04.06.1985
Neðri deild: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5895 í B-deild Alþingistíðinda. (5252)

250. mál, réttur verkafólks til uppsagnarfrests

Frsm. minni hl. (Guðmundur J. Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta mál sem hér liggur fyrir er nú búið að ræða allítarlega hér á þinginu, bæði undir þessum lið og í öðrum ályktunum og till. sem ég hef komið fram með í sambandi við kjör fiskvinnslufólks. Það er nokkuð athyglisvert að hv. félmn. hefur skilað nál. fyrir röskum þrem vikum og þau ekki verið tekin fyrir þó að þau hafi verið á þskj. á dagskrá sennilega u. þ. b. þrjár vikur. Þó er þetta mál er varðar 11 þúsund manns sem býr við skert réttindi og sérstöðu meðal almenns launafólks. Þetta er það fólk ásamt sjómönnum sem meginhluti allrar útflutningsframleiðslu hvílir á.

Nær öll verkalýðsfélög á landinu — sem er mjög sjaldgæft að þau geri — félög þar sem sjávarútvegur er að einhverju marki, milli 30 og 40 félög, hafa sent áskorun til Alþingis að samþykkja þetta frv. Einnig hefur á nokkrum stöðum, Eskifirði, Akranesi, Hafnarfirði, Reyðarfirði, Vestmannaeyjum, verið safnað undirskriftum af viðkomandi starfsfólki, trúnaðarmönnum. Á þessum fimm stöðum held ég að það hafi aðeins verið einn sem ekki skrifaði undir og alls staðar í öllum stjórnum viðkomandi félaga hefur áskorun til Alþingis verið samþykkt einróma.

Um hvað er verið að biðja? Það er verið að biðja um það eitt að fiskverkunarfólk hafi sama rétt — og þó er ekki gengið svo langt — og annað verkafólk í landinu. Það hefur ákveðinn uppsagnarfrest en þetta verkafólk nú til dags hefur viku uppsagnarfrest og þessi stutti uppsagnarfrestur er í vaxandi mæli notaður af atvinnurekendum. Það er þó tekið tillit til þess í frv. að það mega falla niður 160 stundir á hverjum 12 mánuðum eða tvisvar sinnum 80 stundir og er þar komið á móti þessum sérstöku hlutum.

Það er rétt að hafa það vel í huga að þegar verið er að ræða um réttindi þessa fólks og því er sagt upp með viku fyrirvara þá er ekkert spurt að því hvort það hafi verið þrjá mánuði eða 30 ár í starfsgreininni. Nei, nei, bara burt. Þetta hafa atvinnurekendur verið að nota í vaxandi mæli og bókstaflega gera út á Atvinnuleysistryggingasjóð. Hér kom fram að eiginlega væru atvinnuleysisbætur hærri en kauptryggingin. Segir nokkuð annað betur um kjör þessa fólks en það að atvinnuleysisbætur séu hærri? Það er röksemdin fyrir því að vísa þessu í líkkistu ríkisstj.

Áður en samningur um kauptryggingu var gerður 1975, ef ég man rétt, var einfaldlega hægt að auglýsa í útvarpi t. d.: „Verkafólk í Ísbirninum, mætið til vinnu á morgun.“ Eða: „Klukkan eitt á morgun.“ Þetta var áður en samningurinn um viku uppsagnarfrest var gerður. Árangurinn varð þó sá að samningurinn hafði strax áhrif til samræmingar á veiðum og vinnslu. Að vísu tók Atvinnuleysistryggingasjóður þátt í hluta af þeim kostnaði sem af því hlaust. Þetta var, held ég, yfir fimm ára tímabil, dó út á fimm árum.

Ég vil aðeins benda á að það er verið að tala um að hér sé verið að færa útgjöld frá Atvinnuleysistryggingasjóði yfir á sjávarútveg. Hvernig er þessi Atvinnuleysistryggingasjóður saman settur? Ríkið borgar 2%, viðkomandi sveitarfélag borgar 1%, atvinnurekandi borgar 1%, um 70% af greiddum atvinnuleysisbótum er í sambandi við fiskiðnað. Sýnir þetta ekki að þarna er verið að gera út á Atvinnuleysistryggingasjóð?

Annað hlutverk þessa sjóðs og kannske meginhlutverk hans er ekki að greiða eingöngu bætur heldur að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Um árabil voru lánaðir tugir og hundruð milljóna. Hér hafa verið byggðar hafnir, hér hefur verið rekinn endahnútur á að byggð væru upp atvinnufyrirtæki, frystihús, vatnsveitur o. s. frv. sem hefur verið ýmsum byggðarlögum ómetanleg hjálparhella. Vitanlega er það mörgum sinnum heilbrigðara að lán sjóðsins fari til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi en að það þurfi að greiða um 200 milljónir tæpar eins og var á síðasta ári í atvinnuleysisbætur og þar af 70% vegna fiskvinnslu. Sannleikurinn er sá að í vaxandi mæli hafa frystihús og fiskverkunarstöðvar sagt upp fólki og notfært sér að það getur farið á þennan Atvinnuleysistryggingasjóð. Það er einmitt vegna þessara vinnubragða að það er ekki samræming á veiðum og vinnslu, að meginhlutinn af tekjum sjóðsins fer í bætur. Ég held nú að hver sem lítur á þetta hljóti að viðurkenna að þetta sé ekki eðlilegt.

Ég vil líka benda á að til skamms tíma fóru 2% af tekjum sjóðsins til kaupa á skuldabréfum Húsnæðisstofnunar. Sjóðurinn hefur ekki lengur fé til þess og hann hefur hætt að kaupa. Að vísu hafa verið lagðar aðrar byrðar á sjóðinn í sambandi við lífeyri aldraðra, en hann hefur ekkert fé til að kaupa bréf af húsnæðismálastjórn, heldur er það í mörgum tilfellum fyrir hreina óráðsíu fiskverkunarfyrirtækja að þetta fé er greitt svona.

Hver yrðu viðbrögðin ef sagt yrði við bankafólk sem væri búið, svo eitthvert dæmi sé tekið: „Það verður nú lítið að gera í næstu viku, ætli við sendum ekki helminginn af ykkur heim í næstu viku?“ Eða við fólk úr stjórnarráðinu, fólk úr opinberum stofnunum og í hvers konar þjónustustörfum: „Það verður lítið að gera í næstu viku, við ætlum að senda helminginn af ykkur heim.“ Ég veit ekki hvert þetta þjóðfélag stefnir sem lætur það viðgangast — þetta kemur líka stundum fyrir gagnvart sjómönnum — að það fólk, sem vinnur við grunnframleiðslustörf þjóðarinnar, sé rekið út eins og hundar og síðan kennt um erfiðleikum sjávarútvegsins.

Það er líklega best að vera ekki að vitna í neina smákarla. Forstjóri Coldwaters, Magnús Gústafsson, mætur maður og dugandi, sagði: Helsti vandi sölufyrirtækjanna í Bandaríkjunum er sá að okkur vantar starfsfólk í frystihúsin til þess að vinna dýrari pakkningar og okkur er sagt hér á Íslandi að fólk fáist ekki til þessara starfa. sölumiðstöð hraðfrystihúsanna segir að a. m. k. 1200 manns þurfi til að vinnsla ætti að vera viðunandi. Í hverju frystihúsinu á fætur öðru er flóttinn það mikill úr þessari starfsgrein að fiskur er settur í umbúðir sem hafa hálft verðmæti á móti því sem möguleikar væru að hafa og sá mismunur er meiri en nemur öllum vinnulaunum á viðkomandi tíma. Hvers konar stjórnunarlag er þetta eiginlega? Við þurfum að flytja inn á annað þúsund stúlkur frá Ástralíu, við töpum meira í gjaldeyri en sem nemur vinnulaunum, vegna þess að það er ekki hægt að láta þetta fólk fá almenn réttindi, sem allir aðrir í þjóðfélaginu hafa, vegna erfiðleika sjávarútvegsins. Sannleikurinn er sá að sjávarútvegurinn mundi stórgræða á því. Þetta fólk hefur sitt stolt. Þegar búið er að reka það fimm sinnum á sama árinu fær það sér aðra vinnu ef það á kost á henni.

Ég skal að vísu viðurkenna að ágætum félögum mínum í félmn., hv. þm. Stefáni Valgeirssyni og Eggert Haukdal, óaði við að fella þetta og neituðu eiginlega að fella þetta. Það var útlit á því á tíma í félmn. að þetta yrði samþykkt þar til flokkslínurnar komu. Hvað var þá bjargráðið? Bjargráðið var þá þetta, að vísa því til ríkisstj.

Það er búið að tala um það í allan vetur, það var talað um það í allan fyrravetur að við þyrftum að vanda framleiðsluna. Vöndun framleiðslunnar fer fram á þann hátt að stór hluti af þeim fiski, sem unninn er, er unninn í verra ástandi en þyrfti að vera vegna skorts á vinnuafli. Og áfram heldur flóttinn. Farið þið hér allt í kringum landið og þá sjáið þið hálf frystihús en fullar hráefnisgeymslur og síðan sjáið þið að afgangur afla viðkomandi skips er settur í ódýrustu umbúðir. Það er kvartað í sífellu undan háu fiskverði og háu kaupi þessa fiskverkunarfólks en jafnframt er upplýst að það græði á því að fara á atvinnuleysisbætur. Þvílíkt þjóðfélag sem ætlar að fara að rífa sig upp í bættari, vandaðri og meiri framleiðslu og afgreiðir þetta fólk á þennan hátt!

Þetta mál er búið að liggja hér nokkuð lengi. Hv. aðalforseti þessarar deildar, sem er almennt réttsýnn og góður í sinni fundarstjórn — (Forseti: Fyrsti.) Já, fyrsti — hefur að mínu mati dregið óhóflega afgreiðslu á þessu máli. En þó það liggi fyrir undirskriftalistar úr heilu byggðarlögunum, þó það liggi fyrir samþykktir frá hverju verkalýðsfélaginu á fætur öðru, þá skiptir það engu máli. Þó að það liggi fyrir að það þyrfti að flytja inn á annað þúsund manns til að vinna í þessari grein, þá skiptir það engu máli heldur þó að hægt sé að sýna fram á að það er fjárhagslegt tap að viðhalda þessu ástandi. Hvað skyldi hæstv. forsrh. og fyrrum sjútvrh. vera búinn að halda margar hátíðarræður um vandaða framleiðslu? Sannið þið til, hann verður einn af þeim hér á eftir eða næstu daga sem vísar þessu í sína líkkistu.

Ef virðulegir þm. halda að svona sé hægt að leika þetta fiskverkunarfólk áfram þá held ég að þeir átti sig ekki á tímans rás. Þetta fólk er sprungið. Það lætur ekki bjóða sér þessa hluti lengur. Vinnuveitendasambandið hefur hér sent tilboð eins og allir vita. Hvar er þar minnst á fiskverkunarfólk? Ekki einu aukateknu orði. Er einhver stefnuyfirlýsing frá ríkisstj. í þessu máli? Ekki aukatekið orð. Þetta fólk skal mæta afgangi og síðan koma hátíðarræðurnar hver á fætur annarri. Þetta heitir á góðu frystihúsamáli að vera „léttgeggjaður“ eða kunna ekki að skammast sín.

Ég skal svo ljúka máli mínu. Ég mun óska eftir nafnakalli þegar þetta mál verður hér afgreitt svo að menn geti séð að það eru kaldar kveðjur sem þetta fólk fær með svona afgreiðslu á málum. Það er verið að neita því um réttindi sem annað verkafólk hefur og það er verið að neita þeim staðreyndum að atvinnurekendur hafi misnotað Atvinnuleysistryggingasjóð á síðasta ári og á þessu ári í vaxandi mæli og gert út á hann. Það er verið að lítilsvirða þetta fólk með því að segja því upp nokkrum sinnum á ári. Ég verð að lýsa furðu minni og satt að segja hreinni andstyggð á þessum vinnubrögðum. Hér er ellefu þúsund manns, sem vinna við grunnframleiðslu þjóðarinnar, neitað um einföldustu mannréttindi. Hátíðarræðurnar eiga eftir að koma á færibandi, það mætti segja mér að þær yrðu mjög átakanlegar 17. júní. Þá verður búið að fella þetta frv. eða vísa því til ríkisstj. sem sennilega er nú sýnu verra en að fella það.

Ég skal svo ljúka máli mínu. En ég verð aðeins að segja það að umsagnir hæfustu manna, eins og forstjóra Coldwaters, eru að engu hafðar, það er að engu haft að okkar fiskur er ekki í þeim gæðaflokki sem hann gæti verið og það er staðreynd að fólk flýr þennan atvinnuveg hver sem betur getur. Ráðið verður eitt, að flytja inn útlendinga í hann og hafna því þjálfaða og reynda fólki sem hér á í hlut. En kveðjur löggjafarsamkomu, ef þessu verður vísað til ríkisstj., eru kaldar. Annað hélt ég að þetta fólk ætti skilið í þessu þjóðfélagi en slíkar kveðjur. En ég býst við að það eigi eftir að svara fyrir sig.