05.11.1984
Neðri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

8. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hef fylgst með starfi verkalýðsfélaga og verkalýðshreyfingar í um 26 ár og ég man ekki til þess að hafa heyrt talað af jafnmikilli vanþekkingu um starfsemi og starfsháttu stéttarfélaganna í landinu og í framsögu fyrir því frv. sem hér er nú til umr.

Ég er ekki með þessum orðum að segja að ekki sé nauðsynlegt, því að það verður auðvitað alltaf nauðsynlegt, að ræða stöðugt hvað megi betur fara í starfsháttum verkalýðshreyfingarinnar svo og annarra félagasamtaka í landinu. En ég held a.m.k. að málflutningur af þessu tagi, sem hér var uppi hafður í framsöguræðu fyrir þessu frv., sé ekki sprottinn af því að menn vilji breytingar til hins betra fyrir það fólk sem menn í orði kveðnu hafa talið að þyrfti að bæta sérstaklega um fyrir.

Ég ræddi nokkuð um frv. sem var efnislega svipað þessu á þingi ekki alls fyrir löngu og þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þetta. Mín afstaða til málsins hefur ekkert breyst. Ég held að með því að taka upp það sem hér er gert ráð fyrir væri verið í orðsins fyllstu merkingu að innleiða hér á vinnumarkaðinn lögmál frumskógarins. Það er a.m.k. ekki í mínum huga sem jafnaðarmanns að það fyrirkomulag mundi bæta stöðu hinna smæstu eininga og þeirra sem verst eru settir að því er varðar kjör á hinum almenna vinnumarkaði.

Nú veit ég út af fyrir sig ekki, og kannske skiptir það ekki meginmáli, hvaða starfi hv. frsm. þessa máls hefur gegnt um ævina, en mér þykir ólíklegt að hann þekki af eigin raun það starf sem fram fer í hinum einstöku stéttarfélögum eða innan verkalýðssamtakanna sem heildar. Menn sem þekkja til mundu a.m.k. ekki tala jafnóskynsamlega um þessi mál og hv. þm. gerði áðan. Þar fyrir utan er mjög vinsælt nú að gagnrýna og ata hv. þm. auri. Ég hjó eftir því að hv. þm. sagði að þingmenn gætu ekki, vildu ekki og nenntu ekki að taka af skarið í umdeildu máli. Hér á hv. þm. trúlega við alla aðra en tilheyra hans flokki. Trúlega yrði bót ráðin á ef þar fjölgaði innan dyra. Ég held nú samt að það sé ekki til þess að vinna málum fylgi að tala í þeim dúr sem hv. þm. gerði áðan.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta frv. Ég held, eða a.m.k. er það mín skoðun, að það dæmi sig sjálft gjörsamlega óraunhæft til þess að bæta stöðu þeirra verst settu innan stéttarfélaga. Ég held þvert á móti að slík breyting yrði til þess að skipta einingunum miklu meira upp, gera þær smærri og fleiri og þannig vanmáttugri til að gegna því hlutverki sem þær eiga að gegna og hafa vissulega gert. Mér er hins vegar alveg ljóst að ýmsu mætti breyta til hins betra í starfsháttum. En það gerist ekki með frv.-flutningi álíka þeim sem hér er nú á dagskrá.

Nú tala ég kannske fyrst og fremst um svæði sem ég þekki hvað best, en ég veit að á Vestfjörðum, tökum t.d. mitt sveitarfélag Bolungarvík, yrði þetta til þess að hið raunverulega verkalýðsfélag, sem sér um samningsgerð bæði fyrir landverkafólk á hinum almenna vinnumarkaði og sjómenn, yrði að mínu viti, yrði farið yfir í breytingu eins og hér er lagt til, miklu vanmegnugra til að standa í stykkinu við að bæta kaup og kjör sinna umbjóðenda. Uppbygging eins og hér er lagt til yrði miklu frekar til þess að styrkja stöðu þeirra sem kannske eru sterkastir fyrir. Hinir yrðu skildir eftir. A.m.k. hefur mér fundist nógu langt gengið í þeim efnum að skilja á milli hinna betur settu og þeirra sem verr eru settir. Hitt er auðvitað alveg rétt að það má gagnrýna og gagnrýni er út af fyrir sig nauðsynleg og góð sé hún fram sett með því hugarfari að bæta. Það má vissulega gagnrýna að í mörgum tilfellum hefur verkalýðshreyfingunni mistekist við það margyfirlýsta verkefni að bæta fyrst og fremst kaup og kjör sinna umbjóðenda sem verst eru settir, minnst hafa borið úr býtum og minnst hafa sér til lífsviðurværis.

Hér er ekki fyrst og fremst um það að ræða að einn og einn forustumaður eða verkalýðsrekandi eins og nú er vinsælt orð, hafi ráðið ferðinni. Ég hef alltaf haldið því fram og það er mín bjargföst sannfæring að forusta í stéttarfélagi fer aldrei lengra í þessum efnum en það sem fólkið sjálft vill að hún fari. Það er óafsakanleg vankunnátta og lítil þekking á starfi og starfsháttum stéttarfélags að halda því fram að það sé t.d. formaður sem ræður þar ferðinni að eigin vild. Hann fer ekki lengra en það fólk í félaginu, sem að baki honum er, vill að hann fari. Sé málum ekki þannig farið, sem ég tel og tel mig hafa fulla reynslu til að dæma um, eru menn að tala um allt annað fyrirkomulag en í reynd er samkvæmt lýðræðislegu skipulagi. Ég held því að menn ættu, áður en menn eru með sleggjudóma í þessum efnum sem og öðrum, að kynna sér eilítið betur raunveruleikann sem að baki stéttarfélögunum og verkalýðshreyfingunni sem heild býr.

Við skulum taka eitt dæmi um hvernig mér sýnist að svona fyrirkomulag yrði á hinum smærri stöðum. Við skulum taka frystihús þar sem vinna kannske 30–40 manns. Það þarf ekki nema 25 manns til að ákveða samkvæmt þessu frv. að stofna vinnustaðafélag. Hvað með hina 5 eða 10 sem væru andvígir slíku? Nú sýnist mér að þeim væri heimilað að vera áfram í hinu gamla stéttarfélagi sínu. Væri það styrkur við þetta fólk að taka 25 manns af kannske 30–35 á vinnustaðnum, þannig saman settan hóp, sem hefði betri tök á því að skara eld að eigin köku en gæta hins sem minna hefur? Ég hygg að flestir sjái að með slíkum vinnubrögðum væri verið að ýta þeim sem minnst hafa enn frekar niður og gera möguleika þeirra minni á því að ná áhrifum til þess að minnka muninn miðað við þá sem ofar eru.

Ég tók eftir því að hv. 1. flm. þessa máls sagði að þetta mál hefði verið fellt í hv. Ed. Hvers vegna? Jú, menn höfðu skýringu á því. Vegna þess að stjórn Alþýðusambandsins væri á móti því, stjórn BSRB, vondu mennirnir hér í VR-stjórninni í Reykjavík, stjórnin í Einingu á Akureyri og stjórn VSÍ. Hér eru menn ekki bara að gefa í skyn heldur staðhæfa að hv. þm. í Ed. hafi kastað hugsjónum sínum og sannfæringu fyrir róða og gengið erinda þessara tilteknu samtaka. Mér finnst þetta stór fullyrðing, að nánast allir hv. þm. í Ed. Alþingis hafi í þessu tilfelli gengið erinda þeirra samtaka sem hér voru tilgreind af hv. þm. Kristófer Má Kristinssyni. Sé þetta rétt væri nauðsynlegt að fá nánari heimildir og frekari staðfestingu á svona staðhæfingum. Ekki vildi ég a.m.k. sitja undir slíku sem þm. án þess að betri heimildir fengjust og sannari.

Hv. þm. sagði líka áðan að nánast eina fundarefni stéttarfélags væri að kjósa fulltrúa á fundi sem væru þrepi ofar. Ég er alveg sannfærður um að ekki einn einasti hv. þdm. hér inni, að undanteknum þessum hv. þm., hefur hugrenningar í átt við það sem hér er fullyrt. Ég kannast a.m.k. ekki við neitt stéttarfélag í þessu landi sem hefur ekki ærin fundaverkefni önnur og meiri við að vera en að kjósa fulltrúa á einhverja tiltekna ráðstefnu þrepi ofar en félagið sjálft er. Slíkar fullyrðingar eru auðvitað slíkt svartnætti aftan úr grárri forneskju að engu tali tekur. Það hryggir mig sem sannan jafnaðarmann að það skuli vera þm. sem kennir sig við sambærilega stefnu og þá sem ég tel mig hafa tileinkað mér sem hagræðir tali sínu með þeim hætti sem hér var gert áðan og í þessum dúr. Meira að segja þarf ekki nema meðalgreint fólk til að sjá hvílíkir fordómar og vanþekking eru á ferðinni hjá þeim sem tala með þeim hætti. Alla hina, fyrir ofan meðalgreindina, þarf ekki um að tala, og þeir eru margir.

Hv. þm. sagði áðan, ég hef vikið að því áður, að með þessu frv. væri ekki verið að leggja niður stéttarfélög. Í rauninni er verið að gera það því með þessu frv., ef að lögum yrði og samkvæmt þeim breytt, væri verið að skilja eftir handa hinum gömlu stéttarfélögum, sem nú eru fyrir, það sem langerfiðast er að framkvæma í starfinu. Ég sé ekki að okkar þjóðfélag, svo margt sem þar er að vinna, hafi efni á því að beina hinni fjölmennu launþegahreyfingu í þann farveg sem lagt er til með þessu frv. Það er nærri mér að segja að með slíku væri verið að leggja til að hnefarétturinn ætti að gilda. Ég sé ekki heldur, eins og ég vék að áðan, að ef þetta yrði reyndin væri stefnt, með þessu fyrirkomulagi, að auknum launajöfnuði. Ég held að stefnan yrði í þveröfuga átt. Hér yrði, með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til að upp verði tekið, aukið misræmi í launum. Trúlega finnst mér að það gengi verulega miklu lengra í átt til ójafnaðar en það sem við þó nú búum við. Finnst mér þó a.m.k. og fleirum nóg um.

Ég skal ekki, herra forseti, fara öllu fleiri orðum um þetta mál að sinni. Ég vil þó segja að þó að mér sé augljóst að margt megi betur fara og hafi mátt betur fara í starfsháttum verkalýðsfélaganna og verkalýðssamtakanna í heild talað, þá verður þetta frv., ef að lögum yrði, ekki til þess að bæta það starf fyrir þann sem fyrst og fremst þarf á því að halda.

Hv. þm. kom hér einnig inn á yfirborganirnar og var réttilega á bent að þær eru miklar í þjóðfélaginu. Því miður komumst við varla hjá því að um slíkt verði að ræða að einhverju marki. Dettur einhverjum í hug að þó að lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur yrði breytt á þann veg sem hér er lagt til legðust yfirborganir niður um leið? Slíkt er auðvitað fáviska. Það verður því miður ekki komið í veg fyrir að slíkt verði alltaf í einhverjum mæli. Vonandi tekst að draga úr slíku þó að ég telji að breyting í þá átt sem hér er lögð til verði síst til þess fallin að draga úr.

Hv. þm. sagði líka að það yrði öðruvísi umhorfs í þjóðfélaginu og kjör fólks yrðu með öðrum hætti og betri ef fólkið sjálft gerði sína kjarasamninga. Enn eitt dæmið um svartnættisvankunnáttu, forneskjulegan hugsunarhátt aftan úr gráustu fornaldarsögunni. (Gripið fram í.) Hvað segir hv. þm. úr kjördæminu? Þýðir nú að bera það á borð fyrir nokkurn meðalgreindan mann, ég tala nú ekki um fyrir ofan það, að það sé ekki fólkið sjálft sem tekur ákvörðun í sambandi við samningamál? A.m.k. þekki ég það ekki. Sé slíkt ekki gert eru það einhver bolabrögð sem eru svo fjarri mínum heimaslóðum að ég hef ekki haft vitneskju um. Kannske talar hv. þm. vegna eigin reynslu af heimaslóð. Sé ástandið þannig þar þarf að skipta um mennina. Það er ekki lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur um að kenna. Ef þetta er svona á Vesturlandi er illa á málum haldið af stjórnunum.

Hv. þm. sagði líka að samningarnir hefðu verið og væru gersamlega ónothæfir. Mér dettur í hug hvort að það yrði lausn í þessu efni, eins og þm. hv. í BJ telja í sumu öðru, að leggja allt heila klabbið gersamlega niður. Það virðist vera lausnin á þeim bæ á hinum ýmsu vandamálum. Það er símaskrárforskriftin að því að leggja allt niður. Ég bið menn í mestu vinsemd, af því að mér er svo sannarlega mjög vel við þessa ágætu menn sem ættu að vera mínir flokksbræður, a.m.k. skoðanalega séð, að hugsa eilítið meira áður en þeir slengja hinu og þessu fram annaðhvort af vanþekkingu eða slíkum fordómum að engu tali tekur. (SV: Nema hvort tveggja sé.) Nema hvort tveggja sé, segir hv. þm. Stefán Valgeirsson. Já, það kann svo að vera, en ekki fór það út úr mínum munni. — Nei, ég held að menn eigi frekar að sameinast um að gera breytingar þar sem þess er talið þörf til þess að styrkja fyrst og fremst starfsemi stéttarfélaganna sem þarf að vera sterkari en hún er og þá tala ég fyrst og fremst um þau stéttarfélög sem eru á hinum fámennari stöðum. Hin fjölmennu sjá sér betur farborða og ráða betur við þau verkefni sem stéttarfélagi er ætlað að sinna og á að sinna, en hinum fámennari stöðum er það höfuðatriði að stækka einingarnar en ekki að smækka þær og fjölga þeim. Það þarf að stækka þær og fækka þeim, en ekki að smækka þær og fjölga þeim. Slík breyting þýddi það að tugir félaga á hinum smærri stöðum yrðu miklu verr settir til að gegna því hlutverki sem þau eiga að gegna en þau þó eru nú. Þetta held ég að menn ættu að gera sér ljóst.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort það hefur verið ætlan hv. frsm. hér áðan, þegar hann orðaði það svo að frv. svipaðs eðlis hefði verið fellt í hv. Ed. vegna sérkennilegra tengsla hv. þm. þar við félagastjórnir úti í bæ, eða hvort hv. þm. gerir ráð fyrir að slíkt hið sama gerist hér í hv. Nd. En eitt get ég sagt hv. þm. strax, að það skiptir mig a.m.k. ekki meginmáli hvaða skoðanir miðstjórn Alþýðusambandsins, BSRB-stjórnin, VR-stjórnin, Einingar-stjórnin eða VSÍ-stjórnin hafa á þessu máli. Ég tel mig það dómbæran á þessi mál vegna reynslu að því er varðar framkvæmd að ég mun greiða atkv. gegn þessu frv., komi til þess að það komi hér til atkvgr. í Nd.; fyrst og fremst vegna þess að ég tel að framkvæmd þess, ef að lögum yrði, mundi valda þeim, þeim sem ég vil a.m.k. trúa að hv. flm. vilji vinna fyrir, meira tjóni en þeir hafa nú þegar orðið fyrir.