04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5864 í B-deild Alþingistíðinda. (5223)

513. mál, fjölgun vínveitingaleyfa

Guðrún Tryggvadóttir:

Herra forseti. Ég ætla að segja hér nokkur orð vegna fsp. hv. 2. þm. Austurl. Ég er alls ekki komin hér upp til að halda neina bindindisræðu og í sjálfu sér hef ég ekkert á móti víni ef það er notað í hófi. Ég er heldur ekkert á móti vínveitingastöðum, en ég tel að 50% fjölgun þeirra s. l. tvö ár sé of mikið af svo góðu.

Hún kom mér óþægilega á óvart, þessi háa tala, og mér varð fyrir að spyrja: Hvert stefnum við? Ég geri ráð fyrir því að margar ef ekki flestar þeirra umsókna sem afgreiddar hafa verið þessi tvö ár séu vegna þessara svokölluðu kráa eða „pöbba“ sem sprottið hafa upp hér mér liggur við að segja sem ný atvinnugrein, fyrst á höfuðborgarsvæðinu og teygir sig nú óðum út á ystu útkjálka landsins. Gott og vel. Boð og bönn eru ekki til neins. Það er löngu sannað mál. En við getum vissulega haft hemil á þessum málum. Við getum t. d. hækkað leyfisgjöld stórlega. Það borgar sig upp á skömmum tíma. Það er enginn vafi á því. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þeim þætti málsins. Ég tel einnig að við ættum að hækka áfengi enn meir en orðið er. Stærstur hluti þess fólks sem sækir vínveitingastaði eru meðal- og hátekjufólk. Þar er ekki láglaunafólkið og þar eru ekki almennu launþegarnir. Þar er ekki aldraða fólkið og þar eru ekki hrjáðir húsbyggjendur (sem eru í raun og veru á hvínandi kúpunni). Nei, þetta er meðal- og hátekjufólk sem þarf ekki að velta fyrir sér hverri einustu krónu. Reyndar sjást sjaldan í röðum viðskiptavina í útsölum ÁTVR almennir launþegar heldur og ekki aldrað fólk og ekki hrjáðir húsbyggjendur og ekki þeir sem eru á hvínandi kúpunni.

Með því að hækka gjaldið fyrir vínveitingaleyfin og áfengisverðið gætum við e. t. v. slegið tvær flugur í einu höggi: dregið úr leyfisveitingum, það mundi koma af sjálfu sér, og sömuleiðis náð til þess fólks sem að sumra mati leggur of lítið í ríkiskassann miðað við lífsstíl.