04.06.1985
Neðri deild: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5898 í B-deild Alþingistíðinda. (5253)

250. mál, réttur verkafólks til uppsagnarfrests

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig rétt að stundum skiptast þm. í atkvæðagreiðslu mjög hart eftir flokkslínum. En hitt hefur þó komið fram hér í vetur að stjórnarþingmenn hafa verið ódeigir við að flytja brtt. við mál sem aðrir stjórnarþingmenn voru búnir að ná samstöðu um í n. Mér þykir því ekki nein nýlunda þó að visst áframhald geti orðið á slíkum vinnubrögðum.

Það frv., sem hér er til umr. og fjallar um rétt verkafólks til uppsagnarfrests á störfum, hlýtur að leiða til verulegrar umhugsunar um þá þjóðfélagslegu skipulagningu sem við höfum verið að þróa í landinu. Það er búið að nokkru leyti að skipta þessu landi í þjónustusvæði og framleiðslusvæði, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þegar talað er um þjónustusvæðin virðist sem menn líti á það sem sjálfsagðan hlut að vissar reglur gildi í þjónustugreinum á milli þess sem rekur þá starfsemi og þeirra sem vinna við þá starfsemi og við hikum ekki við að fullyrða að þjóðfélagið sem slíkt hafi efni á því að virða viðkomandi reglur.

Þegar kemur að undirstöðunni, sem allt hvílir á, er eins og það hlaupi hland fyrir hjartað í sumum og þeim finnist alveg fráleitt að sömu reglur geti gilt gagnvart fólki sem starfar við þær greinar, það setji þjóðina á höfuðið, það gangi einfaldlega ekki upp. Menn segja: Það verður þá bara að flytja inn verkafólk erlendis frá til að leysa þessi mál.

Mér sýnist að sú stefna, sem byggir á þeim þjóðfélagslegu viðhorfum að til undirstöðuatvinnugreinar Íslendinga eigi að flytja erlent vinnuafl til þess að einhver úthugsaður aðall eða forréttindahópur geti hegðað sér eins og hann vill í þjónustugreinum, gangi ekki upp. Mér sýnist að sú stefna beri í sér vissan dauða. Kannske þyrfti ég ekki að leggja neitt annað til en það að það væri lagaskylda að hafa hallalaus viðskipti við útlönd. Þá mundi það koma af sjálfu sér að það yrði að greiða mönnum þau laun við útflutningsframleiðslu að hægt væri að ná þeim markmiðum. Svo einfalt er þetta mál.

Ég hef lesið yfir nál. meiri hl. Þar vekja þeir athygli á því, með leyfi forseta, að tíð mannaskipti í þessari stærstu og mikilvægustu útflutningsgrein þjóðarinnar geti bitnað á gæðum framleiðslunnar. Höfum við efni á því að láta tíð mannaskipti bitna á gæðum framleiðslunnar? Auðvitað höfum við ekki efni á því. Það er algjörlega glórulaust að búa svo að atvinnuöryggi þessa stóra hóps sem þarna er um að ræða að það flýi hver sem betur getur — e. t. v. vegna þeirrar vanvirðu sem mönnum er sýnd með því að segja þeim upp margsinnis — yfir í aðrar atvinnugreinar.

Ég er þess vegna ekki jafnbjartsýnn og meiri hl. félmn. um að samstaða náist um úrbætur í þessu máli. Ég varð ekki var við annað en að frsm. meiri hl. félmn. hefði fullákveðnar meiningar um að þetta væri raunverulega harla gott eins og þetta er. Þegar slíku er haldið að mönnum sér maður kannske ekki að miklar líkur séu til þess að samstaða náist um úrbætur.

Það hefði verið eðlilegt að félmn. hefði tekið efnislega á þessu máli, lagt til breytingar á þessari 3. gr., ef meiri hl. var andvígur till. flm., vegna þess að hér er ekki um flókið mál að ræða. Hér er aftur á móti um grundvallaratriði að ræða.

Ég tel að sú þjóðfélagslega röskun, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, m. a. með flótta landsbyggðarinnar til Reykjavíkur, megi að nokkru rekja til þess að atvinnuöryggið í þessari atvinnugrein er minna en í þjónustugreinunum. Halda menn virkilega að það sé aldrei skortur á verkefnum í þjónustugreinunum? Halda menn virkilega að það komi ekki hlé þar? Auðvitað koma þar hlé. Mjög oft er um ofmönnun að ræða, kannske mánuð, tvo mánuði eða lengur hjá ákveðnum stofnunum. Svo koma tarnir þess á milli. Hver kannast ekki við þetta? En þar njóta menn atvinnuöryggis.

Ég hlýt því að lýsa því yfir að meðan sömu eigendur frystihúsa og fiskiskipa stunda þann leik að senda skipin í söluferðir með fiskinn en segja fólkinu upp, þá sé skilningurinn á þörfinni fyrir atvinnuöryggið ekki til staðar. Það er hægt og er kannske hámark ósvífninnar — að halda því fram að menn fái meira í atvinnuleysisbætur en fyrir að vinna við fiskvinnu. Ef þetta er rétt, sem ég treysti mér ekki til að dæma um, þá erum við á villigötum. ( Gripið fram í: Það er í nál. frá meiri hl.) Mér er ljóst, hv. 7. þm. Reykv., að þetta er í nál. frá meiri hl. En trúir því nokkur maður að það geti verið hægt að leggja það að jöfnu að vera atvinnulaus og að vinna í fiski, það sé sanngjarnt að þeir beri það sama úr býtum?

Við höfum verið að afgreiða hvert frv. á eftir annað í vetur um aukin starfsréttindi handa hinum og þessum stéttum þjóðfélagsins. Alltaf virðist hafa verið rými fyrir þessi auknu réttindi. En hver borgar? Þjóðin öll. Svo er komið að þessum fjölmenna hópi sem er undirstaðan, þá er allt í einu ekkert rými.

Herra forseti. Miðað við það að ég ber ekki traust til þess að samstaða náist um úrbætur í þessu máli á ég það val eitt að greiða frv. atkvæði eins og það er í upprunalegri mynd.