31.05.1985
Neðri deild: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5809 í B-deild Alþingistíðinda. (5159)

520. mál, frjálsir vöruflutningar á sjó

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er nokkuð óvenjulegt hvernig hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson kemur aftur og aftur hingað í þennan ræðustól og viðhefur brigslyrði um þá menn sem fyrir nokkrum árum tóku eina umdeilda ákvörðun á þessu háa Alþingi. Það er fremur óvenjulegt að menn skuli ekki geta virt það að menn hafa mismunandi skoðanir í málum og að menn hafa mismunandi rök fyrir því að móta sína afstöðu. Engu að síður skeður það aftur og aftur að þessi hv. þm. kemur hér í ræðustól og viðhefur ummæli lík þeim sem hann lét sér um munn fara áðan um þetta tiltekna mál og um afstöðu þm. á þeirri stundu sem þá var. Mér finnst það nokkuð sérkennilegt. Ég mótmæli slíkum brigslyrðum eins þm. í garð annarra og þar með talinna fjarstaddra manna og manna sem ekki eru lengur hér á hinu háa Alþingi og hafa þar af leiðandi ekki tækifæri til að svara fyrir ákvörðun sína á þeim tíma.

Það er til ein einföld lausn á þessu máli. Hún er sú að láta þetta svonefnda varnarlið fara úr landinu og tryggja öryggi íslensku þjóðarinnar með ódýrari og betri og geðfelldari hætti en það getur gert. Þá þarf ekki lengur að deila um það hverjir skuli maka krókinn á þjónustu við þetta varnarlið. Þetta er að sjálfsögðu einfaldasta og nærtækasta lausnin og hana styð ég og skal hjálpa hv. þm. Ellert B. Schram hvar og hvenær sem er til að leysa þetta vandræðamál þeirra á þennan hátt.

En mér dettur það í hug, herra forseti, að hinum látna höfðingja Agli Skallagrímssyni, sem ætlaði að ausa út silfrinu forðum, mundi hlæja hugur í brjósti ef hann væri hér á meðal vor og gæti fylgst með þessari sérkennilegu deilu.