03.06.1985
Neðri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5816 í B-deild Alþingistíðinda. (5177)

456. mál, Byggðastofnun

Frsm. meiri hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur skilað nál. á þskj. 1058 um Byggðastofnun. Það er svohljóðandi:

„Nefndin hefur athugað frv. og klofnaði í afstöðu sinni til þess. Meiri hl. mælir með samþykki frv. með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj.

Undir þetta rita Páll Pétursson, Friðrik Sophusson, Halldór Blöndal og Þorsteinn Pálsson, en þeir sjálfstæðismennirnir skrifa undir nál. með fyrirvara um staðsetningu Byggðastofnunar.

Brtt., sem meiri hl. leggur til að gerðar verði á frv., eru á þskj. 1059.

Í fyrsta lagi ætlumst við til að gerð sé árleg heildarútlánaáætlun.

Við leggjum enn fremur til að veiting lána, ábyrgða og óafturkræfra framlaga skuli byggjast á umsóknum nema verið sé að afstýra neyðarástandi í atvinnu- og byggðamálum.

Við leggjum enn fremur til að Byggðastofnun sé heimilt að taka þátt í fjárfestingar- og þróunarfélögum og hafa samstarf við fjárfestingarsjóði og lánastofnanir, eftir því sem við á, um fyrirgreiðslu til verkefna sem samrýmast hlutverki hennar.

Við leggjum til að forsrh. gefi Alþingi árlega skýrslu um starfsemi stofnunarinnar. Þar komi fram ársreikningar og skrá yfir lánveitingar og óafturkræf fjárframlög Byggðastofnunar.

Þá leggjum við til að handbært fé Byggðastofnunar skuli geyma á reikningum í bönkum eða sparisjóðum skv. ákvörðun stjórnar Byggðastofnunar, en ekki. eins og segir í frv., í Seðlabankanum.

Enn fremur leggjum við til að gildistökuákvæði breytist og lögin taki gildi 1. október 1985.