til þess ráða að fylla sprengjur með plastflísum sem eru sértaklega gerðar þannig að þær finnast ekki með röntgentækjum í særðu holdi, en samt eygja þeir engin ráð til þess að verjast fjölda sjúkdóma sem herja á fólk, bæði ríka og fátæka.

Ég hef sagt að menn eygi ekki ráð, en spurningin er hvort þeir eiga ráð og víst eiga þeir ráð vegna þess að menn sem hafa ráð og eiga efni til voðaverkanna sem ég lýsti hérna að framan hafa auðvitað ráð og efni til þeirra líknarverka sem við höfum rætt um hér í dag að séu nauðsynleg og óumflýjanleg ef þessi heimur á að lifa af. En þá er það hugsunarhátturinn sem þarf að breytast og það er hið pólitíska viðfangsefni, ekki bara á Íslandi heldur alls staðar í heiminum.

Sá hugsunarháttur sem þarf að breytast er kannske ekki almennings vegna þess að alls staðar í frjálsum löndum í heiminum streymir fólk út á götur og heimtar frið og afvopnun. Hugsunarhátturinn sem þarf að breytast er ráðamannanna, þeirra ráðamanna sem leggja á ráðin um vígbúnað og hervæðingu. Sá vígbúnaður, sem komið hefur fram í dag á hv. Alþingi að allir eru sammála um að menn þurfa, er vígbúnaður sem beitt er til björgunar og lífs en ekki vígbúnaður sem beitt er til dauða. Það er enginn vafi í mínum huga um að ef menn söfnuðu þeim auð og þekkingu og tækni sem stríðsvélin hefur yfir að ráða til að berjast við hungur, fátækt og vanþróun mundu þessi vandamál, sem ég hef hérna gert að umræðuefni, leysast næstum á svipstundu. Það er hin beiska staðreynd, það er hinn beiski sannleikur sem við verðum að horfast í augu við og þar birtast skyldur okkar og ábyrgð að mínu mati.

Ég hef talað hérna um vígbúnað, hungur og fátækt. Þetta hefur verið viðfangsefni utanrmn. á síðustu vikum og verið verðugt verkefni. Á báðum þessum sviðum hafa gerst þeir mikilvægu atburðir að stefnumarkandi siðferðilegar yfirlýsingar hafa verið samþykktar af utanrmn. og ég vænti þess að þær verði samþykktar af Alþingi. Í þáltill. um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum er lögð áhersla á stuðning okkar við hvers konar frumkvæði í átt til afvopnunar og friðar og þar er hvatt til þátttöku okkar í þeirri viðleitni eins og tilefni gefast, hvar sem er og hvenær sem er.

Nú munu vafalaust einhverjir telja svona yfirlýsingu léttvæga og telja sig þá sjálfir líta raunsæjum augum á vígstöðuna og vígbúnaðinn í kring um okkur, en ég tel þvert á móti að þessi sameiginlega niðurstaða nefndarinnar sé raunsætt mat á aðstæðum og sé raunsær skilningur á því að framtíð okkar eigum við svo sannarlega undir því að við byrjum á því að moka ofan í gamlar skotgrafir, koma okkur upp úr þeim og móta saman grundvöll, bæði grundvöll siðferðis og grundvöll þekkingar, til þess að á Íslandi geti risið sterk afvopnunarstefna.