23.05.1985
Neðri deild: 75. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5634 í B-deild Alþingistíðinda. (4898)

363. mál, lagmetisiðnaður

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni gamall draugur. Hér er sífellt verið að endurnýja einokunarheimild til handa þessari stofnun, en vilji Alþingis um að hún yrði afnumin kom í rauninni skýrt fram fyrir langa löngu. Samt hafa menn orðið til að framlengja þessa heimild um eitt ár í tvígang a. m. k. og nú er verið að færa sig upp á skaftið og framlengja hana til fleiri ára. Það er fært fram sem rök að það sé ómögulegt að stunda sölustarfsemi til Austur-Evrópuríkja öðruvísi en að þessi einokunarheimild sé fyrir hendi. Ég tel að það sé fráleitt. Hvernig geta þá ýmsir aðrir aðilar, sem ekki hafa ríkiseinokun eða ríkisverndaða einokun á sölustarfi, selt vörur sínar til þessara landa?

Ég er algerlega andvígur þessari framlengingu og legg til að frv. þetta verði fellt.