28.05.1985
Neðri deild: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5708 í B-deild Alþingistíðinda. (4988)

342. mál, verslunaratvinna

Frsm. 2. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Þetta mál er nokkuð skondið og segir okkur sitthvað um það hvernig vinnubrögðin við löggjafarstörfin verða stundum þegar hart er róið. Upphafið að þessu virðist vera að það kemur upp óánægja vegna þess að menn telja að á vídeóleigum séu menn að brjóta lög um ofbeldismyndir, höfundarétt og menn telja jafnvel að það sé verið að svíkja undan skatti. Það sem þá er til bjargar er að koma því svo fyrir að þeir sem reka svona fyrirtæki verði að fá til þess leyfi til þess að síðan sé hægt að svipta þá leyfinu. Eins og lýst hefur verið hér fyrr rjúka menn fyrst til og ákveða að flytja um það frv. að setja alla leigu lausafjármuna undir lög um verslunaratvinnu, vegna þess að það ku vera í þeim lögum ákvæði um að menn skuli hafa siðferðisvottorð um að þeir séu góðir og gegnir menn og ekki líklegir til að vera neytendunum neitt til ógnar, hverja sem menn telja svo reynsluna af því að hafa þannig gefið verslunarfólki siðferðisvottorð.

Þá kemur að því að menn sjá að leiga lausafjármuna er afar sundurleitt svið. Þar falla undir hestaleigur og bílaleigur, bókasöfn, áhaldaleigur, myndbandaleigur og þar gætu fallið undir útleigur á búningum eða útleigur á fermingarkyrtlum svo við tækjum dæmi. Það er augljóst að innan þessa sviðs er hægt að gera afar ólíkar kröfur til siðgæðis. T. d. er ég ekki viss um að kyrtlaleigur og myndbandaleigur ættu að uppfylla sams konar siðgæðiskröfur. Ég veit ekki hvað menn mundu gera í sambandi við hestaleigur og bílaleigur. Þar er á vissan hátt um að ræða farartæki í báðum tilfellum, en afar ólíkar kröfur sem þarf að gera ef menn ætluðu að fara að taka þetta svið sérstaklega undir.

Menn hafa augljóslega komist að niðurstöðu um að þarna sé ekki hægt að búa um með einum hnút. En ég sé samt að það gæti verið fullkomin ástæða fyrir löggjafann að setja lög um hestaleigur. Hvað með hestaleigur sem hvað eftir annað leigir hasta hesta og er þannig hestaleigjendum mjög til trafala? Mér fyndist að það ætti að vera hægt að koma lögum yfir menn sem leigja hasta hesta. Þess vegna er full ástæða til að setja hestaleigur undir lög um verslunaratvinnu ef við tökum áfram þessa röksemdafærslu. (ÓÞÞ: Hvað með hrekkjótta hesta?) Jú, hrekkjóttir hestar líka. Það hlyti að koma þarna undir. (HBl: En ef menn vilja hasta hesta?)

Ég held að augljóst sé að munir eru leigðir í mjög ólíku skyni ef við berum saman bókasöfn og áhaldaleigur, til siðferðis þarf að gera mjög ólíkar kröfur svo við tökum kyrtlaleigur og myndbandaleigur og svo mætti lengi telja. Við höfum bátaleigur, skipaleigur og alls konar leigur. Ég held að það sé löggjafanum alls ekki samboðið að fara svona á taugum þó að í ljós komi að það þurfi kannske að setja reglur því að það sé eitthvað sem megi betur fara á einhverjum stað. Mér finnast þessi taugaveiklunareinkenni löggjafarsamkundunnar alls óviðeigandi. Þess vegna hef ég lagt til að þetta frv. verði fellt og menn líti á málið frá byrjun aftur og spyrji: Er þörf í fyrsta lagi og er í öðru lagi möguleiki á því að setja lög um leigu lausafjármuna almennt? Þá er ég til í að taka þátt í að smíða löggjöf um þessi mál.

Eins og um þetta mál hefur verið búið finnst mér, eins og ég segi í minnihlutaáliti, alls ekki löggjafarsamkundunni samboðið að fara svona á taugum þó að menn hafi grun um að lög séu brotin einhvers staðar og þess vegna þurfi að veita mönnum leyfi til þess að hægt sé síðan að svipta þá þessu leyfi. Ég held að ríkisstj. ætti að nota til þess þinghlé, ef eitthvert þinghlé verður yfirleitt, að fara ofan í saumana á því hvort setja þurfi allsherjarlöggjöf um leigu lausafjármuna og athuga hvort ekki sé hægt að vinna þetta mál út frá því og taka þá tillit til ólíkra hagsmuna og ólíkra aðstæðna sem eru í hinum ýmsu greinum leigustarfseminnar.