30.05.1985
Sameinað þing: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5754 í B-deild Alþingistíðinda. (5080)

497. mál, náttúrufræðisafn á höfuðborgarsvæðinu

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um náttúrufræðisafn á höfuðborgarsvæðinu, en að till. þessari standa þm. úr öllum þingflokkum, tveir frá hverjum þingflokki. Ég mæli hér fyrir till. sem 1. flm. hennar. Efni till. er svofellt, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hraða. m. a. í samráði við hóp áhugamanna og Náttúrufræðistofnun Íslands, undirbúningi að byggingu yfir nútímalegt náttúrufræðisafn á höfuðborgarsvæðinu. Byggingarundirbúningur og fjárframlög til framkvæmda verði við það miðuð að unnt verði að opna safnið almenningi á árinu 1989 þegar 100 ár verða liðin frá stofnun Hins íslenska náttúrufræðifélags og náttúrugripasafns á þess vegum “

Þetta er efni till. Í grg. með till. er veitt nokkurt yfirlit um þróun þessa máls á liðinni tíð og greint frá núverandi stöðu svo og hugmyndum um úrbætur í þessu máli. Það hefur um langt skeið verið draumur áhugamanna um íslenska náttúru, jafnt lærðra og leikra, að takast mætti að koma upp myndarlegu náttúrufræðisafni í höfuðstað landsins eða í grennd við hann. Hið íslenska náttúrufræðifélag, sem vikið er að í tillgr., var stofnað árið 1889 með það að höfuðmarkmiði að koma upp sem fullkomnustu safni náttúrugripa í Reykjavík og var það hugsað sem þjóðarsafn á sínu sviði. Fyrsti vísir að slíku safni myndaðist þegar á fyrsta starfsári félagsins sem hafði veg og vanda af safninu til ársins 1947 þegar það var afhent ríkinu til eignar og umráða.

Náttúrugripasafnið í Reykjavík, eins og það var lengi nefnt, var til húsa í Safnahúsinu við Hverfisgötu á árunum 1908–1960 en þá varð það að víkja vegna þarfa Landsbókasafnsins. Þarna hafði safnið yfir að ráða 140 fermetra sýningarsal en þegar sýning var opnuð á nýjum stað í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar Íslands árið 1967 var rýmið aðeins um 100 fermetrar. Þessar tölur tala skýru máli um þann þrönga stakk sem þessu aðalnáttúrugripasafni landsins hefur verið sniðinn og hvað sýningaraðstöðu varðar hefur hann þrengst en ekki víkkað í tímans rás.

Ég hygg að margir þeir, sem eru nálægt miðjum aldri eða eldri, muni eftir sýningu Náttúrugripasafnsins í sýningarsalnum við Hverfisgötu. Þar var safnið allvel sett miðað við staðsetningu hér í hjarta höfuðborgarinnar. En ég hygg að það séu ekki eins margir sem rata á núverandi sýningu Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hún liggur ekki miðsvæðis í Reykjavík og er fyrir komið í húseign, sem Náttúrufræðistofnunin hefur yfir að ráða og er raunar eigandi að, að Hverfisgötu 118 eða Laugavegi 105, þar á 3. hæð. Sýningarsalur auglýsir sig því ekki og er ekki sérstaklega aðgengilegur.

Á sama tíma og þessi hefur orðið þróun hér í Reykjavík varðandi sýningu á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa einstök bæjarfélög utan höfuðstaðarins megnað að koma upp sæmilegum náttúrugripasöfnum, góðum á sína vísu miðað við allar aðstæður og raunar með litlum stuðningi af hálfu ríkisins. Þannig eru komin upp náttúrugripasöfn á allmörgum stöðum á landinu. Næst elst er Náttúrugripasafnið á Akureyri, en um 1970 var stofnað til náttúrugripasafna í Neskaupstað og í Vestmannaeyjum. Í Vestmannaeyjum er raunar allmyndarlegt sædýrasafn eða fiskasafn, safn lifandi fiska, sem er nánast hið eina sinnar tegundar hér í landinu og vel að því staðið af hálfu Vestmannaeyja. Nú hefur nýlega verið opnuð í Kópavogi sérstök Náttúrufræðistofa með sýningu. Er þá raunar engan veginn allt talið því að fleiri náttúrugripasöfn hafa verið opnuð á vegum bæjarfélaga út um landið.

Það getur vissulega ekki talist vansalaust að nú, þegar nálgast aldarafmæli fyrsta náttúrugripasafnsins, skuli það búa við þrengri aðstöðu til sýninga hér í Reykjavík en fyrir þremur aldarfjórðungum.

Náttúra Íslands er sérstök um margt og það varðar miklu að landsmenn átti sig sem best á því hverju hún býr yfir, bæði til hagnýtingar og yndisauka. Góð náttúrufræðisöfn geta opnað augu margra, ekki síst æskufólks, fyrir sérkennum hennar og samhengi. Fyrir ferðamanninn sem sækir Ísland heim er æskilegt að hefja eða geta hafið og lokið ferð um landið á slíku safni. Nútímalegt náttúrufræðisafn í höfuðstað landsins eða næsta nágrenni hans ætti að vera metnaðarmál ekki síður en gott þjóðminjasafn, listasafn og þjóðarbókhlaða. Þetta varðar að sjálfsögðu alla þætti íslenskrar náttúru en ég vil sérstaklega nefna hér jarðfræðina, sem er ekki síst það sem forvitni vekur fyrir ferðamanninn. Það er langt frá því að það sé vansalaust hvernig að þessum málum er staðið, raunar varðandi alla þætti íslenskrar náttúru, en það á ekki síst við um jarðfræðiþáttinn svo sérstakur sem hann er fyrir okkar land.

Með till., sem ég mæli hér fyrir og flutt er af þm. úr öllum flokkum eins og ég gat um, er lögð áhersla á að hraðað verði undirbúningi að byggingu yfir myndarlegt náttúrufræðisafn á höfuðborgarsvæðinu og sett fram markmið um fjárframlög til framkvæmda svo að unnt verði að opna slíkt safn í nýjum húsakynnum á árinu 1989. Þannig yrði minnst á viðeigandi hátt brautryðjendanna sem hófu verkið með tvær hendur tómar fyrir tæpri öld. Reynt hefur verið af hálfu aðstandenda safnsins að halda þessu merki uppi, en það hins vegar ekki tekist með betri hætti en hér hefur verið rakið.

Forstöðumenn Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa á liðnum árum gert ítrekaðar tilraunir til að koma hreyfingu á byggingamál stofnunarinnar og sýningarsafns, m. a. með því að leita eftir samvinnu við Háskóla Íslands um málið. Það hafa farið ýmis erindi og bréf á milli aðila, nú síðast í byrjun þessa árs, og það skiptir mjög miklu máli að stefna verði mörkuð í þessu safnmáli, m. a. með tilliti til hugsanlegrar samvinnu eða tengsla við Háskólann.

Háskólinn keypti á sínum tíma með framlögum af happdrættisfé húsnæði fyrir Náttúrufræðistofnunina að Laugavegi 105 þar sem hún er enn og sýningarsalur á 3. hæð. Það var á sínum tíma skilyrði fyrir einkaleyfi Háskólans til happdrættisrekstrar að koma húsi yfir safnið en Háskólinn telur sig hins vegar hafa staðið við þá kvöð með nefndum kaupum.

Þegar á árinu 1942 heimilaði háskólaráð að hús yfir náttúrugripasafn risi á háskólalóðinni. Enn í dag beinast sjónir manna að nálægð og tengslum við Háskólann eins og ég gat um, m. a. hefur verið rætt um að fá lóð undir slíkt safn á svæðinu sunnan við Norræna húsið. Hér í till. er hins vegar engu slegið föstu um staðsetningu enda er það ekki meginmálið í augum flm. heldur það að styðja við þann áhuga sem lengi hefur ríkt um þetta efni og ekki síst nú að undanförnu. Það er að mati flm. sjálfsagt, vegna lagaákvæða og undirbúnings sem fram hefur farið á vegum Náttúrufræðistofnunar að byggingu safnhúss, að náið samráð sé haft við forráðamenn Náttúrufræðistofnunar um undirbúning byggingarmálsins. Á sama hátt virðist eðlilegt að kveðja til fulltrúa frá Háskólanum og Reykjavíkurborg vegna einstakra þátta og stuðnings þessara aðila við málið.

Miðað við að nýrri safnbyggingu verði valinn staður í Reykjavík og vegna gildis slíkrar stofnunar fyrir skóla og almenning væri ekki óeðlilegt að borgin veitti fjármagn til byggingarinnar á móti ríkinu og gerðist e. t. v. beinn aðili að safninu.

Þá er þess að geta að sérstakur hópur áhugamanna um náttúrufræðisafn hefur starfað um nokkurt skeið. Fyrst kom slíkur hópur saman snemma árs 1983. Náttúruverndarfélag Suðvesturlands vann einnig að þessu máli og vakti sérstaka athygli á því í tengslum við fræðsluferðir sem félagið gekkst fyrir sumarið 1983 undir yfirskriftinni: „Náttúrugripasafn undir beru lofti.“

Það gerðist síðan á stjórnarfundi Hins íslenska náttúrufræðifélags s. l. haust að ákveðið var að hefjast handa á ný og vinna að því að koma hinu upphaflega meginbaráttumáll félagsins áleiðis og helst í höfn á næstu árum. Hópur áhugamanna á vegum félagsins hefur síðan oft komið saman á liðnum vetri og rætt sérstaklega um hlutverk og uppbyggingu nútímalegs safns á sviði náttúrufræða og er álitsgerð þessa áhugamannahóps og ávarp frá honum varðandi málið dags. 17. apríl s. l. birt sem fylgiskjal með þessari þáltill. sérstakur náttúrufræðidagur var haldinn nú fyrir skemmstu. Var hann ekki síst helgaður þessu málefni, að vekja athygli á núverandi aðstæðum náttúrufræðisafns hér í borginni og þörfinni til úrbóta. Reyndar var þátttaka í þessum degi ekki einskorðuð við Reykjavík heldur tóku þátt í henni söfn og stofnanir utan höfuðstaðarins.

Þess ber að geta að talsmenn þessa áhugahóps hafa þegar rætt byggingarmálið við núverandi hæstv. menntmrh., Ragnhildi Helgadóttur, og einnig við Davíð Oddsson borgarstjóra. Bæði hafa þau lýst áhuga á málinu og heitið stuðningi við það og eru undirbúningsviðræður hafnar milli þessara aðila. Stjórnmálaflokkar hafa raunar lýst stuðningi við byggingu fyrir náttúrufræðisafn, það gerðist síðast hjá Sjálfstfl. á landsfundi hans í apríl s. l. að þar var ályktað um málið.

Ef góður hugur og stuðningur af hálfu framkvæmdavaldsins við hugmyndina um nútímalegt náttúrufræðisafn á höfuðborgarsvæðinu kemur til og Alþingi lýsir sig þar að auki fúst til að leggja fram fé til undirbúnings og framkvæmda á næstu árum er þess að vænta að draumur brautryðjendanna verði að veruleika innan fárra ára. Öflugs stuðnings ætti einnig að mega vænta hjá almenningi um þetta mál eftir að merkið hefur verið reist með myndarlegum hætti.

Aftan við grg. með þessari þáltill. er að finna sérstaka grg. áhugamanna varðandi náttúrufræðisafn auk ávarps sem ég gat um áðan. Ég vek sérstaklega athygli á þeim kafla grg. sem varðar hlutverk slíks safns en þar segir, með leyfi forseta:

„Hlutverk íslensks náttúrufræðisafns hlýtur fyrst og fremst að vera að fræða almenning um náttúru Íslands, næstu grannlanda og hafið umhverfis. Enn fremur að veita eftir megni yfirlit um náttúru annarra svæða, almenna náttúrufræði í víðustu merkingu og þau lögmál er ríkja í náttúrunni. Safnið leggur áherslu á vistfræði og náttúruvernd og tengsl mannsins við náttúru landsins. Einnig á nýjungar í rannsóknum, náttúrufræðifræðslu tengda atvinnuvegunum og málefni sem eru á döfinni og tengd starfsemi safnsins. Á þennan hátt er safnið þjónustumiðstöð fyrir hina almennu gesti.“

Þetta var tilvitnun í grg. frá hópi áhugamanna. Nú er það vissulega svo að ástæða væri til að taka sérstaklega á málefnum náttúrufræðisafna utan höfuðborgarsvæðisins, og á það er bent í lok grg. með þessari till. að meginsafn á sviði náttúrufræða, eins og það sem hér er um rætt, á að geta orðið til stuðnings hliðstæðum söfnum víða á landinu og nauðsynlegt er að finna samstarfi þessara safna ákveðinn farveg.

Það er hins vegar mál út af fyrir sig hvernig á slíku yrði tekið. Ég get minnt á það hér að þegar á árinu 1972 var að starfi nefnd á vegum menntmrn. sem fjallaði um tengsl náttúrufræðisafna utan höfuðstaðarins við Náttúrufræðistofnun Íslands. Till. þeirrar nefndar liggja einhvers staðar fyrir og gætu verið þess virði að taka þær til skoðunar í sambandi við það sem ég nefndi hér síðast, tengsl náttúrugripa- eða náttúrufræðisafna utan höfuðborgarsvæðisins við meginsafn hér á þessu aðalþéttbýlissvæði landsins.

Ég legg til, herra forseti, að eftir að umr. um till. þessa hefur verið frestað verði till. vísað til hv. allshn. Sþ.