31.05.1985
Efri deild: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5781 í B-deild Alþingistíðinda. (5110)

478. mál, tónlistarskólar

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að fagna þessu frv. og leggja áherslu á það sem hér hefur komið fram um þá þróun sem orðið hefur vítt um land á undanförnum árum í uppbyggingu tónlistar skóla. Fyrir 15–20 árum voru það forréttindi stóru þéttbýlisstaðanna að koma unglingum sínum og börnum í tónlistarskóla, en á síðustu árum hefur þetta breyst á þann máta að nú eru það að miklu leyti orðin forréttindi unglinga eða barna í smærri þéttbýlisstöðum úti um land að stunda eitthvert tónlistarnám. Tónlistarskólar hafa verið stofnaðir, oft og tíðum af áhugafólki, og komið hefur verið á legg nokkurri kennslu við slíka skóla. Nú er svo komið að næstum hvert einasta skólabarn í hinum minni byggðum, sem hefur haft áhuga fyrir því að njóta slíkrar kennslu, hefur átt kost á því. Þetta mun sjálfsagt vera ein af þeim menntagreinum þar sem landsbyggðin stendur betur að vígi en stóru þéttbýlisstaðirnir.

Ég vænti þess og veit það að þetta frv. á greiða leið í gegnum Ed. og fagna því að það er komið svo langt áleiðis.