28.05.1985
Sameinað þing: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5673 í B-deild Alþingistíðinda. (4946)

393. mál, niðurfelling söluskatts af auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil segja hér örfá orð út af þeirri þáltill. á þskj. 634 sem er flutt af virðulegum þm. Maríönnu Friðjónsdóttur og nú hefur verið mælt fyrir.

Söluskattur er ekki krafinn af auglýsingum útgefenda blaða, bóka, tímarita og annarra ritlinga, t. d. leikskráa, myndskráa o. s. frv. Hins vegar ber að skattleggja aðrar auglýsingar eða auglýsingatekjur svo sem auglýsingatekjur Ríkisútvarps, kvikmyndasýninga, vörusýninga og þess háttar. Þessi skipan hefur gilt frá 1960 eins og frá er greint í grg. með þáltill. Eru það umtalsverðar tekjur sem ríkissjóður hefur af söluskatti af auglýsingum.

Ekkert kemur fram í grg. sem bendir til að ástæða sé til þess að lækka auglýsingaverð í hljóðvarpi og sjónvarpi er nemi söluskattinum. Ríkisútvarpið sem slíkt greiðir ekki söluskattinn af sínum tekjum. Ríkisútvarpið innheimtir söluskattinn fyrir ríkissjóð eins og allir aðrir sem innheimta söluskatt fyrir ríkissjóð. Það er ekki hægt að segja að verslun t. d. sé að greiða söluskatt af sínum tekjum. Þessir aðilar, hvort sem það er Ríkisútvarpið eða almennir verslunaraðilar eru innheimtuaðilar ríkissjóðs á þessu sviði.

Eins og ég gat um í upphafi innheimta ekki aðrir aðilar, eins og dagblöðin, söluskatt fyrir ríkissjóð. Þeir eru undanþegnir þessari kvöð. Ef aftur á móti söluskatturinn er felldur niður af Ríkisútvarpinu þýðir það einfaldlega það að óbreyttum lögum að auglýsingar í Ríkisútvarpinu lækka í verði sem því nemur því hér er ekki verið að taka af tekjum útvarpsins. Svo er það annað mál hvort Alþingi vill fara þá leiðina eða ekki.

Ég er að leiðrétta þann misskilning að hér sé verið að taka tekjur frá Ríkisútvarpinu. Ef ríkissjóður innheimtir ekki söluskattstekjur þær sem Ríkisútvarpið innheimtir fyrir ríkissjóð, erum við bókstaflega að eyrnamerkja þann hluta til Ríkisútvarpsins. Ég efast um að alþm. séu reiðubúnir að gera það.