05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5912 í B-deild Alþingistíðinda. (5265)

Afgreiðsla þingmála í efri deild

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Mér brá dálítið í brún þegar ég las blöðin í morgun og sá þessar yfirlýsingar, en nú er komin skýring á hvern verið er að tugta til og hvers vegna hæstv. forsrh. kom með þessar ábendingar í blöðunum. Það eru sem sagt stjórnarþm. sem standa sig ekki sem skyldi. Það er ánægjuefni fyrir stjórnarandstöðuna að hafa hæstv. forsrh. sér við hlið til að ýta á eftir málum stjórnarandstöðunnar sem liggja í þingnefndum.

Hann nefndi að eitt mál lægi hjá sjútvn. Ég vil upplýsa hæstv. forsrh. um að það er frv. varðandi verðlagsráð sjávarútvegsins, en brtt. sama efnis var felld hér í hv. Ed. og því ekki von til þess að frv. verði afgreitt úr nefndinni.

Í landbn. eru fjögur mál, eins og hann nefndi. Eitt er nýlega þangað komið. En tvö þeirra, sem ég man eftir í fljótu bragði, eru brbl. sem voru sett í september og eru óafgreidd úr nefndinni. Enn fremur er þar frv. til l. um sölulaun á útfluttar landbúnaðarvörur sem von er til að verði drifið út.

Í hv. heilbr.- og trn. átti að vera fundur í morgun, en af einhverjum orsökum var hann afboðaður á síðustu stundu. Ég hef ekki fengið skýringar á því. En kannske á ég von á að mitt mál verði þar afgreitt í snarhasti og samþykkt hér á þinginu.