04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5837 í B-deild Alþingistíðinda. (5186)

220. mál, beinar greiðslur til bænda

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér er nú á dagskrá. á sér alllangan aðdraganda. Svo er mál með vexti að þegar á þinginu 1976 flutti ég till. til þál. um að bændur fengju í hendur þá fjármuni sem þeim ern ætlaðir í greiðslu afurða- og rekstrarlána. Þessi till. fékk þá ekki afgreiðslu og var síðan flutt ár eftir ár og loks var hún samþykki árið 1979 með miklum meiri hluta hér á hinu háa Alþingi. En till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að settar verði reglur um rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins sem tryggi að bændur fái í hendur þá fjármuni sem þeim eru ætlaðir um leið og lánin eru veitt.

Jafnframt láti ríkisstj. fara fram athugun á því hvernig heppilegast sé að koma við breytingum á greiðslum útflutningsbóta og niðurgreiðslna þannig að þær nýtist betur.“

Á fimm ára afmæli þessarar ályktunar í fyrra, í maímánuði, 22. maí, sendi hæstv. viðskrh. bréf þar sem ítrekað var að bankarnir skyldu sjá um framkvæmd þessarar ályktunar. Bréfið hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Viðskrh. vill með bréfi þessu vekja athygli Seðlabanka Íslands á eftirfarandi ályktun Alþingis frá 22. maí 1979.“

Síðan kemur ályktunin og þá segir: „Framkvæmdavaldinu ber að sjálfsögðu að fara að ákvörðun hins háa Alþingis. Fyrir því er Seðlabanki Íslands beðinn um það hið allra fyrsta að senda rn. tillögur um framkvæmd ályktunarinnar.“

Í tilefni af þessu bréfi leyfði ég mér að bera fram fsp. til hæstv. viðskrh. og landbrh. snemma á þessu þingi og varð samkomulag um að hæstv. viðskrh. svaraði fyrir því að það var eðlilegt, og það gerði hann fyrir skömmu. Þá var sem sagt beint til hans fsp. um hvað liði þessari framkvæmd. Það mun hafa verið fyrir um það bil mánuði sem hann svaraði þeirri spurningu. En nú spyr ég hæstv. landbrh. um þetta sama mál því að það heyrir undir tvo ráðh., annars vegar bankamálaráðh. og hins vegar landbrh. Fsp. eru á þessa leið: „1. Hvernig hafa bændur tekið því nýmæli að fá nú beint í hendur rekstrar- og afurðalán sín „um leið og lánin eru veitt“ í samræmi við fyrirmæli Alþingis í þál. 22. maí 1979 og bréf viðskrn. á fimm ára afmæli hennar 22. maí s. L? Hafa bændasamtök látið í ljós álit sitt á þessu nýmæli?“

Ég gekk að sjálfsögðu út frá því sem vísu. þegar þessar fsp. voru fluttar að bankarnir hefðu farið að fyrirmælum viðskrh. og þetta væri allt komið í kring. Það hefur ekki reynst það enn þá, en mörg teikn eru nú á lofti um að bændur ætli ekki lengur að láta bjóða sér að þeir fái ekki í hendur þá fjármuni sem þeim ber, heldur sé valsað með þá meira og minna í afurðasölu- og verslunarfyrirtækjum, eins og öllum hv. þm. er kunnugt um að gert hefur verið í áratugi. Af því stafar fyrst og fremst sá mikli vandi sem landbúnaðurinn á nú við að etja.

Og í öðru lagi spyr ég nú: „Hafa nokkur brögð verið að því að afurðasölufélög reyndu að sniðganga fyrirmæli Alþingis eða einstakir bankar hliðrað sér hjá að sjá til þess að fyrirskipunum viðskrn. væri hlýtt?"

Raunar liggur nú fyrir í hv. fjh.- og viðskn. Ed. þál. um rétt skil afurðasölufyrirtækja til bænda. Í þeim viðræðum sem þar hafa farið fram við forustumenn í bændasamtökum t. d. hefur komið í ljós að bændur fá ekki enn rétt skil frá afurðasölufyrirtækjunum. en vonandi stendur það til bóta með þeirri nýskipun landbúnaðarmálanna sem nú er rædd og verður væntanlega lögfest hér, vonandi í næstu viku, því að þá verða þar mikil umskipti á, og ætti að mega vænta þess að bændur fengju héðan í frá sína fjármuni í hendur. en ekki einhverjir allt aðrir menn eða einhver önnur samtök.

Það bera þessu líka vitni þau sérgreinasamtök sem nú er verið að stofna. Við heyrum nærri því daglega fréttir af að bændur eru að mynda samtök til að gæta rénar síns og hagsmuna og er ekki nema gott eitt um það að segja.

Ég skal ekki hafa þessi inngangsorð fleiri. Ég vænti þess að hv. landbrh. geti svarað spurningum mínum. Eins og ég gerði grein fyrir áðan er þál. frá 22. maí 1979 tvíþætt, annars vegar um afurðalánin sem viðskrh. hefur nokkuð fjallað um. Þá kemur fram í hans svari hér að málið sé nú enn ekki komið fullkomlega í höfn, en ég vík kannske nánar að því hér á eftir. Hins vegar fjallar till. um það að ríkisstj. láti fara fram athugun á því hvernig heppilegast sé að koma við breytingum á greiðslum útflutningsbóta og niðurgreiðslna þannig að þær nýtist betur. En í tengslum við umr. um þessi mál öll sömul fyrir mörgum árum voru uppi tillögur um hvernig með það skyldi fara einmitt að þessir fjármunir gengju beint til bændanna, en yrðu ekki greiddir til afurðasölufélaga og verslunarfélaga og hefðu þar kyrrstöðu kannske mánuðum og misserum saman í bullandi verðbólgu sem rýrði auðvitað hag landbúnaðarins og yrðu fjármunir bændanna að litlu sem engu, en engin greið svör fengust um það sem kallað var þá og enn þá má kalla ferðasögu fjármunanna. Þeir stöldruðu æði lengi við á ýmsum stöðum án þess að úr þeirri flækju fengist greitt.