31.05.1985
Neðri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5791 í B-deild Alþingistíðinda. (5130)

488. mál, orkulög

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 899 flyt ég frv. um breytingu á orkulögum, nr. 58/1967, með síðari breytingum, eins og þar greinir. Með frv. þessu er lagt til að orkulögum verði breytt þannig að ráðherra verði veitt heimild til að stofna hlutafélag er lúti stjórn Orkustofnunar og hafi það hlutverk að markaðsfæra — sem er nú heldur slæmt orð en ég hef ekki annað haldbetra í fórum mínum — erlendis þá þekkingu sem Orkustofnun ræður yfir á sviði jarðhitamála, vatnsorkurannsókna og áætlanagerðar í orkumálum.

Á liðnum árum hafa umsvif Orkustofnunar erlendis aukist nokkuð og þykir eðlilegt að sérstakur lögaðili annist þessa starfsemi, sem er að hluta frábrugðin annarri hefðbundinni starfsemi stofnunarinnar. Þar sem um áhætturekstur er að ræða þykir rétt að stofna hlutafélag um reksturinn þannig að ríkið takmarki áhættu sína af rekstrinum við framlagt hlutafé. Þá er í frv. lagt til að lögfest verði ákvæði um stjórn Orkustofnunar og að sú stjórn verði jafnframt stjórn hins nýja hlutafélags.

Í bréfi til mín, dags. 28. mars s. 1., gerir orkumálastjóri svofellda grein fyrir málefni þessu:

„Hér með leyfir Orkustofnun sér að leggja til við hæstv. iðnrh. að gerð verði breyting á orkulögum nr. 58/1967 með síðari breytingum. Tilefni þessarar tillögu eru verkefni sem Orkustofnun er farin að starfa að erlendis í samvinnu við íslenska verkfræðisamsteypu, Virki hf.

Eins og ráðuneytinu er kunnugt hefur jarðhitadeild Orkustofnunar í samvinnu við Virki hf. og með samþykki þess nú um eins árs skeið boðið í rannsóknar- og ráðgjafarverk á sviði jarðhitanýtingar og jarðhitarannsókna í fjórum löndum, Norður-Jemen, Kenýa, Grikklandi og Eþíópíu. Eitt verk í Grikklandi er þegar í gangi og samningar standa yfir um annað. Unnið er nú að gerð tilboðs í þriðja verkefnið í Grikklandi. Svör hafa ekki enn borist frá Norður-Jemen eða Kenýa, en tilboðið í verkefnið í Eþíópíu kom því miður of seint til þess að koma til álita vegna mistaka erlends aðila sem tekið hafði að sér gegn greiðslu að koma því til réttra aðila fyrir tiltekinn tíma.“

Í orkulögum er ekki gert ráð fyrir að Orkustofnun geti unnið að verkefnum erlendis. Verði framhald á slíkum verkefnum, sem horfur eru á, verður að teljast eðlilegt að slík starfsemi ríkisstofnunar fari fram á grundvelli sérstakrar lagaheimildar, ekki síst með tilliti til þess að verkefnaöflun erlendis fylgir viss fjárhagsleg áhætta sem ekki er eðlilegt að borin sé af fjárveitingum til Orkustofnunar eða sértekjum af verkefnum innanlands.

Öll starfsemi Orkustofnunar til þessa, hvort heldur hún er kostuð með framlögum á fjárlögum eða af sértekjum frá íslenskum orkufyrirtækjum, er þjónusta við orkuiðnaðinn á Íslandi og íslenska orkunotendur og greidd af þeim, annaðhvort sem orkunotendum eða skattgreiðendum. Verkefni erlendis eru ekki unnin fyrir þennan hóp og því eðlisóskyld innlendum verkefnum stofnunarinnar. Því ber að halda þessum tveim tegundum verkefna vel aðgreindum fjárhagslega. Því er lagt til að stofnað verði sérstakt hlutafélag til að annast þessi erlendu verkefni Orkustofnunar og að ábyrgð ríkissjóðs á því verði takmörkuð við hlutafjárframlag.

Með tilliti til þess að söluvara þessa hlutafélags er sérþekking og reynsla, sem er í Orkustofnun, er gert ráð fyrir að stjórn stofnunarinnar fari jafnframt með stjórn þess undir yfirstjórn ráðherra orkumála. Gert er ráð fyrir að samvinna við aðra um þessi erlendu verkefni verði aðalreglan, enda þótt hitt geti líka skeð að stofnunin vinni þau ein. Slík samvinna getur verið ýmist við einn innlendan aðila, við erlendan aðila eða hvort tveggja í senn. Nauðsynlegur er mikill sveigjanleiki í því efni til að geta fljótt gripið tækifæri sem bjóðast og brugðist án tafar við mismunandi stöðu mála. Er því gert ráð fyrir því að hlutafélagið geti, með leyfi ráðherra, gengið til samvinnu við aðra allt eftir því sem heppilegast þykir hverju sinni.

Herra forseti. Þegar þessari umr. lýkur legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og iðnn.