15.10.1984
Efri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

10. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Stefán Benediktsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 10 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl., nr. 95/1981. Þetta mál kom til umfjöllunar þingdeildar í fyrra, en hlaut ekki þá afgreiðslu sem ég gat fyllilega sætt mig við, og kýs ég þess vegna að flytja það hér aftur.

Þetta er ekki afskaplega stórt mál eða mikilvægt. Það fjallar einfaldlega um það að sölulaun skuli ekki tekin af öðru en söluverðmæti varnings og þá þess varnings sem þar er um fjallað. Það er í sjálfu sér nógu vitlaust að menn geti framleitt vöru og átt það víst að sú vara sé keypt, án tillits til þess hvort markaður eða þörf er fyrir hana, þó að ofan á þá vitleysu sé ekki bætt því að menn taki sölulaun af því sem hið opinbera þarf að leggja þessari vöru til þannig að hún skili framleiðendum sínum þeim kostnaði sem þeir hafa orðið fyrir.

Ég vil leyfa mér að leggja til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og til fjh.- og viðskn.